Deildarmeistarnir höfðu sigur í framlengingu | Hertz-deild kvenna
Deildarmeistarnir höfðu sigur í framlengingu | Hertz-deild kvenna
SR tók á móti SA í Laugardalnum í dag í seinni leik þessara liða um helgina. SR-stelpur komu mun ákveðnari til leiks í dag og náðu að stela stigi af deildarmeisturnum sem unnu 2-1 sigur í framlengingu.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn. Það var augljóst að SR-ingar ætluðu ekki að leyfa Silvíu að hræra upp neina markasúpu eins og í gærkvöldi og tóku hana föstum tökum. Bæði lið skiptust á að sækja og áttu færi en engin urðu mörkin í fyrsta leikhluta.
Annar leikhluti var á svipuðum nótum þar til þrjár mínútur voru eftir er Silvía fékk pláss til að skauta upp fyrir framan markið og setja pökkinn framhjá Andreu í marki heimakvenna. SR-ingar létu það ekki slá sig út af laginum og svöruðu 8 sekúndnum fyrir lok leikhlutans er Friðrika komst ein í skyndiupphlaup og kom pökknum fram hjá Shawlee í marki gestanna.
Þriðji leikhluti var í járnum en ekki urðu mörkin fleiri og grípa varð til framlengingar þar sem SA tryggði sér aukastigið eftir um 90 sekúnda leik með marki Amöndu.
Silvía geggjuð í gær
Atli Sveinsson aðstoðarþjálfari SA var ánægður með leikinn í kvöld. Þetta var aðeins annar leikur en í gær milli þessara liða: „Já heldur betur, líka bara mikið skemmtilegri leikur. Það er geggjað þegar liðin eru svona lík og það er svona tæpt. Það hjálpar líka báðum liðunum svo miklu meira.“
Nú var Silvía á einhverjum öðru plani í fyrri leik liðanna, náði SR að halda svona vel aftur af henni í dag eða áttu hún bara svona góðan leik í gær? „Hún átti auðvitað geggjaðan dag í gær, en SR-stelpurnar koma með réttu daginn eftir og targeta hana. Þær voru góðar í að stoppa hana í dag, það verður að gefa þeim það.“
Stefnir í skemmtilega úrslitakeppni í ár
Þetta var síðasti deildarleikurinn ykkar og það styttist í úrslitakeppnina? „Já það er spennandi.“ Þetta er 20. árið í röð eða eitthvað ekki satt? „Jú eitthvað svoleiðis já“ svarar Atli og hlær.
Ætlið þið að taka þetta enn eina ferðina eða verður einhver spenna í þessu? „Það er alltaf spenna í þessu, þetta byrjar bara núll núll. Ég er alveg viss um að Fjölnisstelpurnar koma grimmar inn í þetta, þær vilja ekki tapa þessu“
Þær fóru frekar illa út úr síðasta leik ykkar á milli, þær koma eflaust í hefndarhug inn í þessi úrslit? „Já ég held þetta verði mjög skemmtileg úrslit í ár, ég held þetta verði mjög jafnt og spennandi.“
Tekur stiginu fagnandi
Alexandra Hafsteinsdóttir, fyrirliði SR, var sátt við að fá stig í safnið eftir leikinn í dag. „Leikurinn í dag var allt annar. Við mættum miklu tilbúnari í þennan leik, við vorum búnar að koma allri neikvæðri orku út í leiknum í gær og vorum hressari í dag.“
Þið náðuð í stig í dag og komnar með 6 stig í deildinni: „Já SR hefur aldrei nokkurntíman verið með svona mörg stig, svo þetta er bara geðveikt. Ég tek þessu stigi fagnandi.“
Vonandi verður stúkan pökkuð í lokaleik SR
Svo er einn leikur eftir hjá ykkur, síðasti leikur í Hertz-deildinni í vetur, gegn Fjölni eftir rúma viku. „Við mætum vonandi bara með þessa orku í þann leik og spilum eins og við gerðum í dag og vinnum þennan leik. Ég hef fulla trú á því að við getum gert það.“
Það er heimaleikur ekki satt? „Jú það er heimaleikur hérna í Laugardalnum. Vonandi verður stúkan pökkuð og allir til í að styðja okkur. Það væri geggjað.“
Eins og kom fram hér að ofan þá er loka leikur Hertz-deildar kvenna sunnudaginn 18. febrúar kl. 19.15 er SR tekur á móti Fjölni. Úrslitakeppni SA og Fjölnis hefst svo sunnudaginn 25. febrúar.
Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ