HM karla í Madríd – Fyrstu stigin í hús!

HM karla í Madríd – Fyrstu stigin í hús!

AUS-ISL_19.04.23_19

Ísland mætti Ástralíu í þriðja leik sínum á heimsmeistaramóti karla í Madríd. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið þar sem hvorugt liðið var með stig. Ísland þurfti því á sigri að halda til að eiga möguleika á að halda sér uppi í sama styrkleikaflokki á næsta móti.

 

Fyrsti leikhlutinn

Leikurinn hófst af miklum hraða og hörku. Ástralar misstu mann af velli tvisvar sinnum á fyrstu 10 mínútunum. Fyrsta markið kom á tólftu mínútu leiksins. Ástralir náðu að stela pekkinum af íslenskum varnarmanni inn í svæði Íslands. #19 Casey Kubara sendi pökkinn fyrir aftan markið á #24 Tomas Landa. Tomas sendi snöggt fyrir framan markið þar sem #17 Mackenzie Caruana kom á siglingu og setti pökkinn örugglega í markið. 1-0 fyrir Ástralíu.

Mikil barátta var í leiknum.

4 mínútum síðar jafnaði Ísland stöðuna. Ástralir reyndu að hreinsa svæðið sitt en #8 Þorgils Eggertsson stoppaði pökkinn við bláu línuna. Þorgils skaut pekkinum að marki Ástrala en skotið var varið. #14 Kári Arnarsson náði frákastinu og sendi pökkinn út fyrir framan markið þar sem #15 Níels Hafsteinsson náði pekkinum. Níels átti mjög flott skot á markið með varnarmann beint fyrir framan sig og hafnaði pökkurinn í netinu.

Bæði lið fengu powerplay til skiptis í lokin en ekki komu fleiri mörk og því stóð staðan í 1-1 eftir fyrsta leikhluta. 

 

Annar leikhluti

Ástralir byrjuðu í powerplay þar sem einn Íslendingur var ennþá í skammakróknum. Ísland náði ekki að vera lengur en 13 sekúndur 5 inn á ísnum þegar annar Íslendingur var sendur í skammakrókinn. Við tók 2 mínútna vörn sem strákarnir stóðu sig gríðarlega vel í. 

10 mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar enn eitt brotið kom Íslendingi í boxið. Ástralir létu tækifærið ekki fara framhjá sér aftur og komust yfir. #2 John Kennedy fékk pökkinn út við bláu línuna. Hann sendi á #24 Tomas Landa sem sendi rakleiðis yfir á vinstri vænginn þar sem #13 Vadim Virjassov var staðsettur. Vadim skautaði að miðjunni, kom sér í skot stöðu og skaut úr þó nokkurri fjarlægð og skoraði. 2-1 fyrir Ástralíu stóð í lok annars leikhlutans.

#19 Andri Mikaelsson stöðvaður.

 

Þriðji leikhluti

Þriðji leikhluti var mjög hraður. Líklega hefur verið haldin ræða í klefanum því það var þvílík barátta í strákunum og greinilegt að þeir ætluðu sér að sigra leikinn. 5 mínútur voru eftir af leiknum þegar Ísland jafnaði leikinn. Ísland vann uppkast á miðjunni og rataði pökkurinn á #24 Atla Sveinsson. Atli sendi pökkinn upp vinstri vænginn þar sem #11 Hákon Magnússon tók við pekkinum. Varnarmaður Ástrala pressaði á Hákon sem losaði pökkinn á #19 Andra Mikaelsson. Andri var fljótur að taka skotið og skora, 2-2.

2 mínútur voru liðnar frá síðasta marki þegar annað mark kom. Ástralir voru að koma út úr svæði sínu en #11 Hákon Magnússon stoppaði sendinguna og sendi á #23 Jóhann Leifsson. Jóhann kom pekkinum aftur yfir bláu línuna og sá að #19 Andri Mikaelsson var á leiðinni. Jóhann sendi fyrir markið og var Ástrali næstum búinn að stela pekkinum en Andri náði honum og skilaði honum lista vel í netið. Ísland komið yfir 2-3.

Vladimir Kolek fer yfir málin á bekknum.

Örvænting greip um sig meðal Ástralanna og börðust þeir með kjafti og klóm síðustu mínúturnar í von um að jafna. Rúmar 45 sekúndur voru eftir af leiknum þegar Ástralir tóku markmann sinn, #1 Anthony Kimlin, út af í von um að powerplay myndi skila þeim marki. Sú áhætta skilaði marki, en ekki fyrir þá. #11 Hákon Magnússon átti þriðju stoðsendingu sína í leiknum þegar hann skutlaði sér á eftir pekkinum og sló hann til #23 Jóhanns Leifssonar. Jóhann náði skoti á tómt markið með varnarmann í sér og gull tryggði Íslandi sigurinn, 2-4.

 

Lokatölur 2-4 fyrir Íslandi!

Bráð skemmtilegur leikur og dýrmætur sigur fyrir Ísland. Fyrstu 3 stigin komin í hús og þurfa strákarnir að sigra einn leik í viðbót til að tryggja sætið sitt í deildinni. Fyrir leikskýrslu smelltu hér og fyrir upptöku af leiknum smelltu hér.

Næsti leikur er gegn Spánverjum á föstudaginn, 21 apríl, og hefst leikurinn kl 17:30 að íslenskum tíma.