Fjölnis konur íslandsmeistarar annað árið í röð!

Fjölnis konur íslandsmeistarar annað árið í röð!

Birt: 19.03.2025Flokkar: Fréttir
IMG_6515

Kvennalið Fjölnis vann í gærkvöldi íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna annað árið í röð í hörkuleik á Akureyri.

Greinilegt var í upphafi leiks að norðankonur ætluðu að vinna þennan leik.  Sóknaraðgerðir þeirra voru miklu mun beittari heldur en Fjölnis kvenna. Það virtist alveg sama hverju þær rauðklæddu hentu á markið annaðhvort var skotið blokkerað af leikmönnum Fjölnis eða þá að markvörðurinn Karítas Halldórsdóttir varði. Segja má að Skautafélag Akureyrar hafi í fyrsta leikhluta nánast yfirspilað lið Fjölnis, en með samheldni og frábærum varnarleik tókst Fjölnis konum að halda markinu hreinu.  

það var síðan nokkuð gegn gangi leiksins að Hilma Bergsdóttir með eigin frumkvæði vann pökkinn og stakk sér inní varnarsvæði SA og skoraði fyrsta mark leiksins á 18 mínútu án stoðsendingar. Staðan því í leikhlé 0-1 Fjölniskonum í vil.

Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn nokkuð og mátti sjá skemmtilega takta og dauðafæri á báða bóga.  það var síðan á sautjándu mínútu annars leikhluta eða á  þrítugustu og sjöundu mínútur leiksins sem að Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði með harðfylgi eftir mikinn gauragang fyrir framan mark SA annað mark Fjölnis kom eftir stoðsendingar frá Lauru Ann Murphy  Og Elínu Darkoh. 

Þegar 6 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta náði Anna Sonja Ágústsdóttir að skora fyrir Skautafélag Akureyrar. Við þetta mark SA færðist mikið fjör í leikinn og sóknaraðgerðir norðankvenna urðu beittar og ákveðnar. En eins og í fyrsta leikhluta tókst Fjölnis konum að verjast þessum norðan áhlaupum, og leiknum lauk með sigri Fjölnis tvö mörk gegn einu. Fjölnir vann því í úrslita einvígið 3 -1, og því íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

Tölfræði leiksins má finna hér