Topp slagur í Topp Deildinni

Topp slagur í Topp Deildinni

Birt: 08.02.2025Flokkar: Fréttir

Anna Ágústsdóttir skorar í lokinn. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Seinni leikur dagsins var í Topp Deild kvenna þar sem SA tók á móti Fjölni. Fjölnis konur áttu harm að hefna eftir fyrri leik dagsins þar sem SA vann Fjölni 5-3 í Topp Deild karla.

Leikurinn hófst rólega og mátti giska að liðin væru að spara orkuna fyrir langan og jafnan leik.

Guðrún Ásta Valentine skorði í sínum fyrsta leik með meistaraflokki. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Fjölnir voru fyrstar til að brjóta ísinn með marki undir blálok fyrstu lotu. Smá bið varð eftir næstu mörkum en 3 mörk litu dagsins ljós með stuttu millibili. SA byrjaði á því að jafna í 1-1. Fagnaðar lætin voru rétt lokin þegar Fjölnir komst aftur yfir. Svo jafnaði SA aftur í 2-2. Seinna jöfnunar mark SA var skorað af Guðrúnu Ástu Valentine. Hún er nýorðin 13 ára og var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. Ekki amalegt að byrja ferilinn með marki.

Í byrjun þriðju lotu komst Fjölnir í skyndisókn þar sem Kolbrún Garðarsdóttir og Berglind Leifsdóttir komust tvær á móti Shawlee Gaudreault, markmanni SA. Þær spiluðu fallega á milli sín og sú síðarnefnda skilaði pekkinum í netið, 2-3 fyrir Fjölni. Lotan var hálfnuð þegar SA náði að jafna enn einu sinni í 3-3. Tæpar tvær mínútur voru til leiksloka þegar SA missti leikmann í boxið og fékk því Fjölnir tækifæri til þess að gera út um leikinn en allt kom fyrir ekki og framlengja þurfti leiknum.

Liðin skiptust á að sækja en eftir 5 mínútur var staðan ennþá 3-3 og því haldið í vítakeppni. Anna Ágústsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir og Shawlee Gaudreault reyndust hetjur þar sem Anna og Kolbrún skoruðu úr sitthvoru vítinu á meðan Shawlee varði öll sín. Lokatölur leiksins 4-3 fyrir SA. 

Annar gríðarlega spennandi leikur í deildinni og verður spennandi að fylgjast með úrslitakeppninni í ár.

Mörk og stoðsendingar:

SA: Amanda Bjarnadóttir (1,0), Kolbrún Björnsdóttir (1,0), Guðrún Ásta Valentine (1,0), Silvía Björgvinsdóttir (0,1)

Fjölnir: Berglind Leifsdóttir (1,1), Eva Hlynsdóttir (1,0), Teresa Snorradóttir (1,0), Kolbrún Garðarsdóttir (0,3), Hilma Bergsdóttir (0,1).

Markmenn:

Karitas Halldórsdóttir, Fjölnir, og Shawlee Gaudreault, SA, voru með nákvæmlega sömu tölfræði eftir venjulegan leiktíma. Báðar fengu þær á sig 26 skot og vörðu 23 af þeim, eða 88,5% varlsa.