Í kvöld klukkan 20:00 hér að staðartíma í Cape Town Suður Afríku, klukkan 18:00 heima á Íslandi spilar Stúlknalið okkar sinn opnunar leik við heimamenn. Ferðalagið hingað var langt og strangt 12 tíma næturflug og því voru þessir tveir dagar dýrmætir í því að ná flugþreytu úr kroppnum og orkustiginu upp. Það hafa verið smá vandamál sem hópurinn hefur þurft að glíma við eins og snertur af matareitrun sem öll liðin hafa verið að eiga við, þar með talið heimamenn sem voru með 8 leikmenn í keng á æfingu morgunsins.
Annars eru aðstæður hér hinar bestu, stór og góð hótelherbergi og hópurinn okkar samstilltur og flottur. En þá aftur að verkefninu framundan. Segja má að þessi lið 6 sem hér etja kappi séu í tveim styrkleikaflokkum. Tævan sem var að koma úr styrkleikaflokknum fyrir ofan, Belgía og við. Í neðri hlutanum eru síðan Mexíkó, Rúmenía, og heimamenn í Suður Afríku. Við erum semsagt í dauðafæri til þess að fara upp um styrkleikaflokk en til þess þarf að vinna alla leikina. Leikurinn í kvöld ætti ekki að standa fyrir okkar konum en strax á morgun þriðjudag verður lykilleikur við Belgíu, hann verður fyrsta stóra prófraunin fyrir liðið.
Við reynum að koma til ykkar upplýsingum bæði hér á FB og líka í gegnum íshokkí.is. Leikirnir verða allir í beinni útsendingu á streymisveitu Íshokkísambandsins sem má finna á icehockeyiceland.tv . Rétt er þó að benda á að samkvæmt skilyrðum IIHF eru leikirnir GeoBlokkaðir sem þýðir að ekki er hægt að horfa á þá utan Íslands. En fyrir þá sem kunna að nota VPN þá ætti það ekki að vera vandamál.
Áfram Ísland.
