Fögnuðu deildarmeistaratitlinum með sigri | Hertz-deild kvenna

Fögnuðu deildarmeistaratitlinum með sigri | Hertz-deild kvenna

SA eru deildarmeistarar Hertz-deildar kvenna 2023-2024. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

SA og Fjölnis konur áttust við í seinni leik dagsins. SA konur voru búnar að tryggja sér deildarmeistara titilinn fyrir nokkru og var bikarinn afhentur fyrir leikinn. Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóri ÍHÍ, afhenti Ragnhildi Kjartansdóttur, fyrirliða SA, bikarinn. Við hjá íshokkí.is óskum SA til hamingju með titilinn.

Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóri ÍHÍ, og Ragnhildur Kjartansdóttir, fyrirliði SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Leikurinn hófst gríðarlega jafnt. Óljóst var hvort liðið myndi brjóta markaísinn en fyrsta markið kom eftir tæpar 15 mínútur þegar SA komst 1-0 yfir. Eftir það má segja að SA hafi losað stífluna. SA komst 2-0 yfir snemma í byrjun annara lotu. Leiktíminn var tæplega hálfnaður þegar SA komst 3-0 yfir. Fjölnir svaraði með marki stuttu seinna, í 3-1, en það dugði ekki lengi því SA skoraði 2 mörk á 40 sekúndum og komst í 5-1.

Fjölnir gafst aldrei upp í leiknum. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

SA konur gerður að lokum útaf við leikinn í þriðju lotunni og komust 7-1 yfir. Fjölnir gafst þó ekki upp og lagaði stöðuna aðeins fyrir lok leiks og voru lokatölur 7-2, SA í vil.

SA fagnar sjöunda marki sínu. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Mörk og stoðsendingar SA: Sólrún Arnardóttir (2/2), Silvía Björgvinsdóttir (2/1), Ragnhildur Kjartansdóttir (2/0), Anna Ágústsdóttir (1/0), Amanda Bjarnadóttir (0/2), Sveindís Sveinsdóttir (0/1), Heiðrún Rúnarsdóttir (0/1)

Mörk og stoðsendingar Fjölnis: Sigrún Árnadóttir (1/0), Berglind Leifsdóttir (1/0), Laura Murphy (0/1)