Fjölnismenn sprungu á limminu!
Fjölnismenn sprungu á limminu!
Áhorfendur sem mættu í Laugardalinn í gær þriðjudag fengu að upplifa fjörugan og skemmtilegan leik í Topp deildinni í íshokkí. En Fjölnismenn mættu í heimsókn til SR.
Leikurinn varð strax nokkuð hraður og fjörugur og gékk fram og til baka með leiftursóknum þar til rúmar fjórtán mínútur voru liðnar af leiknum. Þá skoraði Emil Alengaard fyrir Fjölni eftir stoðsendingar frá Martin Simanek og Viktor Mojzyszek. Þar við sat þegar kom að fyrra leikhlé.
Það voru 34 sekúndur liðnar af leikhluta 2 þegar Hákon Magnússon skoraði glæsilegt mark fyrir SR, fyrsta snerting eftir dómarakast (e. faceoff) slammari sem small í stöngina og inn. Gunnlaugur Þorsteinsson sem var í dómarakastinu fékk skráð á sig stoðsendingu fyrir þetta mark. Allt jafnt eitt mark gegn einu.
Næstu 10 mínútur voru Fjölnismanna þeir voru hraðir og ógnandi á sama tíma og vörnin þeirra virkaði nokkuð þétt. Uppskeran var eftir því, á 27 mínútu skoraði Viggó Hlynsson annað mark Fjölnismanna eftir stoðsendingar frá Emil Alengaard og Martin Simanek. þrjátíu og þremur sekúndum síðar bætti Hilmar Sverrisson við öðru marki fyrir Fjölni stoðsendingarlaust og staða Grafarvogsdrengja orðin nokkuð vænleg 1 – 3 en þá varð atvik sem hafði mikil áhrif á gang leiksins. Andri Helgason í Fjölni sem jafnframt er lykilmaður þeirra í vörn liðsins fékk á sig 5 mínútna dóm fyrir ákeyrslu við battann (e. Boarding) og Fjölnismenn þurftu að verjast einum færri í þrjár mínútur af fimm, og tvær mínútur af þessum fimm fjórir á móti fjórum sem oftast þýðir meiri hraði og meira pláss fyrir leikmenn að athafna sig.
Þetta nýttu heimamenn sér til hins ýtrasta og skoruðu þeir tvö mörk og jöfnuðu leikinn á ný áður en seinna leikhlé rann upp. Fyrra markið átti Hákon Magnússon eftir stoðsendingar frá Kára Arnarssyni og Eduard Kascak og seinna markið átti Axel Orongan, Þorgils Eggertsson átti þá langa (stoð) sendingu upp á milli varnarmanna Fjölnis, beint á Axel sem stakk sér innfyrir og var einn á móti Nikita markmanni Fjölnismanna. Axel gerði þarna mjög vel og smellti pekkinum með föstu skoti alveg útvið stöng og sýndi enn og aftur skemmtilega takta og að hann er stór-hættulegur þegar hann kemst í þessa stöðu einn á móti markmanni, virkilega falleg afgreiðsla. Leikurinn jafn í seinna leikhlé 3 – 3
Þegar kom inn í þriðja og síðasta leikhluta var snemma ljóst að Fjölnismenn voru ekki mættir með sama hætti og fyrr í leiknum. Liðið virkaði þreytt og varnarleikurinn var sundurlaus. Það tekur vissulega mikla orku að spila einum færri í 3 mínútur og fjórir á fjóra í tvær, en það var eitthvað meira í gangi. SR var fljótt að ganga á lagið og á tíu mínútna kafla skelltu þeir 4 mörkum á Fjölnismenn. Það fyrsta skoraði Lukas Dinga eftir stoðsendingar frá Axel Orongan og Sölva Atlasyni. Mark númer tvö setti Hákon Magnússon eftir stoðsendingu frá Gunnlaugi Þorsteinssyni þetta innsiglaði þrennu hjá Hákoni, þriðja markið átt Axel Orongan eftir stoðsendingu Alex Mána Sveinssyni, og það fjórða átti svo fyrirliðinn Kári Arnarsson eftir stoðsendingu Gunnlaugs Þorsteinssonar. Jafn og flottur stígandi var í leik SR á sama tíma og Fjölnismenn byrjuðu mjög vel en féllu alveg niður í þriðja leikhluta.
Leikurinn í tölum.
SR – FJO 7 – 3 (0-1, 3-2, 4-0)
SOG: 39 – 24
PIM: 8 -13
PPG: 1 – 1
SHG: 0 – 0
Markmaður SR Jóhann Ragnarsson fékk á sig 24 skot og varði 21, 87,5% markvarsla. Markmaður Fjölnis Nikita Montvids fékk á sig 39 skot og varði 32, 82,05% markvarsla.
Mörk og stoðseningar,
SR: Hákon Magnússon 3/0, Axel Orongan 2/1, Kári Arnarsson 1/1, Lukas Dinga 1/0, Gunnlaugur Þorsteinsson 0/3, Eduard Kascak 0/1, Sölvi Atlason 0/1, Alex Máni Sveinsson 0/1.
Fjölnir: Emil Alengard 1/1, Viggó Hlynsson 1/0, Hilmar Sverrisson 1/0, Martin Simanek 0/2, Viktor Mojzyszek 0/1.
Myndir: Hafsteinn Snær Þorsteinsson