„Erum mjög glaðar með þennan leik“ | Hertz-deild kvenna
„Erum mjög glaðar með þennan leik“ | Hertz-deild kvenna
Kvennalið SR tók á móti Fjölni í síðasta deildarleik tímabilsins en fyrir leikinn var ljóst að Fjölnir og SA myndu mætast í úrslitum. Það var ekki að sjá að leikurinn skipti ekki máli enda Fjölnir að undirbúa sig fyrir úrslitin og SR ólmt í að fylgja eftir góðu gengi í deildinni eftir áramót. Úr varð hraður og skemmtilegur leikur.
SR var fyrst til að skora með marki Ylfu Bjarnadóttur á fjórðu mínútu. Berglind Leifsdóttir svaraði fyrir Fjölni stuttu síðar en aftur komst SR yfir með marki Satu Niinimäki á níundu mínútu. Berglind, sem hefur verið á skotskónum í vetur, var ekki hætt og jafnaði aftur fyrir gestina á 13. mínútu.
Aftur komst SR í forystu í byrjun annars leikhluta með öðru marki Satu sem hefur átt mjög öfluga innkomu í Hertz-deildina í vetur. Fjölnir svaraði um miðjan leikhluta er Kolbrún Garðarsdóttir stimplaði sig aftur inn í deildina eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Staðan 3-3 fyrir síðasta leikhluta og allt í járnum.
Sigrún Árnadóttir kom Fjölni í forystu í fyrsta sinn í leiknum í byrjun þriðja leikhluta og Laura Murphy bætti við forystuna tveimur mínútum síðar. Þar við sat og Fjölnir sigldi 5-3 sigri í höfn, gott veganesti í úrslitin gegn SA.
Einn leikur og beint í úrslit
Kolbrún Garðarsdóttir sneri aftur í Hertz-deildina eftir meiðsli og stimplaði sig aftur inn með marki en hún styrkir Fjölnis-hópinn rækilega fyrir úrslitin.
Þú ert komin aftur eftir langa fjarveru vegna meiðsla? „Já ég handleggsbrotnaði í apríl með landsliðinu úti og kom aftur til baka í september. Svo klikkaði eitthvað þannig ég þurfti að fara aftur í aðgerð núna í janúar, þannig að ég er ekki búin að spila leik síðan í október. Það eru komnir fjórir mánuðir. Ég er búin að vinna mjög mikið í að koma mér í stand fyrir úrslitin og það tókst.“
Já þú rétt nærð því, einn leikur og beint í úrslit „Já ég sá það ekki gerast og var orðin mjög svartsýn. Svo ákvað ég bara að vera bjartsýn og það virkaði – maður verður bara að vera það.“
Prófa sig áfram fyrir úrslitin
Það var 5-3 sigur í kvöld hjá ykkur „Já þetta byrjaði smá brösulega hjá okkur, alveg klárlega. Við fórum inn í þennan leik með smá nýtt og ætluðum að prófa okkur aðeins áfram fyrir úrslitin. Við gleymdum okkur aðeins í vörninni og við vitum að vörnin hefur verið okkar slakasta hlið. Það er næst á dagskrá hjá okkur að taka alla þessa viku í vörninni og fínpússa hana fyrir úrslitin. Við erum nefnilega mjög góðar í sókninni, svolítið óstöðvandi þar. En við erum mjög glaðar með þennan leik, mjög flottur leikur hjá báðum liðum. Ég sé hvað deildin er að verða sterkari og það er bara frábært að sjá.“
Nú er bara vika í að úrslitin milli ykkar og SA hefjast, hvernig líst þér á þá rimmu? „SA hefur rosa gott bakland og það er alveg erfitt að spila á móti þeim í úrslitunum. En við þurfum að koma með sterkan haus og tilbúnar í þetta – og við erum tilbúnar. Við þurfum að sýna núna í fyrsta skipti að við erum betra liðið. Mér finnst við betra liðið.“
Já eimitt, á blaði eruð þið með mjög sterkan hóp? „Já ég dýrka liðið mitt og við erum búnar að vinna mjög mikið og vel saman. Við erum nefnilega nokkuð margar frá Akureyri og það er alveg erfitt að spila heima og hefur alltaf verið það.“
Viltu eitthvað spá í úrslitin, hvernig þetta fer eða hvað rimman fer í marga leiki? „Nei þetta bara eins og það fer. Maður vill ekki vera að segja eitthvað og svo fer það ekki þannig. Við ætlum bara að gera okkar besta og ef við komum sáttur út úr úrslitum hafandi gert okkar besta verð ég bara glöð fyrir mitt lið“ segir Kolbrún að lokum.
Allar hetjur
Saga Blöndal sneri aftur í íshokkí eftir tveggja ára hlé fyrir þetta tímabil, gekk í raðir SR og styrkti liðið mikið. Hvað fannst henni um leikinn í kvöld? „Við byrjuðum ótrúlega vel með marki og þetta var jafn leikur allan tímann. Öll mörkin hjá þeim voru rebound mörk, pirrandi en áttu alveg rétt á sér, en svona er þetta bara. En ég er ofboðslega stolt af þeim öllum, okkur langaði svo mikið að vinna – það var mjög leiðinlegt að klára þetta ekki á sigri.“
Þú gekkst til liðs við SR síðasta vor og búin að vera þátttakandi í þessu sögulega tímabili. Ef þú lítur aðeins yfir veturinn, hvernig horfir þetta við þér? „Þær eru náttúrulega bara hetjur allar, búnir að þrauka í þessu liði margar mjög lengi án þess að vinna einn stakan leik. En það hefur ekki vitund áhrif á þær.“
„Þær hafa allar tuttugu sinnum meiri aga heldur en ég nokkurntíman komandi úr SA og Svíþjóð og vön því að vinna aðeins meira. Ég held að allir hefðu gott af því að spila í kvennaliði SR.“
Vonandi eins spennandi og hægt er
Nú er tímabilið búið hjá ykkur í SR og úrslitin framundan, viltu spá eitthvað fyrir um þau? „Ég sagði auðvitað í viðtali í byrjun tímabils að Fjölnis-stelpur væru ótrúlega sigurstranglegar. En SA hefur bara rifið sig í gang, kannski áttað sig á því að þær væru ekki með eins gott lið og áður. Fleiri leikmenn sem hafa stigið í leiðtogahlutverkið og bara búnar að standa sig ótrúlega vel. En úrslitakeppnin verður spennandi og gaman að fylgjast með.“
Þetta hafa oft verið jafnir leikir í vetur, heldur þú að þetta fari í fimm leiki? „Já vonandi og vító og allan pakkann – eins spennandi og hægt er. Ég óska báðum liðum góðs gengis í úrslitum“ bætir Saga við að lokum.
Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ
Úrslitarimma milli SA og Fjölnis í Hertz-deild kvenna hefst eftir tæpa viku, sunnudaginn 25. febrúar kl. 16.45. SA varð deildarmeistari og heldur því á heimaleikjaréttinum og byrja úrslitin því á Akureyri. Við hvetjum allt íshokkíáhugafólk til að fjölmenna á úrslitin enda stefnir í frábæra leiki.