Skautafélag Akureyrar landaði Íslandsmeistaratitli

Skautafélag Akureyrar landaði Íslandsmeistaratitli

Birt: 11.04.2025Flokkar: Fréttir
SA_meist

Akureyringar eru Íslandsmeistarar í íshokkí karla á ný eftir tveggja ára hlé. Þetta var ljóst eftir sigur SA Víkinga á liði Skautafélags Reykjavíkur, 6:1. Akureyringar unnu þar með einvígið 3:0 og SA er Íslandsmeistari í 24. skipti í karlaflokki.

Fyrsti leik­hlut­inn var jafn, stál í stál eins og leikir þessara liða voru jafnan í deildarkeppni vetrarins. Um miðjan leik­hlut­ann kom fyrsta markið. SR skoraði það, í yf­ir­tölu setti Lukas Dinga mark eftir stoðsendingar frá Eduard Kascak og Níels Hafsteinssyni. Í kjöl­farið kom bylmings stang­ar­skot frá SR og heima­menn sluppu með skrekkinn. Svo virtist sem SR-ingar væru að finna taktinn og þeir ætluðu sér sigur og þvinga fram leik 4. SA-Víkingar voru ekki alveg á sömu skoðun. Í yfirtölu rétt 3 mínútum seinna jafnaði Unnar Rúnarsson leikinn eftir stoðsendingu frá Hafþóri Sigrúnarsyni. SR var á köflum beittara og áttu þeir stórhættuleg færi og sluppu meðal annars í tví- eða þrígang einir í gegnum vörn SA án þess að ná að skora. Í þessum leikhluta voru skot á mark SA11:SR9

Í öðrum leikhluta byrjuðu SR-ingar með látum og Þeir spiluðu vel og sóttu djarft en ákefð og kraftur Norðanmanna var meiri, og smátt og smátt hertu þeir tök sín á leiknum og snéru honum sér í vil. Strax á þriðju mínútu leikhlutans bætti Unnar Rúnarsson við öðru marki fyrir SA eftir stoðsendingu Orms Jónssonar. Uni Blöndal setti þriðja markið eftir stoðsendingu frá Unnari þegar SA var í yfirtölu og Jóhann Leifsson skoraði síðan fjóra mark SA stoðsendingarlaust á 38 mínútu. Hér voru SR-ingar hættir að spila sem lið og skipulag þeirra allt úr skorðum gengið.  Liðið var á þessum tímapunkti í erfiðleikum með að komast út fyrir eigið varnarsvæði, og ef það gerðist voru þeir pressaðir beint inn aftur. Greinilegt var að staðan 4-1 var farin að bíta gestina. Í öðrum leikhluta voru skot á mark SA10:SR7 þannig að nokkuð jafnvægi var á leikhlutanum þó hann væri mjög kaflaskiptur.

Í þriðja leikhluta var eins og gleðin væri farin úr SR liðinu, svona eins og það væri búið að slípa af þeim broddinn. Enn gengu norðanmenn á lagið og bættu við 2 mörkum. Ólafur Baldvin Björgvinsson skoraði á fertugustu og annari mínútu og Andri Mikaelsson bætti síðan við sjötta marki SA. Bæði þessi mörk voru stoðsendingarlaus. Skot á mark í þriðja leikhluta SA18:SR5

6-1 sigur og úrslita einvígið 3-0, 24. íslandsmeistaratitill Skautafélags Akureyrar staðreynd.

Þegar horft er yfir þessa þrjá leiki og reynt að leggja mat á framlag einstakra leikmanna þá koma nokkur nöfn upp í hugann. En ég held að ekki sé hallað á neinn með því að segja að maður þessarar úrslitakeppni og þá um leið mikilvægasti leikmaður SA í þessari rimmu hafi verið leikmaður SA númer 28, Unnar Rúnarsson sem var algerlega frábær í öllum þessum leikjum og er að sanna sig sem einn besti leikmaður deildarinnar. Hann skoraði í þessari úrslitakeppni 5 mörk og átti 2 stoðsendingar.

Leikurinn í tölum.

SA – SR 6-1 (1-1, 3-0, 2-0)

Skot á mark: 39-21 (11:9, 10:7, 18:5)

Refsingar liða: SA 6 – SR 14

Nánari tölfræði má finna hér

Unnar Rúnarsson
Mynd: Skapti Hallgrímsson Akureyri.net