Evrópu Jói tryggði Víkingum þriðja sætið með sigurmarki í framlengingu

Evrópu Jói tryggði Víkingum þriðja sætið með sigurmarki í framlengingu

Birt: 21.10.2025Flokkar: Fréttir
SA Víkingar sáttir með þriðja sætið eftir mót

Myndir: Rúnar Freyr Rúnarsson

SA Víkingar tóku þátt í Continental Cup um helgina sem fram fór í Pramogu Arena í Vilnius, Litháen. Leikirnir voru partur af annari umferð keppninnar en fyrsta umferðin var felld niður.

Víkingarnir léku þrjá leiki á þremur dögum gegn sterkum liðum frá Litháen, Lettlandi og Eistlandi og enduðu mótið í þriðja sæti eftir flottan sigur á Narva PSK eftir framlengingu í lokaleiknum.

Leikurinn gegn Hockey Punks

Fyrsti leikur mótsins fór fram á föstudagskvöldinu gegn heimaliðinu Hockey Punks.

SA náði ekki að finna taktinn í upphafi og voru 4-0 undir eftir tvær lotur. Atli Sveinsson náði að klóra í bakkann og skoraði eina mark Víkinga. Því miður reyndist það eina mark þeirra í leiknum og niðurstaðan að lokum 6-1 fyrir heimamenn.

Leikurinn gegn HK Mogo 

Á laugardeginum mættu Víkingarnir sterkum HK Mogo frá Lettlandi.

Atli Sveinsson hélt uppteknum hætti frá fyrsta leiknum og skoraði bæði mörk Víkinga í leiknum en það dugði ekki til. Lettlands meistararnir enduðu á því að vinna 7–2, en var það þeirra lang minnsti sigur, þar sem þeir unnu hina leiki mótsins með 11 og 12 marka mun, flott frammistaða hjá Víkingum.

Víkingar án efa ánægðir að Björn Jakobsson haldist í liðinu þrátt fyrir annað hlutverk

Leikurinn gegn Narva PSK 

Liðið kláraði mótið með stæl á sunnudeginum þegar Narva PSK frá Eistlandi var lagt að velli eftir framlengingu, 5–4.

Eftir að hafa lent undir í fyrsta leikhluta 1-0, kom liðið sterkt inn í annan leikhluta og gerði þar tvö mörk, frá Unnari Rúnarssyni og Heiðari Jóhannssyni og leiddi 2-1 í seinna leikhléinu.

Fimm mörk komu í þriðja leikhluta þar sem Eistarnir áttu frumkvæðið og komust aftur yfir 3-2 áður en Unnar Rúnarsson skoraði sitt annað mark og jafnaði metin. Aftur áttu Eistarnir frumkvæðið en það var svo hinn ungi Aron Ingason sem tryggði framlenginguna með sínu fyrsta meistaraflokks marki.

Jóhanni líður vel í Evrópu

Evrópu Jói, eins og hann er gjarnan kallaður af liðsfélögum sínum tryggði svo stigin tvö í framlengingu eftir frábæran undirbúning frá nýliðanum Hank Nagel.

Tölfræði (mótið í heild):

Róbert Steingrímsson – 60/70 (85,7%)

Jakob Jóhannesson – 39/46 (84,8%)

Unnar Rúnarsson 3/2

Atli Sveinsson 3/1

Heiðar Jóhannsson 1/2

Jóhann Leifsson 1/1

Aron Ingason 1/0

Andri Mikaelsson 0/1

Baltasar Hjálmarsson 0/1

Hank Nagel 0/1

Refsímínútur: 53

Unnar Rúnarsson varð stigahæstur Víkinga á mótinu með 5 stig

Loka staða riðilsins:

  1. HK Mogo (Lettland) – 9 stig
  2. Hockey Punks (Litháen) – 6 stig
  3. SA Akureyri (Ísland) – 2 stig
  4. Narva PSK (Eistland) – 1 stig

Eftir mótið:

SA Víkingar enduðu mótið í þriðja sæti með einn sigur í framlengingu og tvo tapleiki. Liðið sýndi mikla baráttu og góða frammistöðu gegn sterkum erlendum klúbbum. Reynslan úr þessu móti verður dýrmæt fyrir Toppdeildina heima og mæta þeir strax næstu helgi í fyrstu ofurhelgi vetrarins í Egilshöllinni.