Komdu að æfa

Íshokkí er hröð og skemmtileg íþrótt, bæði fyrir stelpur og stráka. Þar fá börn góða útrás fyrir hreyfiþörf sína.

Af hverju að vera með?
Að spila íshokkí eflir sjálfsöryggi, hreysti og sjálfstraust. Þjálfunin eykur snerpu, styrk og samhæfni. Börn njóta þess að fá tækifæri til að iðka spennandi íþrótt sem býður upp á að læra nýja og fjölbreytta tækni. Mikilvægast er þó að þau skemmta sér í heilbrigðu og öruggu umhverfi.

Hópíþrótt
Það er fátt betra en vera í liði. Íshokkíleikmenn eignast nýja vini um leið og þeir læra um hópvinnu, traust og ábyrgð – eiginleika sem endast ævilangt.

„Learn to play“
Kennslan í yngri flokkunum byggist á kennsluaðferðinni „Learn to play“ sem er gefin út af Alþjóða íshokkísambandinu. Hún snýst um að kenna grunntækni á skautum á skemmtilegan hátt þar sem leikgleðin er í fyrirrúmi.

Íshokkímót
Helgarmót í yngri flokkum eru haldin fjórum sinnum á ári. Þar gefst leikmönnum tækifæri til að kynnast betur og oft myndast vinskapur sem endist lengi. Stigin eru ekki talin á þessum mótum enda snýst þetta um að hafa gaman.  Allir fá að spila jafnmikið því allir í liðinu skipta máli.

Ef barnið þitt hefur áhuga á að prófa íshokkí þá eru hér tenglar á skautaskóla skautafélaganna.
 
Skautafélag Akureyrar
Vetraríþróttamiðstöð Íslands
Fjölnir
Egilshöll
Skautafélag Reykjavíkur
Laugardal

Hvað segja börnin?

María Guðrún Eiríksdóttir,
íshokkístelpa hjá SA

Af hverju æfir þú íshokkí?
Ég fór að æfa með bestu vinkonu minni þegar ég var sjö ára og strax á fyrstu æfingu elskaði ég hokkí og þetta er það skemmtilegasta sem ég geri.

Hvað er skemmtilegast á æfingum?
Mér finnst skemmtilegast að spila og vera á tækniæfingum, það er líka svo gaman að hitta alla krakkana sem ég æfi með og líka að keppa við önnur lið.

Af hverju ættu aðrir krakkar að koma og æfa íshokkí?
Íshokkí er skemmtilegur félagsskapur, þar sem stelpur og strákar æfa saman og erum við öll jöfn. Íshokkí er spennandi og líkamlega erfið íþrótt sem reynir á mann allan og maður þarf líka að hugsa mikið. Íshokkí er hröð og hörð íþrótt og maður þarf að læra að spila vel með liðsfélögunum því að hver og einn hefur mikilvægt hlutverk. Ég skora á alla að koma og prófa íshokki og hafa gaman því ég elska að vera hokkístelpa!

Eva Hlynsdóttir,
íshokkístelpa hjá Fjölni

Af hverju æfir þú íshokkí?
Af því að mér finnst það gaman og ég á góða vini þar. Bróðir minn æfir líka íshokkí hjá Birninum og hann er roooosa góður.

Hvað er skemmtilegast á æfingum?
Mér finnst til dæmis mjög skemmtilegt þegar við æfum sendingar og þegar við spilum eða keppum.

Af hverju ættu aðrir krakkar að koma og æfa íshokkí?
Af því að það er gaman í íshokkí og oft mikið fjör á æfingum hjá okkur. Og það vantar fleiri stelpur í íshokkí.

Ýmir  Hafliðason Garcia,
íshokkístrákur hjá SR

Af hverju æfir þú íshokkí?
Í fyrsta skipti sem ég sá íshokkí var ég einfaldlega sjúkur í það, ég sá það í einhverri höll. Þegar ég var fjögurra ára útbjó ég mér kylfu og pökk úr dóti sem ég átti og notaði kommóðu sem mark.

Hvað er skemmtilegast á æfingum?
Mér finnst mjög skemmtilegt að spila. Mér finnst æfingin piparkökukall og þrautir líka skemmtilegar. Piparkökukall er æfing þar sem maður fer yfir svellið en ýtir sér með því að mynda áttur með skautunum á ísnum, þ.e.a.s. að opna fæturna í sundur og ýta sér áfram og loka þeim svo aftur. Þrautir eru æfingar þar sem maður hoppar og skoppar yfir og undir alls konar hindranir eins og garðbekki. Maður fer líka í kringum dekk og keilur.

Af hverju ættu aðrir krakkar að koma og æfa íshokkí?
Út af því að íshokkí er frábær íþrótt!

Þjálfararnir

Sarah Smiley,
yfirþjálfari hjá SA

Sarah er frá Kanada en þar í landi er íshokkí mjög vinsæl íþrótt. Hún byrjaði að æfa 12 ára og var farin að þjálfa 14 ára. Sarah spilaði íshokkí í háskóla og í NWHL deildinni í Kanada. Hún flutti til Íslands árið 2006 til að spila með Skautafélagi Akureyrar og þjálfa hjá félaginu. Ásamt yfirþjálfarastarfinu þjálfar hún einnig börn undir 12 ára aldri, meistaraflokk kvenna og hefur verið aðalþjálfari kvennalandsliðs Íslands á fjórum heimsmeistaramótum.

Það skemmtilegasta við íshokkí er hversu hröð og tignarleg íþróttin er. Það er frábært að vinna sem liðsheild að sameiginlegum markmiðum í þessari hörkuíþrótt. Einnig er skemmtilegt hvað það tekur langan tíma að klæða sig í gallann því þá upplifir maður margar skemmtilegar stundir í búningsklefanum í góðum félagsskap.

Það sem þjálfarastarfið hefur kennt mér er að hvert einasta barn er mikilvægt, það ekkert skemmtilegra en að hjálpa barni að finna sig í íþróttinni. Það er líka mikilvægt að hafa samskiptahæfni; að vera opinn og tilbúinn að ræða við fólk til að leysa vandamál sem upp koma og læra eitthvað nýtt í leiðinni. Síðast en ekki síst þarf þjálfari að vera vel skipulagður til að ná árangri

Í skautaskólanum leggjum við áherslu á að börnin fái mikla hreyfingu og finnum síðan leiðir til að kenna tækni og samspil á skemmtilegan hátt. Við komum vel fram við börnin, erum jákvæð og góðar fyrirmyndir en fylgjum samt reglum.

Andri Freyr Magnússon þjálfari yngri flokka hjá Fjölni

Andri byrjaði að þjálfa hjá Skautafélagi Akureyrar árið 2000 og var þar aðstoðarþjálfari í fjögur ár, hann var síðan þjálfari í Íshokkískóla SR áður en hann færði sig um set yfir í Fjölni árið 2020. Andri lauk þjálfaranámskeiði árið 2015 í Finnlandi á vegum Alþjóða íshokkísambandsins og er vottaður „Learn to Play“ leiðbeinandi.

Það er svo margt skemmtilegt við íshokkí, til dæmis þegar einhver skautar til mín í skautaskólanum bara til að segja mér að hann/hún hafi ekki dottið neitt á æfingunni. Svo eru það rútuferðirnar og mótin hjá yngstu iðkendunum.

Ég er með nokkur markmið við þjálfun. Allir eru með, það þarf að sýna öllum áhuga og tala við alla. Einnig er mikilvægt að útskýra betur ef einhver skilur ekki það sem við erum að gera.

Skautaskólinn snýst um að hafa gaman á meðan maður lærir á skauta. Þetta er 80% leikur og 20% æfingar. Við byrjum oftast á skautabraut, förum í skautaæfingar og fullt af leikjum og þrautum. Allt er þetta gert með leik í huga til að vekja áhuga á íþóttinni.

Ég á margar góðar minningar, til dæmis á Akureyri áður en byggt var yfir svellið. Þar renndum við okkur á maganum í rigningarpollum, spiluðum í snjókomu þar sem ekki sást í pökkinn fyrir snjó og stundum voru um fjögurra metra háir snjóskaflar kringum svellið. Einnig eru öll mótin og Íslandsmeistaratitlarnir minningar sem eru mér kærar.

Milos Racansky yfirþjálfari yngri flokka hjá SR

Milos, sem er frá Tékklandi, flutti til Íslands árið 2013 og hefur búið og starfað hér síðan og fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2018. Ásamt því að þjálfa hjá SR er hann einnig leikmaður með karlaliði félagsins og íslenska landsliðinu í íshokkí. Milos hefur einnig verið aðalþjálfari U18 karlalandsliðsins og aðstoðarþjálfari U20.

Það skemmtilegsta við íshokkí er að vera hluti af liðsheild – að hafa gaman og þróast saman sem lið í hraðri og spennandi íþrótt.

Mín markmið í þjálfun eru að undirbúa krakka fyrir lífið með því að gera þau að góðum manneskjum. Kenna þeim virðingu, auðmýkt, aga og tryggð bæði á ísnum og utan hans. Þjálfarastarfið breytti mér sem manneskju – ég fékk nýtt sjónarhorn á lífið við að sjá krakka læra og þroskast.

Í Íshokkískóla SR erum við að kenna krökkum að skauta nr. 1, 2 og 3 – og hafa gaman í leiðinni.

Það er erfitt að velja úr því ég á svo margar góðar íshokkí minningar. Ætli það sé ekki þegar U20 landslið Íslands vann gullið á HM árið 2019 en ég var aðstoðarþjálfari liðsins á því móti. Ógleymanleg stund.

Búnaðurinn

Það er öruggt að spila
Þótt mörgum sem sjá myndir af íshokkí í fréttum, þyki fullmikil snerting leyfð, þá er hún með öllu bönnuð í yngri flokkum. Varnarbúnaður er góður og meiðsli eru sjaldgæf.

Búnaður
Ekki þarf mikinn búnað til að hægt sé að byrja í íshokkí og skautafélögin veita hjálp varðandi val á búnaði. Ennfremur geta félögin lánað eða leigt notaðan búnað. Skautar og hjálmur er nóg í fyrstu skiptin og það má fá lánað á staðnum.

Þessi upplýsingasíða var sett upp af Dagbjörtu Tryggvadóttur fyrir Íshokkísamband Íslands.