SR lagði deildarmeistarana | Hertz-deild karla
SR lagði deildarmeistarana | Hertz-deild karla
SR tók á móti SA í Hertz-deild karla í Laugardalnum í gær. Þetta var síðasta skiptið sem liðin mætast fyrir úrslitin svo töluverð spenna var fyrir leikinn. SR rétti SA sjaldséð 7-1 tap en fletta þarf langt aftur í sögubækurnar til að finna álíka niðurstöðu hjá langsigursælasta liði Íslandssögunnar. Norðanmenn töpuðu 7-2 fyrir Esju sálugu í nóvember 2017 og 7-0 fyrir Fjölni, sem þá hét Björninn, í september 2016, fyrir heilum 8 árum síðan. Lykilmenn vantaði í lið gestina sem líka misstu mann í meiðsli og annan í brottrekstur í leiknum.
Leikurinn byrjaði rólega, var frekar tíðindalaus og ekki mikið um góð færi – eins og liðin væru að þreifa hvort á öðru í leit að veikleikum. Það dró ekki til tíðinda fyrr en um miðbik leiks þegar Baltasar Hjálmarsson skoraði fyrir gestina. Það hleypti lífi í leikinn og SR svaraði um hæl er Petr Stepanek skoraði sitt eina mark. Áður en leikhlutinn var úti höfðu fleiri kunnugleg nöfn úr liði SR komið við sögu er Filip Krzak og Axel Orongan komu pökknum fram hjá Jakobi markverði SA-inga. 3-1 fyrir heimamenn fyrir loka leikhlutann.
SR-ingar byrjuðu þriðja leikhluta vel og bættu við tveimur mörkum Ólafs Björnssonar og Axels á annari mínútu. Pétur Maack bætti við því sjötta um miðbik leikhlutans og Ólafur sínu öðru marki fjórum mínútum fyrir leikslok og 7-1 niðurstaðan.
Margt jákvætt þrátt fyrir tap
Richard Tahtinen tók við karlaliði SA um áramótin, en athyglivert er að karlaliðin félaganna þriggja skiptu öll um þjálfara á tímabilinu.
Hvað fannst honum um leikinn? „Við spiluðum mjög heilsteyptan fyrsta leikhluta, vorum yfirvegaðir í vörninni og pressuðum vel – spiluðum nokkurveginn samkvæmt leikplaninu okkar. Við vorum þunnskipaðir þar sem okkur vantaði marga lykilleikmenn og í leiknum sjálfum misstum við einn í meiðsli og annan í fimm+leikdóm. Þannig að í endann á leiknum byrjuðu að koma sprungur í varnarleikinn. Fyrir utan það þá sá ég marga jákvæða hluti í okkar leik í samhengi við þessa litlu hluti sem við erum að vinna í.“
Þú nefnir að það hafi vantað marga lykilleikmenn, var það munurinn á liðunum í þessum leik?
„Ég held það hafi haft mikil áhrif á þriðja leikhluta hjá okkur, margir leikmenn þurftu að taka tvöfaldar skiptingar þannig að það var erfitt að halda uppi tempóinu. SR fékk miklu meira pláss og tíma með pökkinn í þriðja leikhluta.“
Úrslitin eru allt annar leikur
Þessi leikur er líklega ekki góð vísbending um úrslitin milli þessara liða? „Úrslit eru úrslit. Algjörlega annar leikur“ segir Richard og hlær. „Ég efast um að nokkur einn leikur sé góð vísbending um þann næsta, þú þarft að nálgast alla leiki sem nýja.“
Eruð þið strax byrjaðir að undirbúa ykkur fyrir úrslitin eða er fókusinn ennþá á deildinni? „Ég held að deildin sé í sjálfu sér undirbúningur fyrir úrslitin. Ég er augljóslega í nýrri stöðu takandi við liðinu á miðju tímabili. Svo það er aðeins meiri áskorun en venjulega fyrir mig sem þjálfara. Okkur fókus núna og síðustu 1.5 mánuði hefur verið að þróa okkar taktík og spila samkvæmt henni. Þetta er vinnan sem við leggjum í í hverri viku og ætli það sé ekki hægt að segja að á endanum sé þetta undirbúningur fyrir loka orustu tímabilsins. Hver leikur í deildinni er tækifæri til að læra og við ætlum að sjálfsögðu að nýta það tækifæri fyrir úrslitin“ segir Richard að lokum.
Solid leikur af okkur hálfu
Milos tók við karlaliði SR fyrr á tímabilinu. Hann var líklega ánægður með leikinn? „Já þetta var solid leikur af okkar hálfu, við vorum með góða hreyfingu í sóknarsvæðinu og við héldum pökknum vel fimm á fimm. En við töpuðum of mikið af pökkum og fleiri lítil atriði sem við þurfum að vinna í fram að úrslitum, þessar rúmar þrjár vikur. Við vorum líka án nokkurra sterkra leikmanna, Styrmis, Birkis og fleiri. En í heildina var þetta góður leikur.“
Þetta var nokkuð jafn leikur framan af ekki satt? „Fyrsti leikhluti var mjög jafn, ég held þeir hafi líka átt fleiri skot í fyrsta. Fyrstu tíu mínúturnar vorum við aðeins betri en þeir sneru seinni tíu mínútunum sér í hag, áttu tvö góð marktækifæri. Jóhann var góður milli stanganna í gær líka. Við skoruðum þrjú mörk í powerplay og ég held það verði lykillinn í úrslitunum hvort liðið verður með betra powerplay og betra PK (penalty kill). Það mun gera gæfumuninn.“
Verða mjög jöfn úrslit ef bæði lið mæta fullmönnuð
Viltu eitthvað spá fyrir um úrslitin? „Já ég held þetta verði mjög jöfn úrslit. Ef bæði félög geta mætt með sinn sterkasta hóp heilbrigðan væri það best fyrir deildina og íslenskt hokkí. Það er getur hitt illa á, þetta er ein vika á árinu og allt getur gerst, liðin gætu misst leikmenn í veikindi eða meiðsli. Það væri ekki gaman svo ég vona að allir verði heilbrigðir svo við getum fengið gott hokkí.“
Næsti leikur í Hertz-deild karla er 9. mars er Fjölnir sækir norðanmenn heim á Akureyri.
Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ