HM karla í Madríd – Gestgjafarnir

HM karla í Madríd – Gestgjafarnir

Birt: 21.04.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
ISL-ESP_21.04.23_07

Næst síðasti leikur Íslands var gegn Spáni, gestgjöfum mótsins. Fyrir leikinn var Spánn í efsta sæti með 9 stig. Með sigri gátu Spánverjar tryggt stöðu sína á toppnum. Sigur fyrir Ísland væri einnig nauðsynlegur til þess að tryggja sætið okkar í deildinni.

 

Fyrsti leikhluti

Leikurinn hófst af miklum hraða og voru liðin frekar jöfn lengst af í leikhlutanum. Á sjöttu mínútu kom fyrsta mark leiksins. Leikmaður Spánar átti skot að marki Íslands. #1 Jóhann Ragnarsson varði skotið sem hafnaði í rammanum fyrir aftan markið. Pökkurinn rann aftur fyrir framan markið þar sem #22 Dorian Donath smeigði pekkinum undir fót Jóhanns. 0-1 fyrir Spánverjum.

Leikurinn hélt áfram að vera jafn og þegar 13 mínútur voru liðnar af leikhlutanum jafnaði Ísland. #19 Andri Mikaelsson sendi pökkinn á #23 Jóhann Leifsson sem sótti að markinu. Í kjölfarið dró hann í sig tvo varnarmenn og markvörðinn. Jóhann sendi síðan á #5 Gunnar Arason sem var kominn í dauðafæri og skoraði. 1-1.

Spánverjar voru fljótir að svara fyrir sig því aðeins einni og hálfri mínútu seinna skoraði #2 Alfred Encinar eftir stoðsendingu frá #15 Gaston Gonzalez. 1-2.

Mínútu síðar fékk Ísland powerplay eftir að leikmaður spánar skautaði á Jóhann í marki Íslands. Smá stimpingar urðu í kjölfarið og fékk hinn seki smávæginlegar blóðnasir. Íslandi tókst ekki að skora manni fleiri og var því staðan í lok leikhlutans 1-2 fyrir Spáni.

Góð mæting var í höllina.

Annar leikhluti

#20 Jakob Jóhannesson byrjaði í markinu í stað Jóhanns Ragnarssonar. Tæpar 4 mínútur voru liðnar þegar 3 mark Spánverja leit dagsins ljós. #15 Gaston Gonzalez var fyrir aftan mark Íslands og sendi á #11 Juan Munoz sem kom á miklum hraða á móti sendingunni og smellti pekkinum í netið.

5 mínútum seinna fékk #9 Nacho Granell sendingu frá #22 Dorian Donath og skorar. Staðan orðin 1-4 fyrir Spánverjum. Strákarnir svöruðu fljótt fyrir sig. 30 sekúndum seinna skaut #21 Ólafur Björgvinsson á markið af stuttu færi en pökkurinn fór ekki inn. #22 Heiðar Jóhannsson náði frákastinu og skoraði.

Þrátt fyrir að 12 mínútur voru eftir af leikhlutanum komu ekki fleiri mörk. 2 mörk á móti 4 eftir annan leikhlutann.

 

Þirðji leikhluti

Eins og í öðrum leikhlutanum kom fyrsta mark leikhlutans eftir 3 mínútur. #3 Bruno Baldris tók langt skot út við ramman vinstra meginn og skoraði. 2-5 fyrir Spánverjum. Eftir markið var myndavélinni beint að bekk Íslands þar sem Vladimir Kolek, þjálfari Íslands, átti í orðaskiptum við dómara leiksins. Ekkert varð úr því og leikurinn hélt áfram.

Einni mínútu eftir markið urðu Spánverjum á mistök í hlutlausa svæðinu. #14 Kári Arnarsson náði pekkinum, komst listilega framhjá varnarmanni Spánar og skoraði einn á móti markmanninum. Staðan 3-5 fyrir Spáni.

8 mínútur voru liðnar af leikhlutanum þegar Spánn bætti enn við forskotið. #3 Bruno Baldris var fyrir aftan mark Íslands, sendi pökkinn fyrir framan markið þar sem #6 Adrian Torralba kom á siglingu og skoraði. Staðan 3-6.

Barist um pökkinn.

Tæpar 7 mínútur voru eftir af leiknum þegar #9 Nacho Granell var kominn einn inn á mitt svæði Íslands. Eitthvað hafa strákarnir sofnað á verðinum þar sem Nacho tók skot og kom stöðunni í 3-7.

Hiti var kominn í leikmenn undir lok leiksins. Stimpingar urðu við bekk Spánverja sem endaði með því að einn úr hvoru liði fékk að hvíla sig í boxinu. Íslensku strákunum tókst að laga aðeins stöðuna þegar 35 sekúndur voru eftir af leiknum. #13 Emil Alengaard vippaði pekkinum í áttina að marki Spánar. Spænskur varnarmaður reyndi að slá pökkinn niður, en við það sló hann pökkinn beint í #18 Unnar Rúnarsson, og pökkurinn fór inn í markið. 

 

Úrslit 4-7 sigur fyrir Spánverja

Leikurinn var að mestu leyti mjög jafn og gaman að sjá að strákarnir náðu að gefa Spánverjunum leik. Það var augljóst að á tímapunkti voru Spánverjarnir pínu hræddir við íslensku strákana, lið sem þeir voru örugglega búnir að afskrifa fyrir leikinn.

Smelltu hér fyrir leikskýrslu. Því miður er erfitt að finna upptöku af leiknum þar sem leiknum var streymt inn á ríkissjónvarpi Spánar, RTVE.ES. Ef hlekkur finnst á leikinn verður færslan uppfærð. Afsakið ónæðið.

Síðasti leikur Íslands er á morgun gegn Ísrael kl 14 að íslenskum tíma. Ísland þarf á sigri að halda til að vera öruggt með sætið sitt í deildinni á næsta ári.