SR hafði betur í Egilshöll – Julianna með stórleik í markinu

by | 15 okt, 2025 | Fréttir, Toppdeild Kvenna

Kvennalið Fjölnis og SR áttust við í Egilshöll í gærkvöldi í annari umferð Toppdeildar kvenna. Fyrir leikinn var lið Fjölnis á botni deildarinnar stigalaust, með sigri hefðu þær komist upp að hlið SR á stigatöflunni

Leikurinn var jafn allan tímann, aldrei munaði meira en einu marki á liðunum. Eftir fyrstu lotu leiddu SR með einu marki sem kom frá Bríeti Friðjónsdóttur eftir undirbúning frá Berglindi Leifsdóttur í yfirtölu (power play).

Fjölnir svaraði fyrir sig í öðrum leikhluta, markið skoraði Sigrún Árnadóttir eftir undirbúning frá Lauru Murphy og Karen Þórisdóttur eftir 34 mínútna leik og var allt jafnt þegar þriðji leikhluti hófst.

SR byrjaði þriðja leikhlutann betur og eftir rúmar 4 mínútur kom Arna Friðjónsdóttir þeim yfir eftir aðstoð frá Ragnhildi Kjartansdóttur. Það tók Sofíu Bjarnadóttur ekki nema um 5 mínútur með hjálp Sigrúnar og Lauru að koma leiknum aftur í jafnvægi. Það var svo Arna Friðjónsdóttir sem skoraði sitt annað mark og kom SR stelpunum yfir í þriðja sinn með aðstoð frá Bríet systur sinni og Berglindi. Þetta mark tryggði SR sigur í leiknum þegar 5 mínútur voru eftir af leiktímanum. Skemmtileg staðreynd að þær systur Bríet og Arna skoruðu öll mörk SR í þessum leik.

Julianna að verja eitt af mörgum skotum í leiknum

Markmaður SR, Julianna Thomson, átti stórleik í markinu og varði 51 af þeim 53 skotum sem hún fékk á sig í leiknum eða 96,2% markvörslu. Julianna er að koma virkilega vel inn í deildina og mun hún vera mikilvægur hlekkur í liði SR í vetur.

 

Tölfræði:

SR:

Julianna Thomson, 51/53 (96,2%)

Arna Friðjónsdóttir 2/0

Bríet Friðjónsdóttir 1/1

Berglind Leifsdóttir 0/2

Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1

Refsimínútur: 6

Fjölnir:

Karítas Halldórsdóttir 15/18 (83,3%)

Sigrún Árnadóttir 1/1

Laura Murphy 0/2

Soffía Bjarnadóttir 1/0

Karen Þórisdóttir 0/1

Refsimínútur: 8

Næsti leikur í Toppdeild kvenna verður næst komandi laugardag í Laugardalnum þar sem SR geta komið sér upp að hlið SA sem sitja núna efstar í deildinni með þriggja stiga forskot.

Share This