„Gera svona – ekki svona“

„Gera svona – ekki svona“

Birt: 24.03.2023Flokkar: Fréttir, Greinar
Sarah-2

„Ég byrjaði pínu seint, ellefu ára, og var þá að spila í Toronto í Kanada,“ segir hin kanadíska Sarah Smiley sem, eins og þessi upphafsorð benda til, kemur upphaflega frá Toronto en er nú, áratugum eftir fyrstu skrefin á ísnum, innsti koppur í búri barnastarfs Skautafélags Akureyrar. Eðlilega þótti okkur forvitnilegt að heyra um hvernig örlögin hefðu komið þessu til leiðar og um leið að rýna örlítið nánar í lífshlaup þessa viðræðugóða Kanadamanns sem talar nánast lýtalausa íslensku.

„Ég varð ástfangin af íþróttinni strax og var bara í öllu sem ég gat í tengslum við hana allt árið um kring,“ heldur Sarah áfram af fyrstu kynnum sínum af svellinu, skautunum og hraðanum. „Stelpuhokkí var nú bara rétt að byrja þá,“ rifjar Sarah upp, en hún er fædd árið 1982, „það voru tvö þúsund stelpur að æfa í Kanada þegar ég var að byrja, núna eru þær um níutíu þúsund,“ segir hún og greinir því næst frá för sinni til Windsor til háskólanáms í íþróttafræði þar sem hún lék auðvitað íshokkí samhliða skólanum.

Að loknu námi hélt hún til Montreal og hóf leika innan vébanda kvennasambandsins NWHL. „Það var alveg frábært, ég var þar að spila og vinna sem einkaþjálfari í eitt ár en þá fór ég að velta því fyrir mér hvað mig langaði til að gera næst, ég var enn laus og liðug og ekki búin að festa ræturnar neins staðar,“ segir hún. Þá dregur skyndilega til tíðinda og Söruh berst tölvupóstur sem lagði línurnar fyrir næstu ár lífs hennar.

Á myndinni efst er Sarah með nokkrum stelpum sem hún þjálfaði árin 2009 og ’10 en á myndinni fyrir hér að ofan ber með sér mikla þróun þar sem Sarah er ásamt sömu stúlkum nema þarna er árið 2020 og dömurnar komnar á landsliðsæfingu.

Tölvupóstur frá Guðrúnu Blöndal

„Þessi póstur var frá Skautafélagi Akureyrar og þar stóð „við erum að leita að kvenkyns leikmanni til að koma og hjálpa okkur að spila og efla kvennahokkí í liðinu okkar“, og mér fannst spennandi að fara til Evrópu að spila, var búin að hugsa það áður að kannski fengi ég tækifæri til að gera það,“ segir Sarah frá og ekki annað hægt en að dást að tökum þeirrar kanadísku á íslenskri tungu, Sarah er meira að segja búin að tileinka sér norðlenskt harðmæli auk þess að ráða við snúnustu beygingar nafnorða eins og að drekka vatn.

„Mér var svo boðið að koma eitt tímabil, þetta var árið 2006, og ég átti þá bara að sjá hvernig mér líkaði að þjálfa. Árið 2008 var ég svo ráðin yfirþjálfari,“ segir Sarah og hlær dillandi hlátri.

Hvernig vildi það til að Akureyringar höfðu upp á Söruh í Kanada?

„Það var þannig að Guðrún Blöndal hjá SA sendi kanadískum þjálfara, sem hafði verið á Akureyri, póst og hann sendi póstinn áfram á annan hóp sem sendi hann svo aftur áfram og ég var sú eina sem svaraði – held ég,“ segir Sarah og getur enn ekki varist hlátri. „Þannig að ég var bara komin í ævintýri,“ bætir hún við.

Álagið varð fljótlega býsna mikið, eiginlega allt of mikið, Sarah var vakin og sofin yfir velferð norðlensks ungviðis á svellinu. „Þannig að árið 2009 ráðum við inn annan kanadískan þjálfara sem ég hitti í Ástralíu, Josh Gribben. Hann fór þá að þjálfa á móti mér og þá gat ég einbeitt mér meira að því að byggja upp barnastarfið, kvennahokkí og allt það, sem er búið að vera mín helsta ástríða síðan,“ segir Sarah.

Sarah segir íslenska málfræði hreinilega bara ekki hægt en talar þó glettilega góða íslensku þótt börnin hennar séu reyndar farin að leiðrétta hana.

Skiptir máli að hafa kvenkyns þjálfara

Hefur þróunin í kvennahokkíinu á Akureyri þá verið jákvæð?

„Já, hún hefur verið mjög góð. Hér áður fyrr vorum við oft að halda svona stelpuhokkídaga til að reyna að fá stelpur inn, en eins og staðan er núna er helmingur nýrra iðkenda stelpur. Þar til dæmis máli að hafa kvenkyns þjálfara, eins og við segjum, „if you see it you can be it“,“ segir Sarah og grípur í sitt móðurmál.

Sjálf lék hún fyrst með íslenska kvennalandsliðinu árið 2012 en lauk æfinga- og keppnisferli sínum árið 2020. „Þá hætti ég eftir að hafa fengið heilahristing, en þá var ég líka orðin 38 ára og mjög ánægð með minn feril. Ég fór á nokkur mót með kvennalandsliðinu og þjálfaði það líka,“ segir Sarah frá.

Á landsliðsæfingu árið 2020. Sarah er hætt keppni núna og einbeitir sér að starfinu hjá SA enda í mörg horn að líta.

Það hljóta að vera töluverð viðbrigði, mjög mikil kannski réttara sagt, að koma úr iðrum annáluðustu íshokkíþjóðar heims til Íslands þar sem íþróttin er nánast að slíta barnsskónum (þótt vissulega hafi ísknattleikar þekkst á landinu á sögutíma Íslendingasagna).

„Auðvitað var ég búin að búa mig undir það og fannst bara spennandi að geta hjálpað. Ég var auðvitað áberandi á svellinu fyrst en það minnkaði hratt með árunum eftir því sem íslensku stelpurnar voru búnar að æfa lengur. Allt í einu var ég að spila í landsliðinu með stelpum sem ég hafði verið að þjálfa sem börn,“ rifjar Sarah upp og hlær, „og sumar þeirra orðnar betri en ég. Þetta var auðvitað heilmikið ferli og gaman að upplifa.“

Allir þurfa að slaka á inn á milli, líka keppnisfólk í íshokkí til margra ára.

Magnað hvað Íslendingar hafi náð langt

Hún kveðst hafa uppskorið mikla virðingu á Íslandi sem íshokkíkona frá sjálfu fyrirheitna landinu Kanada, ekki síður frá karlkyns en kvenkyns iðkendum. „Og það þótti mér mjög skemmtilegt,“ segir Sarah sem aðspurð segist hreinlega ekki geta svarið að íshokkí beri enn höfuð og herðar yfir aðrar íþróttir í Kanada þegar litið er til vinsælda. „Fótboltinn er orðinn mjög stór í Kanada, hann hefur unnið á eftir því sem samfélagið hefur orðið fjölmenningarlegra, nú eru svo margir innflytjendur komnir til landsins. Það kæmi mér ekkert á óvart ef fleiri krakkar í Kanada væru að æfa fótbolta nú til dags en íshokkí,“ heldur hún áfram og reyndar kannaði Sarah þessa tölfræði eftir viðtalið og reyndust þá fleiri börn í landinu farin að stunda knattspyrnu en íshokkí. Enn sé þó litið á síðarnefndu íþróttina sem þá vinsælustu í Kanada.

Hún játar að sér þyki magnað hve langt Íslendingar hafi náð í íþróttinni þrátt fyrir takmarkaðan aðbúnað. „Við erum bara með þrjár hallir,“ segir Sarah með áhersluauka. „Hæfileikarnir eru fyrir hendi en leikskilningur og liðsspilun er eitthvað sem vantar upp á, við spilum ekki nógu marga leiki og ekki á móti nægilega ólíkum andstæðingum. Til að fara lengra vantar fleiri svell, við þurfum að geta spilað meira og keppt meira, en það er ótrúlegt hvað Íslendingar eru klárir í hokkíinu miðað við að vera bara með þrjár hallir,“ tekur hún enn fram.

Sarah kennir tvisvar í viku frá klukkan eitt til sex en álagið um helgar fer eftir því hvort mót standi fyrir dyrum. „Ég er líka íþróttastjóri fyrir skautafélagið og tek á móti skólahópum í kynningar á daginn og svo fer stór hluti starfsins auðvitað fram við tölvuskjáinn orðið, til dæmis samskipti við foreldra, við erum með 180 iðkendur undir átján ára svo í það fer mikill tími auk þess að skipuleggja æfingabúðir og halda utan um hitt og þetta,“ segir hún af starfi sínu þar sem greinilega er í mörg horn að líta.

Fjölskyldan svellköld árið 2019, Sarah og Ingvar ásamt börnunum Bonny, Ronju og Þóreyju.

„Þetta er bara ekki hægt“

Nú verður mikilli þungamiðjuspurningu ekki frestað lengur. Tök Söruh á íslenskri tungu eru slík að þangað kæmust fæstir sem hafa ensku að móðurmáli og flytja til Íslands á fullorðinsárum. Var þetta norræna beygingamál með öllum sínum reglum og undantekningum frá þeim sömu reglum bara ekkert mál?

„Ég tók bara einn dag í einu,“ svarar hún og skellir upp úr. Hvað annað? „Þegar ég kom árið 2006 voru börn ekki eins flink í ensku og þau eru í dag. Nú er munurinn orðinn mikill eftir að þau byrjuðu að horfa á YouTube og allt það. Á þessum tíma varð ég að tala íslensku við börnin. Fyrsta daginn lærði ég að segja „gera svona – ekki svona“ og þá komst ég langt áfram og gat kennt þeim ýmislegt. Það var svo mikil gjöf að þjálfa börn og verða að læra íslensku. Það kom ekkert annað til greina en að drífa bara í því,“ segir Sarah af upphafi íslenskunáms síns árið 2006. Það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva. „Svo var ég feimin að tala við fullorðið fólk alveg í þrjú ár en svo kom það bara smátt og smátt,“ rifjar hún upp.

„Þetta er bara ekki hægt,“ segir hún af bjargfastri sannfæringu, innt eftir upplifun hennar af íslenskri málfræði, „en ef fólk skilur mig og ég get tjáð mig er ég alveg sátt. Börnin mín eru samt farin að leiðrétta mig,“ játar Sarah með ísmeygilegum hlátri en hún á íslenskan mann, Ingvar Þór Jónsson, sem er mikill íshokkíunnandi. „Við hittumst í höllinni á Akureyri en hann hefur spilað í mörg ár, bæði með SA og landsliðinu og félögum í Reykjavík og Danmörku,“ segir Sarah frá en börnin sem leiðrétta hana eru þau Bonny, Ronja og Þórey.

Fjölskyldan í útilegu á fósturjörð Söruh, íshokkíveldinu Kanada.

Yndisleg tengdafjölskylda á Akureyri

Hún reiknar með að dvelja áfram á landi elds og ísa enda unir hún hag sínum vel en vitanlega eru heimsóknir til Kanada á döfinni inn á milli þótt nýafstaðinn heimsfaraldur hafi sett þar strik í reikninginn. „Foreldrar mínir eru að eldast og maður finnur þá kannski aðeins meira fyrir því að maður er langt í burtu en ég á alveg yndislega tengdafjölskyldu hér,“ segir Sarah af högum sínum.

Henni þykja sumir þættir íslenskrar og kanadískrar menningar og mannlífs nokkuð svipaðir, annað er hins vegar að hennar sögn mjög ólíkt. „Kanadískir menn eru til dæmis miklu skipulagðari en íslenskir og hugsa lengra fram í tímann, en þetta er auðvitað bara eitthvað sem maður venst,“ segir kanadíska íshokkívalkyrjan Sarah Smiley á Akureyri af löstum Íslendinga sem greinilega eru ekki margir í huga gestsins þótt glöggt sé auga hans eins og máltækið segir. Og þar látum við staðar numið.