„Þetta er mikil og kröftug íþrótt“

„Þetta er mikil og kröftug íþrótt“

olly-sa

Mynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Mynd: Stefán Oddur Hrafnsson

„Leið mín lá nú þarna inn þegar ég var að leita að íþrótt fyrir son minn, ég var reyndar búin að kenna honum á skauta mörgum árum áður,“ svarar Ólöf Björk Sigurðardóttir, formaður hokkídeildar Skautafélags Akureyrar, spurð út í hvernig það atvikaðist að leið hennar og fjölskyldunnar lá út á svellið.

„Hann var nú búinn að prófa nokkrar íþróttir áður en við duttum þarna inn í höllina,“ heldur formaðurinn áfram og er þar komið nokkuð þekkt viðkvæði foreldra íshokkíbarna og -unglinga, unga fólksins sem fótboltinn greip aldrei alveg nógu föstum tökum.

Ólöf er Norðlendingur í húð og hár, frá Akureyri, „algjörir Akureyringar“ eins og hún kallar sig og fjölskylduna. Eftir því sem hún best man var það árið 2001 sem sonur hennar tókst á við þessa nýju íþrótt í lífi sínu, árið eftir að skautahöllin á Akureyri var vígð. Hún æfir þó ekki sjálf og hefur aldrei gert, það er hin dæmigerða foreldraaðkoma sem gerir það að verkum að Ólöf er sest í formannssætið nyrðra.

Fyrsta konan í stjórn deildarinnar

„Ég fer í raun strax inn í foreldrafélagið á sínum tíma af því að ég þekkti konu þar sem er frænka sonar míns. Ég er svo þar í einn eða tvo vetur minnir mig, þetta er nú aðeins farið að skolast til, en svo alla vega spyr stjórnarmaður úr hokkídeildinni mig hvort ég vilji verða fyrsta konan til að setjast í stjórn deildarinnar, þetta er veturinn 2002 til 2003,“ rifjar Ólöf upp sem auðvitað þáði sætið og braut þar með blað í sögu Skautafélags Akureyrar.

„Ég er náttúrulega uppalin í miðbænum, í Hafnarstrætinu, sem er í rauninni bara tenging við innbæinn og þessir strákar þarna voru margir hverjir mínir skólabræður sem ég þekkti úr innbænum og þeir eru þarna í stjórn þegar ég kem þarna inn,“ heldur formaðurinn áfram. „Maggi heitinn Finnsson er náttúrulega aðalmaðurinn í Skautafélagi Akureyrar á þessum árum,“ segir hún af félagi sem ekki á langt í 100 árin, stofnað 1937, og snýst í dag um þrjár íþróttagreinar, íshokkí, krullu og listhlaup.

Listhlaupið og hokkíið eru jafn gömul félaginu og eru greinarnar stundaðar þar frá upphafi eins og fram kemur á heimasíðu félagsins þar sem saga þess er rakin. Í öndverðu stunduðu þeir Akureyringar þar einnig hraðhlaup á skautum sem átti miklu fylgi að fagna og naut töluverðra vinsælda á árunum í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.

Fjögur af fimm börnum hafa æft

Hraðhlaupið tók svo að koðna niður en áfram æfðu norðanmenn íshokkí og höfðu gert allan þann áratug sem hraðhlaupið naut vinsælda. Var fyrsta Akureyrarmótið í íshokkí haldið á haustdögum 1958. Tíu árum síðar, í febrúar 1968, fyrir réttum 55 árum, fór fyrsta bæjarkeppnin milli Akureyrar og Reykjavíkur fram og var þess þá ekki langt að bíða að fyrsta Íslandsmótið færi fram en það var árið 1980 og höfðu Akureyringar þar sigur.

„Ég á fimm börn og fjögur af þeim hafa æft íshokkí,“ heldur Ólöf frásögn sinni áfram eftir þennan litla sagnfræðilega útúrdúr og kemur enn fremur upp úr kafinu að þrjú afkvæmanna eru enn á ísnum, þar af einn sonurinn að snúa aftur eftir hlé. „Svo stofnuðum við nokkrar konur hérna valkyrjuhóp á dögunum en það flosnaði nú upp. Þá bjó ég hérna frammi í sveit, það var löng leið að fara og ég var með tvö lítil börn – það var bara erfitt að vera að fara þetta á kvöldin en ég hef þó verið viðloðandi þetta skautafélag frá 2001 og til dagsins í dag,“ segir hún enn fremur.

Í stjórn hokkídeildarinnar sitja sjö, þar af einn sem er svokallaður áheyrnarfulltrúi unga fólksins, og kveður Ólöf daglegt amstur stjórnar snúast að mestu um utanumhald um þjálfara og leikmenn. „Og bara þetta venjulega stúss, við innan foreldrafélagsins erum mikið að skipuleggja barnamótin en stjórn deildarinnar kemur alls staðar að með margvíslegum hætti, það þarf að útvega rútur og starfsfólk á leikjum og þetta eru bara ótal atriði sem einhver þarf að sjá um,“ segir formaðurinn og kveður vatnaskil hafa orðið hjá deildinni þegar hin kanadíska Sarah Smiley var ráðin þangað á sínum tíma en Sarah var í ítarlegu viðtali um líf og störf hér á vefnum fyrr á árinu.

Um 220 iðkendur á Akureyri

„Þá fer barnastarfið okkar að blómstra og hún er rosalegur drifkraftur í þessari deild og hefur verið það allar götur síðan hún kom hingað,“ segir Ólöf og dregur ekkert undan, „hún kemur náttúrulega hingað í eitt ár sem átti bara að vera smá ævintýri en hún fór aldrei heim aftur og er búin að gera rosalega góða hluti í barnastarfinu okkar,“ heldur hún áfram og svarar því aðspurð að barnastarfi félagsins hafi vaxið mjög fiskur um hrygg það sem af er öldinni.

Íshokkíiðkendur á Akureyri eru um 220 um þessar mundir segir Ólöf, „ef við teljum oldboys og allt saman með það er að segja“, bætir hún við og kveður byrjendanámskeið jafnan vel sótt nú orðið. „Núna síðasta haust var Sarah með þrjátíu iðkendur sem voru byrjendur en svo er það náttúrulega þannig að það er auðvitað aldrei allur hópurinn sem verður eftir,“ segir Ólöf og játar, eins og fleiri hafa gert hér í nýlegum viðtölum, að árin um og upp úr fermingaraldri togi margt í unga hugi og úr ýmsum áttum. Þá leggi margir skautana á hilluna. „En það kemur líka alveg töluvert seinna að iðkendur fari að detta út, kannski þegar fólk er orðið svona sautján ára,“ segir hún.

Hvernig skyldi stemmningin kringum hokkíið þá vera á Akureyri, er fólk iðið við að láta sjá sig á leikjum þótt það sé ekki endilega blóðskylt einhverjum sem sveimar um ísinn með kylfu á lofti?

„Já, það er það. Og við erum líka dugleg að bjóða til dæmis skólum að koma og þessi skipti sem við höfum haldið heimsmeistaramót höfum við verið dugleg að bjóða fólki að koma og horfa á leikina, við erum sýnileg og auglýsum okkur vel og það hefur gengið mjög vel,“ svarar Ólöf og segir það engar ofsögur að stemmningin kringum íshokkíið á Akureyri sé bara hin besta. „Það er mikil stemmning í kringum okkur en það er líka vegna þess að við reynum að vekja athygli og svo höfum við alltaf verið að ota stelpunum aðeins meira fram og fá fólk til að koma og horfa á þær. Það gengur ágætlega en það mætti alveg vera fleira fólk sem kemur og horfir á þeirra leiki.“

„Ég var náttúrulega alltaf í höllinni“

Ólöf segir hennar eigin börn hafa fundið sig vel í íshokkíinu þegar aðrar íþróttir hittu ekki alveg markið hjá þeim. „Strákurinn minn, sem ég fer með þarna inn 2001, var búinn að prófa fjölmargar íþróttir og þarna datt hann inn. Hann er greindur ofvirkur og ýmislegt en þarna fann hann sig. Sonur minn sem er núna að æfa byrjaði þegar hann var tólf ára og hann tók þá ákvörðun bara sjálfur. Ég var náttúrulega alltaf í höllinni og hann fylgdi mér mikið og var þarna töluvert. Svo byrjaði hann bara. Hann var þá búinn að vera í fótbolta en fannst það ekkert svo gaman,“ rifjar Ólöf upp.

Sá var kominn í landsliðið fimmtán ára og víkur þá sögunni að þeim þriðja sem nú er að koma til baka eftir hlé. Sá er tæplega átján ára gamall og hóf sinn feril á svellinu sjö ára og æfði þá í sjö ár áður en hann hætti fjórtán ára í nokkru samræmi við áðurnefnda tölfræði. „En hann er svona að byrja aðeins aftur núna,“ segir móðirin og segir svo frá einu dótturinni sem fór á ísinn. „Hún æfði í þrjú ár, byrjaði fimm ára og hætti svo en hún kemur og horfir á leiki alla vegana,“ segir Ólöf.

„Þeim hefur yfir höfuð líkað mjög vel og þegar maður lítur á ástríðuna fyrir íshokkí þá held ég að fólk sem þekkir ekki til íþróttarinnar geri sér ekki grein fyrir því hve erfitt er að æfa íshokkí. Við fáum oft að heyra að þetta sé svo lítil íþrótt, við séum bara þrjú lið á Íslandi, en okkar iðkendur þurfa alveg að æfa eins og allir aðrir ætli þeir sér að verða góðir. Í leikjum eru mjög örar skiptingar, það þarf að skipta ört til að eiga þrek til að standa í þessari baráttu sem íshokkí er. Þetta er mikil og kröftug íþrótt,“ segir Ólöf með áhersluþunga.

Vel varin á svellinu

Auðvitað séu meiðsli í íshokkí eins og í öðrum íþróttum, „það eru þessi höfuðhögg og svo hafa margir rifbeinsbrotnað og farið illa í fótum en ég held að slysatíðni í íshokkí sé ekki meiri en í öðrum íþróttum – reyndar minni ef eitthvað er, þau eru náttúrulega vel varin á svellinu í þessum búningum“, segir hún.

Hvað með framtíð íþróttarinnar, hvort tveggja á Akureyri og á landinu almennt?

„Mér líst vel á hana. Bæði liðin í Reykjavík eru að koma inn með frábært barnastarf. Mér finnst vera mikil aukning og gott utanumhald og barnastarfið og ég held að ef við verðum öll dugleg í þessum þremur klúbbum að halda vel um okkar fólk þá á þetta eftir að eflast, stækka og dafna.

Við erum náttúrulega alltaf að reyna að fá fleiri skautahallir einhvers staðar á Íslandi og það gengur illa en við erum auðvitað alltaf að ota okkar tota og sjá hvort við fáum ekki einhvers staðar fleiri svell. Það yrði auðvitað alltaf á höfuðborgarsvæðinu sem yrðu fleiri ferðalög fyrir okkur en samt sem áður ávinningur fyrir okkur ef við stækkum á þann veginn að fleiri skautahallir kæmu. Og það er það sem við erum alltaf að reyna að fá bæjarfélög til að gera og vonandi tekst það að lokum,“ eru lokaorð Ólafar Bjarkar Sigurðardóttur, formanns hokkídeildar Skautafélags Akureyrar.