SA Víkingar mættir til Vilnius

SA Víkingar mættir til Vilnius

Birt: 17.10.2025Flokkar: Fréttir, Toppdeild Karla

SA Víkingar að fagna Íslandsmeistara titilinum í vor

Forkeppni Toppdeildar karla er búin og Víkingarnir eru mættir til Vilnius í Litháen þar sem þeir munu keppa í annarri umferð Continental Cup um helgina. Við skulum kynnast liðinu aðeins betur.

Víkingarnir fóru í gegnum síðasta tímabil nokkuð þægilega, tóku deildina með 7 stig í næsta lið og úrslitin svo sannfærandi 3-0 gegn þá tvöföldum meisturum SR. Fyrsti leikur þeirra í forkeppninni fór alla leið í framlengingu gegn liði Fjölnis og kláruðu þeir svo forkeppnina með tapi á móti SR, svo von er á töluvert jafnara tímabili en í fyrra.

Hver mun stýra liðinu í vetur í fjarveru Sheldons?

Sheldon Resbeck þjálfari átti að fara inn í sitt annað tímabil með liðið en hefur þurft að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum og verður Evrópu keppnin síðasta verkefnið hans með liðinu allavega í bili. Ingvar Jónsson sem allir þekkja hefur verið í þjálfarateyminu og útlit er fyrir það að ný hættur Björn Jakobsson sé kominn inn í teymið líka. Spurning hvort að þeir félagar taki við liðinu í vetur og reyni að byggja ofaná vinnu Sheldons frá því í fyrra eða hvort það verði komin nýr maður í brúna fljótlega.

Einhverjar breytingar hafa orðið á hópnum hjá Víkingunum frá því á síðasta tímabili, Gunnar Arason og Ólafur Björgvinsson eru farnir út fyrir landsteinana að þreifa fyrir sér á meðan Tyler Szturm er farinn aftur til Kanada í þjálfun. Þeir hafa ekki einungis misst menn heldur hafa þeir einnig styrkt sig með stórum póstum. Jakob Jóhannesson fyrrum landsliðs markmaður er kominn aftur heim að verja markið með Róberti Steingríms og landsliðs varnarmaðurinn Arnar Kristjánsson er kominn heim aftur eftir Þýskalands ævintýri í fyrra. Tveir erlendir leikmenn styrkja einnig hópin hjá Víkingum, þar sem Robbe Delport, ungur Belgískur landsliðsmaður kemur til með að spila með liðinu í vetur sem og Hank Nagel, 193cm bandarískur varnarmaður sem spilaði fyrir C.H. Jaca á síðasta tímabili.

Robbe Delport hefur farið vel af stað með SA og kemur vel inn í hópinn að sögn fyrirliðans.

Farnir: 

Gunnar Arason (GIJS Groningen í Hollandi)

Ólafur Björgvinsson (Esbjerg II í Danmörku)

Bergþór Ágústsson (Fjölnir)

Ágúst Ágústsson (Hættur)

Andri Sverrisson (Óþekkt)

Tyler Szturm (Þjálfun í Kanada)

Björn Jakobsson (Hættur)

Birkir Einisson (Fjölnir)

Komnir:

Jakob Jóhannesson (Úr pásu)

Robbe Delport (Frá Chiefs Leuven í Belgíu)

Hank Nagel (Frá C.H. Jaca á Spáni)

Arnar Kristjánsson (Frá Ej Kassel í Þýskalandi)

Agnar Agnarsson (Úr pásu)

 

Andri Mikaelsson fyrirliði Víkinga hefur farið í gegnum ansi mörg tímabil sem fyrirliði liðsins og er mjög vel stemmdur fyrir tímabilinu og telur stemminguna í hópnum mjög góða;

“Mórallinn í hópnum er mjög góður og strákarnir klárir í slaginn fyrir tímabilið. Hópurinn samanstendur af ungum og ferskum leikmönnum í bland við eldri og reyndari, sem skilar sér í góðri dýnamík í klefanum. Við fengum nýjan leikmann að utan, Robbe, sem hefur æft með okkur undanfarið, flottur og metnaðarfullur drengur sem passar vel inn í liðið innan og utan vallar.”

Það verður spennandi að sjá hvernig þeir koma undan sumri eftir að hafa endurheimt dolluna aftur norður eftir tveggja ára pásu en hvernig telur Andri að það muni ganga;

“Aðal áskorunin þessa dagana er að nýta forkeppnina sem er í gangi [sem kláraðist 7.10.2025] til að slípa liðið saman og undirbúa það vel fyrir Continental Cup sem verður í Vilníus í Litháen um miðjan október. Þar munum við mæta sterkum liðum, svo það skiptir miklu máli að vera vel samstilltir og klárir þegar keppnin hefst.”

Andri fyrirliði og Björn að lyfta titlinum í vor, endurtaka þeir þessa mynd næsta vor með Björn í öðru hlutverki?

Liðið er eins og fyrr segir statt í Vilnius þar sem þeir byrja á heima mönnum í Hockey Punks Vilnius og fá svo Mogo Riga frá Lettlandi og enda á Narva PSK frá Eistlandi. Fyrirfram eru þetta talin mun sterkari lið en það verður gaman að fylgjast með Víkingunum í þessu verkefni og hægt verður að horfa á alla leikina á IIHF tv.

Leiktímar:

Föstudagur 17.10, kl. 17:00 (20:00 local time) gegn Hockey Punks Vilnius

Laugardagur 18.10, kl. 11:00 (14:00 local time) gegn Mogo Riga

Sunnudagur 19.10, kl. 11:00 (14:00 local time) gegn Narva PSK

Toppdeildin fer svo af stað með fyrstu ofurhelgi vetrarins þar sem öll liðin spila í Egilshöllinni næstu helgi, 24-26. október, þannig að það er nóg af hokkí framundan.