HM karla í Madríd – Tap í fyrsta leik
HM karla í Madríd – Tap í fyrsta leik
Ísland mætti Georgíu í fyrsta leik sínum á HM karla í Madríd.
Fyrsti leikhluti
Íslensku strákarnir byrjuðu á því að missa mann út af á fyrstu mínútu leiksins. Rétt áður en fimmti maðurinn kom aftur inn á kom fyrsta markið í leiknum. #12 Nikita Bukiya sendir pökkinn úr horninu út á #6 Artem Kurbatov sem tekur skotið og skorar. 1-0 fyrir Georgíu.
Tæpar 9 mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar Ísland lenti aftur manni færri. 30 sekúndur voru í 5 manninn þegar #12 Nikita Bukiya sendir á #9 Ivan Marov. Ivan er á auðum sjó fyrir framan markið og tekur sinn tíma í að leita að rétta færinu. Ivan finnur færið og skorar. 2-0 fyrir Georgíu. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrstu leikhlutanum.
Annar leikhluti
Annar leikhlutinn var jafnari en sá fyrsti. 3 mark leiksins skoruðu Georgíumenn þegar 6 mínútur voru liðnar af leiknum. Georgíumenn voru einum færri en komast inn í sendingu Íslands í hlutlausa svæðinu. #4 Danila Slesarev fær pökkinn og skautar á ógnarhraða að marki Íslands. Danila kemst fram hjá tveimur varnarmönnum Íslands, krossar markið og skorar. 3-0 fyrir Georgíu.
Fyrsta mark Íslands í leiknum kom þegar 11 mínútur voru búnar af leikhlutanum. #8 Þorgils Eggertsson skýtur á markið af löngu færi en það er varið. #10 Styrmir Maack fer í frákastið og byrjar að pota en markmaður Georgíu ver. Frákastið ratar aftur úr á leikmann Íslands. #14 Kári Arnarsson tekur skotið, skorar og lagar stöðuna fyrir Ísland, 3-1.
Strákarnir áttu þó nokkur skot í leikhlutanum en markmaður Georgíu, #25 Ivan Starostin, varði vel í leiknum. Strákarnir fengu powerplay í lok leikhlutans en náðu ekki að nýta yfirtöluna og var því 3-1 í lok annars leikhlutans.
Þriðji leikhluti
Leikhlutinn fór heldur rólega af stað. Bæði liðin fengu tækifæri einum fleiri til skiptis en ekkert varð úr því. 5 mínútur voru eftir þegar Ísland ákvað að fara í powerplay og taka #20 Jakob Jóhannesson úr markinu. Það gekk þó ekki betur en svo að #12 Nikita Bukiya stal pekkinum og skoraði í autt markið. 4-1 fyrir Georgíu.
Strákarnir reyndu eins og þeir gátu að bæta stöðuna. Jakob skautaði fram og til baka, gefandi auka mann í sóknina. Síðustu mínútu leiksins spiluðu strákarnir meira og minna 6 á móti 4 þar sem Georgíumenn misstu mann af velli, en ekki náðu þeir að skora.
Leikurinn endar því 4-1 tap gegn Georgíu.
Svekkjandi tap gegn sterku en fámennu liði Georgíu. Smelltu hér fyrir leikskýrslu og hér fyrir upptöku af leiknum.
Ekki óskabyrjunin á mótinu en það þýðir ekki að velta sér og lengi upp úr því. Næsti leikur er á móti Króatíu á morgun kl 10:30. Hlekkur á streymið má finna hér.