Fjölnir – SR 14. febrúar. Hertz-deild karla

Fjölnir – SR 14. febrúar. Hertz-deild karla

Birt: 15.02.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
Mynd: Bjarni Helgason
Header SR-Fjölnir,2

Mynd: Bjarni Helgason

Fjölnir og SR áttust við í fjörugri viðureign í Egilshöllinni á sjálfan Valentínusardaginn. Ekki var þó mikil ást á svellinu þar sem menn börðust allan leikinn af miklum krafti. Fjölnir byrjaði leikinn betur og komu sér 1-0 yfir eftir rúmlega fjögurra mínútna spil þökk sé #12 Viktori Svavarssyni. Ekki leið á löngu þangað til SR jafnaði metin en þar var #52 Gunnlaugur Þorsteinsson að verki.

Snögglega í byrjun annars leikhluta kom skot frá bláu línunni og #86 Vignir Arason stýrði pekkinum snyrtilega yfir #29 Atla Valdimarsson í marki SR og kom Fjölni 2-1 yfir. SR var þó ekki lengi að svara fyrir sig og gerði það með tveimur mörkum á innan við mínútu, fyrst var það #8 Ævar Arngrímsson sem skilaði pekkinum í netið og svo #51 Níels Hafsteinsson sem átti hörkuflott skot stöngin inn og kom SR yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 2-3.

Kraftur var í báðum liðum í byrjun þriðja leikhluta og mikil sókn hjá Fjölni þegar þeir spiluðu í yfirtölu en þeir hreinlega komu pekkinum ekki í netið þrátt fyrir nokkur hættuleg skot. Sláarskot í bland við góðar markvörslur hjá #29 Atla Valdimarssyni komu í veg fyrir jöfnunarmark Fjölnis. SR var svo ekki lengi að snúa vörn í sókn en þeir nýttu sér strax næsta tækifæri þar sem #9 Axel Orongan kom þeim í 2-4. Ljóst var að Fjölnir átti á brattann að sækja ef þeir vildu taka heim einhver stig. Svo varð ekki þegar #16 Heiðar Kristveigarson bætti við 5 marki SR og lokaði markareikningi kvöldsins. Lokatölur 2-5 SR í vil.