„Maður er búinn að fljúga ansi oft á hausinn á æfingum“
„Maður er búinn að fljúga ansi oft á hausinn á æfingum“
Mynd að ofan: Feðginin Tinna Viktorsdóttir og Viktor Heiðarsson æfa íshokkí af krafti en það var faðirinn sem dró dóttur sína með sér í þessu tilfellinu. Auk þess er Viktor liðsmaður heldrimannafélagsins HC Lunda.
„Mig langaði alltaf að æfa íshokkí þegar ég var krakki en það var náttúrulega ekkert í boði af því að maður bjó í Grindavík,“ segir Viktor Heiðarsson, tæplega fertugur íshokkífaðir sem er á lokametrunum við að ljúka smiðsnámi og stundar ísinn grimmt og er auk þess einn innsti koppur í búri HC Lunda, íshokkífélags nokkurra pilta sem eru við það að komast af sínu allra léttasta skeiði.
Eins og Viktor segir dreymdi hann um frækna sigra á svellinu í barnæsku en við ramman reip var að draga vegna aðstöðuleysis. Nú stunda þau Tinna, dóttir hans á tíunda ári, hins vegar íshokkí sem enginn sé morgundagurinn.
„Maður skautaði nú svolítið þegar maður flutti í Hafnarfjörðinn á sínum tíma en núna fyrir þremur árum datt ég svo inn á námskeið fyrir fullorðna byrjendur og þá byrjaði ég bara á fullu. Tinna fór þá í Skautaskólann og nokkrum vikum seinna var hún byrjuð á æfingum og þá var ekki aftur snúið,“ segir Viktor af leið þeirra feðgina inn í íþróttina en HC Lundi fagnaði nýlega nýjum liðsbúningi og nú er svo komið að Facebook-færslur Viktors snúast varla um annað en íshokkí og nýjustu fregnir á þeim vettvangi af Tinnu og auðvitað HC Lunda.
Hjálpaði mikið að hafa staðið á skautum ungur
„Það má eiginlega segja það,“ svarar Viktor, spurður hvort það hafi í raun verið hann sem á gamals aldri dró barnunga stúlkuna út á ísinn, líklegast öfugt við marga eldri iðkendur landsins sem hafa byrjað að fylgjast með börnum sínum á ísnum og svo ýmist leiðst sjálfir út í stjórnsýslu viðkomandi félags eða jafnvel æfingar.
Þau Tinna æfa hjá Skautafélagi Reykjavíkur, hún fjórum sinnum í viku og hann þrisvar, og ekki þykir annað fært en að forvitnast um það hjá föðurnum hvernig gengið hafi að hefja iðkun hátt á fertugsaldri, voru fyrstu skrefin ef til vill þung?
„Það hjálpaði náttúrulega mjög mikið að maður skautaði þegar maður var yngri og svo fórum við Tinna oft, þegar hún var svona þriggja-fjögurra ára gömul, í almenning á skautum en maður er búinn að fljúga ansi oft á hausinn á æfingum, það var alla vega þannig til að byrja með en svo bætir maður sig smátt og smátt á æfingum,“ segir faðirinn af ferli sínum sem segja má að hafi verið þyrnum stráður í byrjun.
Þau feðginin fóru tvívegis til Tékklands í fyrra, þess íshokkíveldis, og eru á leiðinni aftur nú í sumar og þá í tvær vikur, fyrri vikuna saman en síðari vikuna æfir Tinna með sínu liði.
Stelpuæfingarnar höfðu aðdráttarafl
Hvernig voru fyrstu skref dótturinnar þá á ísnum þegar hún hóf leika, sjö ára gömul?
Þessu svarar Tinna sjálf fyrir milligöngu föður síns. „Alveg hræðileg, segir hún,“ hefur Viktor eftir dóttur sinni og hlær við. „Þetta gekk brösuglega fyrst en henni fannst rosalega gaman, það var tekið svo vel á móti henni. Hún datt aðeins á bakið á fyrstu æfingunni og þá ætlaði hún aldrei aftur að fara en hún mætti aftur,“ segir Viktor frá.
Tinna skýtur því nú inn í að stelpuæfingar einu sinni í viku hafi fljótt höfðað til hennar, „henni fannst mikið sport að vera á þeim með eldri stelpunum úr meistaraflokknum, þegar hún fór fyrst var hún langyngst og -minnst af þeim“, segir faðir hennar.
Tinna hafi fljótlega verið farin að keppa enda þrjú barnamót haldin hvern vetur, eitt á vegum hvers félaganna þriggja. „Þetta hafa verið mjög skemmtileg ár hjá henni, hún hefur eignast fullt af nýjum vinum og á orðið mjög góðar vinkonur í Birninum, til dæmis Alexöndru, dóttur Sigrúnar Agöthu [Árnadóttur] í landsliðinu, þær eru orðnar mjög góðar vinkonur. Svo kom Sean [Walker] hérna frá Kanada, úr iTrain Hockey, þá kynntist hún stelpum frá Akureyri, dætrum Söruh Smiley, þjálfara þar,“ segir Viktor af félagslífinu.
Blómlegt félagslíf utan æfinga
Hann liggur ekki á þeirri skoðun sinni að íshokkíiðkunin sé jákvæð fyrir yngri kynslóðina þegar litið sé til félagslegra tengsla. „Í SR eru til dæmis krakkar alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu sem er mjög jákvætt upp á tengsl að gera. Þetta er náttúrulega ekki stórt sport hér á landinu en það er haldið rosalega vel utan um krakkana og aðalþjálfararnir tveir, Alexander frá Rússlandi og Miloslav frá Tékklandi, eru mjög góðir auk þess sem iðkendur úr meistaraflokknum eru aðstoðarþjálfarar á æfingum,“ segir Viktor og tekur fram að Tinna sé sérstaklega hrifin af landsliðsþjálfaranum Alexöndru og landsliðsmarkmanninum Jóhanni.
Viktor kveður félagslífið utan æfinga blómlegt, Tinna umgangist þá hvort tveggja stelpur úr sínu eigin liði auk vinkvenna úr Birninum en á döfinni í sumar er ferð í sumarbúðir með þeim síðarnefndu. „Þannig að þau eru í góðu sambandi en þetta er náttúrulega töluvert skutl fyrir foreldrana,“ segir Viktor. Þau Tinna búa í Hafnarfirði og dæmist því á hann að bruna úr vinnu í Reykjavík og suður í Hafnarfjörð að sækja dótturina og skutla henni á æfingu. Þar muni miklu um það hagræði að einu sinni í viku fær Tinna far með vinkonu úr eldri flokki.
Viktor kveðst mjög ánægður með þau jákvæðu áhrif sem íþróttin hefur að hans mati haft á dóttur hans. „Það er auðvitað aukinn félagslegur þroski og virðing fyrir mótherjanum. Svo hefur hún styrkst mjög mikið hvort sem litið er til félagslegra þátta eða líkamlegra, hún er orðin hörkugóð og svo passar hún vel upp á að sinna skólanum því hana langar að fara til útlanda í skóla þegar hún er búin með grunnskólann hér til að geta spilað íshokkí þar,“ segir Viktor af mótuðum framtíðaráformum dótturinnar. „Þær vinkonur hennar ætla að vera saman í landsliðinu þegar þær verða eldri,“ heldur hann áfram.
Hvað með HC Lunda – hvaða fyrirbæri er þetta?
Að lokum berst talið að heldrimannaklúbbnum HC Lunda, það mál verður ekki þagað í hel lengur. Hvernig stendur á þessu?
„Það var Svíi sem heldur hérna stundum mót sem hafði samband við mig síðasta sumar og spurði hvort ég væri með lið fyrir mótið. Ég talaði þá við stráka sem eru að æfa með mér og við settum saman þetta lið í snarheitum, HC Lunda. Við skráðum okkur á þetta mót og erum búnir að vera að æfa saman í vetur, aðallega á þessum foreldraæfingum, það er ein æfing á viku hjá Skautafélagi Reykjavíkur og tvær uppi í Egilshöll hjá Birninum þannig að við erum blanda úr báðum félögum, fjórtán strákar, sem skipum þetta lið,“ segir Viktor frá.
Hann segir það ekkert tiltökumál að Skautafélag Reykjavíkur og Björninn hendi í sameiginlegt lið. „Nei nei, þetta er bara þetta svokallaða foreldrahokkí, ég æfi á báðum stöðunum og við gerum það margir,“ segir Viktor sem giskar á að meðalaldurinn í HC Lunda sé 36 til 37 ár, sjálfur skríður hann þar rétt yfir.
Nýi búningurinn er svo annað hitamál sem liðsmenn lögðu hjarta sitt og sál í. „Það byrjaði nú bara sem grín að kalla þetta HC Lunda, við töluðum þá um að við gætum opnað lundabúð þegar við yrðum orðnir stórlið. Einn fór þá í að hanna lógó félagsins og svo vildu þeir hafa svona lopapeysumynstur til að gera þetta íslenskara. Lundinn heldur svo á bjórkönnu og hokkíkylfu og er með víkingahjálm en á peysunni fyrir krakkana heldur hann á mjólkurkönnu,“ segir Viktor af hinni meitluðu táknfræði HC Lunda.
Tvær hallir sem fimm deildir bítast um
Það er þjálfarinn Andri Freyr Magnússon sem hefur veg og vanda af þjálfun hins veraldarvana liðs feðra, hann þjálfar foreldrahokkí hjá Reykjavíkurfélögunum báðum og er auk þess sjálfur liðsmaður í HC Lunda. „Þannig að við fengum einn gamalreyndan þarna til okkar,“ segir Viktor og hlær.
Undir lokin kveðst hann, eins og fleiri viðmælendur hér raunar, vilja sjá íþróttinni gert hærra undir höfði og aðstöðu til íshokkíiðkunar á landinu eflda sem mest megi verða. „Hér á höfuðborgarsvæðinu eru bara tvær skautahallir sem fimm deildir bítast um,“ segir hann og á þá við íshokkídeildir SR og Bjarnarins, listskautadeildir félaganna og svo Öspina sem eru iðkendur með fötlun.
„Og að Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur séu ekki búnir að koma sér upp íshokkíhöll er bara til skammar,“ segir Viktor Heiðarsson, íshokkífaðir og gallharður liðsmaður HC Lunda, að lokum.