Leikjafjöldi afgerandi þáttur í framförum

Leikjafjöldi afgerandi þáttur í framförum

Mynd05

„Við vorum að spila útileik á móti Alvesta í annarri deildinni,“ segir Hákon Marteinn Magnússon, tvítugur fyrirliði U20-landsliðs karla, sem um þessar mundir er búsettur í hinni sænsku Gautaborg og svífur þar um ísinn á vegum Bäcken HC. Í þessu viðtali er hann hins vegar staddur í rútu með liði sínu á leið heim af téðum útileik og fellst á að ljóstra því upp hvernig ferillinn hófst hjá honum.

„Bræður mömmu minnar eru að norðan og afi er búinn að vera með þá í hokkíinu þar,“ byrjar Hákon, en frændur hans eru þeir Jóhann Már, Hilmar Freyr og Sæmundur Þór Leifssynir, allt þekktar kempur á svellinu, en afinn sem ber ábyrgð á þessu öllu saman, faðir þeirra, er Leifur Ólafsson, tækjastjóri Skautafélags Akureyrar, sem áður gat sér gott orð í hinni sérstæðu íþrótt krullu.

„Það var það sem dró mig inn í íþróttina, ég bjó þá í Reykjavík og fór að æfa með Skautafélagi Reykjavíkur þegar ég var að verða fimm ára og þar er ég uppalinn, ég spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn minn þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára, ég man það nú ekki alveg,“ rifjar Hákon upp af því þegar hann ungur fetaði sig út á ísinn.

Hákon Marteinn ásamt afa sínum, Leifi Ólafssyni, og frænda sínum Jóhanni Má Leifssyni þegar Ísland trygði sér gull á HM Div2B í apríl 2022.

Til Gautaborgar eftir stúdentsprófið

Hann lék sinn fyrsta landsliðsleik í Króatíu árið 2018 með U18-landsliðinu þar sem liðið varð fyrir því að falla um deild en árið eftir beið Hákonar fyrsti landsleikurinn með U20-liðinu. Strax að loknum grunnskóla lagðist Hákon í víking og hélt til Stokkhólms þar sem hann spilaði í þrjú ár samhliða menntaskólanámi, fyrst með Flemingsbergs IK en þaðan lá leiðin yfir til Sollentuna HC.

„Þegar ég kláraði menntaskólann í fyrra flutti ég svo til Gautaborgar,“ segir Hákon frá en þar hefur hann alið manninn síðan. „Mig langaði aðallega að breyta til, ég var búinn að vera í höfuðborginni í þrjú ár og búinn að klára menntaskólann þar. Mig langaði að prófa frelsið og prófa hokkí annars staðar í Svíþjóð,“ segir hann af hugsjónum sínum.

Hákon hafði þá verið í tölvupóstsambandi við forsvarsmenn Bäcken, fékk að taka þar þátt í æfingu sem góður rómur var gerður að og komst hann þegar í U20-lið Gautaborgarfélagsins og unir hag sínum vel þar.

En hvernig stóð á því að leiðin lá til Svíþjóðar upphaflega?

„Ja, það var nú aðallega vegna þess að því miður er íshokkíið á Íslandi ekki það stærsta í heiminum og þar sem ég var orðinn þokkalega góður langaði mig að reyna mig erlendis, sérstaklega þar sem auðvelt er að komast inn í menntakerfið hérna úti og lítið mál að ferðast milli Íslands og Svíþjóðar,“ segir Hákon og bætir því við í lokin að ofan á þetta allt saman sé Svíþjóð eitt besta hokkíland heimsins.

Hákon með sendingu fyrir mark Kínverja. „Það skiptir miklu að hafa einhvern til að líta upp til og hafa almennan áhuga á íþróttinni, ég sé ekki marga á Íslandi fylgjast með atvinnuíshokkí til dæmis,“ segir Hákon.

Finnar og Svíar stórveldin á Norðurlöndum

„Íshokkí er ofboðslega vinsælt hérna og núna er suðurdeildin mjög sterk. Ég man töluna nú ekki nákvæmlega en það eru eitthvað um tólf lið sem eru hérna bara á Gautaborgarsvæðinu sem segir margt um hversu stór íþróttin er í landinu,“ segir Íslendingurinn og bætir því við aðspurður að íshokkí eigi sér sögulegar rætur meðal Svía, íþróttin hafi verið áberandi í hundrað ár ef ekki meira og Svíar skipað sér þar í fremstu línu allar götur frá því tekið var að keppa í greininni á alþjóðavettvangi.

„Finnarnir eru mjög sterkir líka, það eru Finnar og Svíar sem eru stærstir á Norðurlöndunum, Danmörk og Noregur eru rétt fyrir neðan, einni deild eða svo, en það er mikið um Finna og Svía í NHL-deildinni [stærstu íshokkídeild Norður-Ameríku] og þeir eru mjög þekktir þar og eru með bestu leikmönnum í heiminum þannig að þessar þjóðir eiga nokkrar þekktar stjörnur sem er auðvelt fyrir krakkana hérna að líta upp til og það er kannski meðal annars þess vegna sem íþróttin er svona stór,“ segir Hákon.

Talið berst að vexti og viðgangi íshokkís á Íslandi og segir Hákon barna- og unglingastarf þar með miklum blóma en hins vegar sé það nokkuð viðloðandi að áhugi iðkenda taki að dvína á efri unglingsárum, skóli og önnur áhugamál taki að vega þyngra í tilverunni eftir því sem nær dragi tvítugu.

„Einn fór til dæmis til Svíþjóðar þegar hann var fimmtán ára minnir mig, Axel Orongan, hann er mjög öflugur og alveg á pari við þá bestu í Svíþjóð þegar hann fór út. Tólf-þrettán ára krakkarnir sem eru að skara fram úr á Íslandi núna eru ekki verri en þeir bestu á sama aldri í Svíþjóð núna,“ segir Hákon af færni ungra íslenskra iðkenda á ísnum, samkeppnin og leikjafjöldinn séu mest afgerandi þættirnir í framförum á þeim vettvangi.

Í baráttunni um pökkinn. Hákon hélt út til Svíþjóðar þegar að loknum grunnskóla og tók menntaskólann þar á meðan hann spilaði af krafti með Flemingsbergs IK og síðar Sollentuna HC í höfuðborginni.

Þörf á að gera íþróttina spennandi

„Það skiptir miklu máli að hafa einhvern til að líta upp til og hafa almennan áhuga á íþróttinni, ég sé ekki marga á Íslandi fylgjast með atvinnuíshokkí til dæmis,“ heldur hann áfram. Þetta sé þó vel skiljanlegt í ljósi þess að aðgengi að íþróttinni sé í raun flókið. „Þú þarft að vita hvar þú átt að kaupa áskrift en slíkt er ekki mikið auglýst á Íslandi. Margir foreldrar sem eru að sinna barnastarfinu hafa án nokkurs vafa áhuga á íþróttinni og hefðu gaman af að horfa á þetta, til dæmis eru margir leikir hér í Svíþjóð á heppilegum tíma til að horfa á þá á Íslandi,“ segir Hákon.

Hann nefnir sem dæmi að Viaplay hafi verið að bjóða upp á leiki í NHL og reyndar í SHL líka, sem er sænska íshokkídeildin, þótt þar séu reyndar færri leikir í boði. Af þessu viti hins vegar líklega ekki margir. „Mögulega er SHL heppilegri til að gera efnið vinsælt á Íslandi hvað varðar tímamismun og auðvelt að horfa á leiki í beinni sem eru ekki grútseint á kvöldin. Í raun þyrfti bara að sjá til þess að fólk vissi af þessu og gera það spennandi,“ segir Hákon sem telur mikið atriði að auka spennuna kringum hokkíið.

„Mér finnst það aðallega vanta að gera íþróttina meira spennandi og gera eitthvað með leikina í stað þess að bara spila þá. Til dæmis mætti senda þá í sjónvarpi og hafa viðtöl fyrir og eftir leiki. Slíkt myndi hvort tveggja gefa íþróttinni smá byr undir vængina við að laða að sér iðkendur og eins gefa leikmönnum eitthvað að spila fyrir,“ segir hann.

Hákon Marteinn Magnússon, fyrirliði U20-landsliðs karla, unir hag sínum vel í Gautaborg í Svíþjóð. Hákon hóf æfingar ungur enda frændgarður hans þéttskipaður mönnum sem eru sterkir á svellinu.

Leikskilningur fæst aðeins með spilun

Hákon bendir á muninn á fjölda leikja á Íslandi og í Svíþjóð en eins og fram hefur komið telur hann leikjafjölda ríkulegan þátt í framförum iðkenda. „Vissulega lærir maður margt á æfingum en sama hversu góður þjálfarinn er og hvað hann kennir þér þá er leikskilningur eitthvað sem einungis leikmaður lærir sjálfur við að spila leikinn,“ segir Hákon af festu þess sem til þekkir.

Talið snýst að vinnumarkaði og skólamálum. Hákon var í sumarvinnu heima á Íslandi á menntaskólaárunum. Enn sem komið er hefur hann ekki verið á sænskum vinnumarkaði, til þess þarf hann sænska kennitölu sem hann er nú kominn með, en sem námsmaður þurfti hann á sínum tíma ekki að hafa hana. Aðstæður nú í vetur hafi ekki verið heppilegar fyrir hann til að skuldbinda sig á vinnumarkaði þar sem hann hafi verið mikið í burtu vegna landsliðsverkefna eftir áramótin.

„Og núna er tímabilinu að ljúka í mars og ég er ekki viss um að margir vinnuveitendur myndu vilja taka við mér núna. Hefði ég sótt um vinnu strax í ágúst hefði þetta litið öðruvísi út,“ segir Hákon sem hyggst hvíla sig á skólasetu í ár og stefna að háskólanámi á næsta ári. „Ég hef svolítinn áhuga á verkfræði, ég er fínn í stærðfræði og var á náttúrufræðibraut í menntaskóla svo það er kannski það sem freistar mest en mig langar líka að taka þjálfaranámskeið inn á milli,“ segir hann af framtíðaráformum.

Hákon stefnir á háskólanám í Svíþjóð næsta vetur og hefur áhuga á verkfræði. Hann ætlar sér þó engan veginn að taka af sér skautana í bráð.

„Þetta er rosaleg keyrsla“

Dæmigerð vika í lífi Hákonar er nokkuð þéttskipuð. U20-liðið á leiki á þriðjudögum og laugardögum. „Það eru æfingar á mánudögum, stundum kíki ég í ræktina um hádegi á mánudögum, það fer eftir leikjaálagi, liðin í U20-deildinni eru ellefu svo það er alltaf eitt lið sem situr hjá í hverri umferð þannig að aukaæfingar hjá mér fara eftir álagi,“ segir hann.

Á þriðjudögum er hann á morgunæfingu milli klukkan sjö og átta og svo er leikur um kvöldið en ef hans lið situr hjá þann daginn er æfing í staðinn. Engin miskunn hjá Magnúsi eins og þar segir. Alls eru æfingar á ís hverja viku frá sex og allt upp í níu og leikirnir allt að þrír til fjórir þar sem Hákon leikur með meistaraflokki og U20-liði Bäcken. „Þetta er rosaleg keyrsla,“ segir hann en kveðst þó fá nægan tíma til að hvíla lúin bein, stundum séu engar æfingar á fimmtudögum en auk þess séu tækniæfingar inn á milli sem séu ekki sama keyrslan.

Hvernig gengur þá að vera fyrirliði landsliðs á Íslandi en búsettur í Svíþjóð?

„Landsliðið kemur saman þrisvar-fjórum sinnum fyrir mót, einhverjar helgar. Af og til hittir það illa á vegna leikja hérna úti, ég missti af fjórum leikjum hér vegna þess að ég var með landsliðinu að spila heima og svo missti ég af tveimur í viðbót til að geta æft með landsliðinu. Landsleikjahléið í Svíþjóð er þegar heimsmeistaramótið í efstu deildinni í U20 er í gangi, ef við værum í deildinni fyrir ofan væri mótið haldið í desember sem væri aðeins hentugra upp á að komast hjá því að missa af leikjum,“ útskýrir Hákon og játar að æfingasamkomur landsliðsins séu ekki án áskorana fyrir utan það sem þegar hefur verið nefnt.

Afslappaðra andrúmsloft í Gautaborg

„Þetta er mikið ferðalag, sérstaklega fyrir norðanstrákana, og oft erfitt að koma þessu fyrir. Ef við horfum á uppleggið hjá karlalandsliðinu sem er að fara að keppa núna í apríl þá verða fimm daga æfingabúðir um páskana á Akureyri, og það er bara rétt fyrir mótið, en auk þess er ein æfing nýbúin og önnur verður í byrjun mars [viðtalið var tekið um miðjan febrúar]. Vissulega leggja leikmenn mikið á sig við æfingar í sínum eigin klúbbum þannig að maður reiknar með að menn séu að æfa og halda sér í formi þar, svo spyrnum við okkur saman hvað varðar leikkerfi og annað á þessum æfingum,“ útskýrir fyrirliðinn.

Hvernig skyldi Hákoni þá líka sænskt samfélag svo enn sé farið úr einu í annað í umræðuefnum?

„Það var töluvert auðveldara að detta inn í þetta hér en í Stokkhólmi, fólkið er opnara hérna, það er dálítill alvarleiki og stress þarna uppi í höfuðborginni en Svíar eru almennt mjög glaðir og opnir fyrir að taka á móti nýju fólki,“ svarar Hákon sem vel gæti hugsað sér að búa áfram í Svíþjóð að öllu námi loknu.

„Alveg klárlega. Barnastarfið í hokkíklúbbunum hérna er orðið mjög stórt, hér er til dæmis mikil áhersla lögð á að halda lítil mót um helgar fyrir yngri flokkana, U12, U10 og U8, margir litlir leikir sem eru bara á milli klúbbanna á svæðinu þannig að margt er gert til að hafa bara gaman og fá krakkana til að spila mikið,“ segir viðmælandinn af barnastarfi hinna sænsku og við gerum þau orð hans að lokaorðum þessa spjalls.