Sigur á Norður Kóreu í Póllandi

Sigur á Norður Kóreu í Póllandi

Sunna

Sunna tekur við viðurkenningu sinni frá Írisi Björk Árnadóttur hokkímömmu

Kvenna landsliðið okkar lagði fyrr í dag Norður Kóreu 3 – 2 eftir nokkuð strembinn leik.

Þetta var nokkuð kaflaskiptur leikur. Íslenska liðið virkaði rólegt jafnvel þreytt og það var það ekki að sýna sínar bestu hliðar fyrstu tvo leikhlutana. Liðið náði þó forystu með marki frá Berglindi Leifsdóttur eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu Garðarsdóttur. Á þessum tímapunkti vorum við að spila í yfirtölu einum leikmanni fleiri.

Sjö mínútum síðar jöfnuðu Kóreu stúlkur leikinn. Sjö og hálfa mínútu inn í annan leikhluta komst N-Kórea yfir 1-2 og þær náðu að halda þeirri stöðu út leikhlutann. Í þriðja leikhluta voru okkar konur loks vaknaðar og það var allt annað lið sem kom inná ísinn í þriðja og loka leikhlutanum. Liðið gjörsamlega yfirspilaði lið N-Kóreu. Það skilaði árangri strax á 7. mínútu leikhlutans þegar Sunna Björgvinsdóttir fyrirliði, skellti inn marki eftir stoðsendingu frá Silvíu Björgvinsdóttur (þær eru ekki systur) markið var skorað í yfirtölu. Leikurinn orðin jafn og við enn með öll völd á svellinu.

Fjórum mínútum síðar átti Silvía aftur glæsilega stoðsendingu sem Hilma Bergsdóttir þakkkaði pent fyrir og smellti framhjá kórenska markverðinum og við komin í forystu sem var aldrei í hættu það sem eftir lifði leiks.

Í samtali við Jón Gíslason aðalþjálfara liðsins var hann verulega ánægður með karakterinn í liðinu og hvernig þær rifu sig upp og yfirspiluðu andstæðingana í þriðja leikhluta. „Þarna kom í ljós raunveruleg geta liðsins og karakterinn maður minn, þær kórensku sáu ekki til sólar þennan leikhluta. Í þriðja leikhluta var þetta var Íslenskt hjarta alla leið“ sagði Jón

Sunna Björgvinsdóttir var valið besti leikmaður liðsins eftir leik.

Í tölum:

Mörk: (1:1, 0:1, 2:0) 3:2

Skot á mark: (10:8, 10:8, 14:2) 34:18

Nánari tölfræði má finna hér

Markaskorarar dagsins hér að neðan