Úrslitakeppni karla – Annar leikur

Úrslitakeppni karla – Annar leikur

7C2A5940

Í gærkvöldi var leikinn annar leikurinn í úrslitarimmu Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur í Úrslitakeppnni Hertz-deildar karla.  Það var nokkuð greinilegt á fyrstu mínútum leiksins að SA Víkingar voru ekki á þeim buxunum að láta leikinn á Akureyri endurtaka sig og mættu nokkuð einbeittir til leiks og byrjuðu strax á hárri pressu á lið SR.  Unnar Rúnarsson(#28) náði valdi á pekkinum þegar SA voru að spila á yfirtölunni (power-play) og skoraði laglegt mark þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta.  Rétt um miðja lotunni átti Orri Blöndal (#2) harðan sprett í gegnumbroti í gegnum vörn SR og var því sem næst einn á móti markmanni SR, Atla Valdimarssyni, en hin fórfrái leikmaður SR, Þorgils Eggertsson (#40), náði að skauta hann uppi en þó ekki nægilega og endaði með því að brjóta á Orra Blöndal með því að krækja í hann og þannig svifta hann marktækifærinu.  Dómarar leiksins dæmdu réttilega vítaskot við þetta atvik sem Jóhann Már Leifsson (#10) tók en brenndi af.  Þegar rétt um fjórar mínútur lifði lotunnar náði Gunnlaugur Þorsteinsson (#52) að jafna leikinn fyrir SR eftir ágæta sókn að marki SA Víkinga.  Staðan þá orðinn. 1 – 1 og leikurinn allur í járnum.

Annar leikhluti

SA-Víkingar byrjuðu lotuna manni fleiri þar sem Níels Hafsteinssin (#51) hjá SR nældi sér í 2 mínútna dóm fyrir hindrun í lok fyrstu lotu.  SA náði ekki að nýta sér það tækifæri til að komast yfir í leiknum og átti Atli Valdimarsson margar ævintýralegar vörslur sem héldu SR-ingum vel inn í leiknum.  Stúkan í Skautahöllini í Laugardal tók heldur betur við sér þegar Þorgils Eggertsson náði hárnákvæmu skoti í mark SA í gegnum allhressilega traffík sem var fyrir fram markið hjá Jakobi Jóhannessyni (#55) og staðan orðin 2 – 1 SR í vil.  Andri Már Mikaelsson (#19) náði síðan að jafna þegar tæpar fjórar mínútur lifði lotunnar.  Staðan eftir annan leikhluta 2 – 2 og leikurinn ennþá allur í járnum.

Þriðji leikhluti

SA Víkingar byrjuðu þriðja leikhlutann af sama krafti og fyrri tvo leikhluta og greininlegt að dagskipunin hafi verið sú að pressa hátt og valda ursla í vörn SR.  Sú vinna skilaði þeim marki snemma í lotunni þegar Andri Mikaelsson náði pekkinum djúpt í svæði SR, sem var þó manni fleirri, og náði skoti á mark SR sem Atli Valdimarsson varði vel en Gunnar Arason (#5) náði frákastinu og skaut pekkinum í markið.  SR-ingar fengu svo kjörið tækifæri til að jafna leikinn enn á ný þegar Atli Sveinsson (#20) fékk dæmdar á sig 2 mínútur fyrir að fella andstæðing (tripping) en dagskipun SA-Víkinga var greinilega ekkert breytt og þeir héldu áfram að pressa hátt (þrátt fyrir að vera manni færri) og úr varð að Jóhann Már Leifsson náði pekkinum af vörn SR-inga og sendi pökkinn beint á Hafþór Sigrúnarson (#23) sem náði viðstöðulausu skoti beint í mark SR.
Staðan þá orðin 2 – 4 SA-Víkingum í vil.  Þjálfarar SR, þeir Gunnlaugur Thoroddsen og Björn Róbert Sigurðarson, tók réttileg leikhlé á þessum tímapunkti til að skerpa á leik sinna manna.  Undir lok lotunnar freistuðu SR-ingar til þess að auka enn á sóknarþunga með því að taka markmann sinn af velli og bæta einum útispilara við sóknina en sú áhætta borgaði sig ekki þar sem Hafþór Sigrúnarson náði valdi á pekkinum sem kom honum áfram á Andra Mikaelsson sem kom honum svo áfram á Jóhann Már Leifsson sem á endanum skilaði pekkinum í tómt mark SR-inga og breytti stöðunni í 2 – 5 SA Víkingum í vil.

Hægt er að sjá leiklýsingu hér og umfjöllun MBL hér.

Staðan í Úrslitakeppninni er því 1 – 1 og getur mest farið í 5 leiki, eða þangað til annað hvort liðið sigar 3 leikir.  Næsti leikur verður í Skautahöllinni á Akureyri næstkomandi sunnudag og hefst kl.16:45.