SR stöðvar sigurgöngu SA | Hertz-deild karla
SR stöðvar sigurgöngu SA | Hertz-deild karla
SR stöðvaði sigurgöngu SA í Laugardalnum í kvöld í hröðum og skemmtilegum leik en Akureyringar höfðu farið ósigraðir í gegnum fyrri hluta tímabilsins.
SR byrjaði þennan fyrsta leik ársins af miklum krafti og voru komnir 2-0 yfir eftir tæplega sex mínútna leik með marki frá Petr Stepanek í yfirtölu og Ólafi Björnssyni skömmu síðar. SR ingar réðu ferðinni framan af leikhlutanum en SA-ingar komust meira og meira inn í leikinn þegar líða fór á en fleiri urðu mörkin ekki. 2-0 fyrir SR.
Í öðrum leikhluta byrjaði SA af krafti og nýttu sér strax yfirtölu með marki frá Una Sigurðarsyni. Petr Stepanek var aftur á ferðinni fyrir SR sex mínútum síðar og Kári Arnarsson fimm mínútum eftir það. SA var sterkari aðilinn í þessum leikhluta en tókst ekki að nýta sér það til að skora fleiri mörk. 4-1 og staðan orðin vænleg fyrir heimamenn fyrir loka leikhlutann.
Í þriðja leikhluta var kominn hiti í leikinn og fjölgaði refsimínútunum mjög en dómarar leiksins sáu til þess að ekki syði upp úr og sendu menn í kælingu í refsiboxið átta sinnum. Ólafur Björnsson skoraði sitt annað mark í yfirtölu strax í upphafi leikhlutans en Birkir Einisson svaraði fyrir SA skömmu síðar. Liðin skiptust á að sækja og var jafnræði með liðunum. Síðasta mark leiksins skoraði Gunnlaugur Þorsteinsson í yfirtölu er tæpar sex mínútur lifðu af leiknum. SA-ingar tóku Róbert markvörð af ísnum og freistuðu þess að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og lokatölur í Laugardalnum 6-2 fyrir heimamönnum.
Jóhann Leifsson, stigahæsti leikmaður SA, sagði að leikir þessara liða hafi verið hnífjafnir: „Þessir leikir í vetur hafa geta dottið í báðar áttir en þeir komu miklu sterkar inn í þennan leik fyrstu 10-15 mínúturnar. Jólin bara ennþá í okkur norðanmönnum.“
Var það sterk byrjun heimamanna munurinn í þessum leik? „Nei þeir nýttu powerplay-in sín miklu betur en við, held þeir hafi skorað þrjú mörk í powerplay. Þú mátt ekkert láta svona menn vera einum fleiri á ísnum.“
Aðspurður um framhaldið segir Jóhann að þeir séu ekkert farnir að hugsa um úrslitakeppnina þrátt fyrir að vera enn með góða forystu í deildinni: „Við erum ekkert farnir að spá í það, bara næsti leikur sem er 25. janúar fyrir norðan á móti SR einmitt.“
Þið farið að undirbúa hann og takið varla vel á móti þeim þá eða hvað? „Nei við getum ekki gert það eftir svona leik“ svarar Jóhann að lokum.
Kári Arnarsson fyrirliði SR var að vonum ánægður með sigurinn: „Mér fannst þetta mjög góður leikur. Við höfum verið að leyfa þeim að skora of mikið í síðustu leikjum og markmiðið var að fókusa á vörnina og þá myndu leikirnir enda 5-1, 5-2 eða 6-2 eins og þessi. Ég er mjög ánægður með útkomuna.“
Nú er seinni helmingur tímabilsins að hefjast hvað getur þú sagt okkur um framhaldið? „SA vann okkur og alla sína leiki fyrri hluta tímabilsins og við ætlum bara að gera það sama seinni helminginn. Þetta er bara nýtt ár og við stefnum langt, alla leið.“
Að sögn Kára er hópurinn stór sem SR hefur á að skipa í vetur: „Það er góð liðsheild í hópnum. Við erum 26 í æfingahópnum en getum bara verið með 20 á liðslista. Það eru því alltaf 5-6 leikmenn sem fá ekki að spila sem gerir samkeppnina töluvert meiri á æfingum og tempóið hærra. Við gætum t.d. verið með þrjár power-play línur en það er bara pláss fyrir tvær svo það er samkeppni um það líka“ segir Kári að lokum.
Næsti leikur í Herzt-deild karla er leikur SA og SR eins og áður sagði fimmtudaginn 25. janúar á Akureyri.
Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ