Sigurganga SA heldur áfram | Herzt-deild karla

Sigurganga SA heldur áfram | Herzt-deild karla

Mynd úr síðustu rimmu liðanna í Laugardalnum í Október. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Ekki tókst SR að stoppa sigurgöngu SA-inga í Laugardalnum í dag fyrir fullri höll.
Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn enda ringdi mörkum og leikurinn hnífjafn og æsispennandi allt fram á lokasekúndur.

SR-ingar hófu leikinn af miklum krafti og ætluðu greinilega ekki að tapa gegn SA með einu marki þriðja leikinn í röð – skoruðu strax eftir 46 sekúndur. SA-ingar jöfnuðu eftir sléttar 2 mínútur og þannig var þetta mestallan leikinn, liðin skiptust á að hafa forystu. SA leiddi eftir fyrsta leikhluta 2-3 og SR leiddi eftir annan leikhluta 5-4.

Hart barist í leik liðanna í október. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

SA gerði svo gott sem út um leikinn um miðjan þriðja leikhluta með þremur mörkum á 6 mínútna kafla og komin í kjörstöðu 5-7.
SR tók Atla úr markinu og bætti við sóknarmanni sem skilaði þeim marki skömmu seinna en lengra komust heimamenn ekki og lokatölur 6-7 norðanmönnum í vil.

Jafnt var á öllum tölum í leiknum.
SR með 40 skot á mark en SA með 39.
Markmaður SR með 32 varin skot og markvörður SA með 34 varin.
SR-ingar með 8 refsimínútur en SA með 6.
Norðanmenn nýttu yfirtölu betur og skoruðu þannig þrjú mörk, sem mögulega gerði gæfumuninn í kvöld.

Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

SA er nánast búið að stinga hin félögin af í Hertz-deildinni, er með fullt hús stiga eftir 9 leiki, SR í öðru sæti með sex stig eftir 7 leiki og Fjölnir með þrjú stig einnig eftir 7 leiki.

Mörk heimamanna skoruðu Styrmir Maack, Filip Krzak (2), Felix Dahlstedt, Kári Arnarsson, Ólafur Björnsson
Mörk gestanna skoruðu Unnar Rúnarsson, Matthías Stefánsson, Andri Mikealsson, Uni Blöndal, Róbert Hafberg, Andri Sverrisson, Orri Blöndal.

Upptöku af leiknum má finna á Youtube-rás ÍHÍ í leiklýsingu Helga Páls Þórissonar og Guðlaugar Ingibjargar Þorsteinsdóttur. Leikskýrslu má lesa hér.

Höfundur: