HM karla í Madríd – Erfiðir Króatar
HM karla í Madríd – Erfiðir Króatar
Annar leikur Íslands á HM í Madríd var gegn Króatíu. Króatar sigruðu Ástrali í gær, 6-4, og mættu vel stemmdir til leiks.
Fyrsti leikhluti
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós þegar mínúta var liðin af leiknum. Ísland átti í basli við að koma pekkinum út úr sínu svæði. Króatar settu mikla pressu á strákana og #7 Domen Vedlin náði pekkinum fyrir aftan mark Íslands. Domen sendi pökkinn á #19 Bruno Idzan sem tók skot. #1 Jóhann Ragnarsson varði skotið en Domen Vedlin náði frákastinu og skoraði af stuttu færi. 1-0 fyrir Króatíu.
Tæpar 9 mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar Króatar komust í skyndisókn. Króatarnir komust 2 á móti markinu en Jóhann Ragnarsson varði lista vel. Uppkast var í kjölfarið sem Króatar unnu. Króatar áttu skot framhjá marki Íslands en náðu pekkinum aftur. #38 Dominik Canic náði pekkinum í vinstra horninu, sendi út á #97 Jan Smolec sem skaut úr löngu færi við bláulínuna. #5 Patrik Dobric varð fyrir skotinu og breytti stefnu pökksins smávæginlega þannig hann rataði inn.
Lítið gerðist síðustu 10 mínútur leikhlutans og stóð því staðan 2-0 fyrir Króatíu í leikhlutans.
Annar leikhluti
Fyrsta mark annars leikhlutans kom þegar 9 mínútur voru liðnar. Strákarnir voru í sókn og áttu skot á markið en pökkurinn endaði hjá Króötum. Strákarnir voru fljótir að vinna pökkinn aftur og komust fljótt inn á svæði Króata með langri sendingu. #23 Jóhann Leifsson reyndi sendingu fyrir markið sem mishepnaðist. #5 Gunnar Arason náði pekkinum og sendi hann út fyrir miðju svæðisins. #19 Andri Mikaelsson var rétt staðsettur og speglaði pekkinum með skautanum fyrir markið þar sem Jóhann Leifsson var búinn að koma sér fyrir. Jóhann lagaði stöðuna fyrir Ísland, 2-1.
Króatar voru ekki lengi að svara fyrir sig. Íslensku strákarnir sóttu inn á svæði Króata en misstu pökkinn. #38 Dominik Canic sendi pökkinn fram á #13 Luka Mikulic sem kom pekkinum inn á svæði Íslands. Luka var einn á móti varnarmanni Íslands. #90 Niko Cavlovic gaf verulega í og var á undan varnarmönnum Íslands. Luka sendi pökkinn á Niko, sem var í dauða færi, og þrumaði pekkinum inn við fyrstu snertingu. Staðan 3-1 fyrir Króatíu.
Stuttu seinna fengu strákarnir tækifæri einum fleiri en sóknin gekk brösulega. Íslensku strákarnir áttu nokkur góð skot en Króatar vörðust vel.
Jafnt varð aftur í liðum þegar 5 mark leiksins kom. Pökkurinn var á svæði Króata en #71 Borna Rendulic komst inn í sendingu Íslands. Borna tók af stað og sendi á #19 Bruno Idzan sem var kominn með honum. Bruno var einn á móti Jóhanni og nýtti tækifærið til þess að skora fjórða mark Króata.
Rúmar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum þegar Ísland missti mann út af. Króatar notfærðu sér það og juku forskotið í 5-1. #13 Luka Mikulic sendi á #5 Patrik Dobric sem var beint á móti markinu. Partik skaut en Jóhann varði skotið. #38 Dominik Canic náði frákastinu og kom pekkinum í gegnum smá glufu milli Jóhanns og stangarinnar.
Þriðji leikhluti
Ísland byrjaði fyrstu 6 sekúndurnar 2 færri þar sem tveir sátu í boxinu eftir annan leikhlutann. Strákarnir spiluðu powerkill-ið vel. Jafnt var orðið í liðum þegar óhapp varð í íslensku vörninni. Varnarmaður Íslands datt og missti pökkinn frá sér. #14 Karlo Marinkovic var fljótur að ná honum til sín og senda á #20 Vito Idzan sem var einn á móti markinu. Vito beið eftir færinu, skaut og kom Króötum í 6-1.
Ísland skoraði annað mark sitt í leiknum tveimur mínútum síðar. #8 Þorgils Eggertsson tók af stað upp ísinn. Þorgils var kominn rétt yfir miðju þegar hann vippaði pekkinum í fangið á markmanni Króata. Pökkurinn skoppaði af markmanninum, #29 Vilim Rosandic, og stenfdi í átt að #12 Viggó Hlynssyni. Vilim tók þá ákvörðun að fara út á móti Viggó og sló pökkinn í burtu. Sú ákvörðun reyndist dýrkeypt því Vilim sendi óvart beint á #13 Emil Alengaard sem skaut í tómt markið. Staðan því orðin 6-2 fyrir Króatíu.
Loka mínúturnar einkenndust af baráttu en baráttan skilaði ekki fleiri mörkum.
Úrslit 6-2 fyrir Króatíu.
Erfiður en skemmtilegur leikur. Leikskýrslu má finna hér og upptöku af leiknum með því að smella hér.
Næsti leikur strákanna er á miðvikudaginn, 19. Apríl, gegn Ástralíu og hefst leikurinn kl 14 að íslenskum tíma.