Hertz-deild kvenna – Æsispennandi loka mínútur

Hertz-deild kvenna – Æsispennandi loka mínútur

7C2A6750

Tekist var á í spennandi leik SR og SA sem fram fór í dag. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Leikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að sækja og verjast. María Eiríksdóttir skoraði fyrsta mark leiksins um miðja fyrstu lotuna og kom SA 1-0 yfir. SR byrjaði aðra lotuna af miklum krafti en þrátt fyrir mikla baráttu tókst þeim ekki að jafna metin. 

Það var ekki fyrr en um miðja þriðju lotu þegar Malika Aldabergenova jafnaði fyrir SR eftir smá basl fyrir framan mark SA.

Malika Aldabergenova

Malika Aldabergenova skorar eina mark SR í leiknum. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Allt stefndi í framlengingu. SR missti leikmann af velli þegar rúmar 2 mínútur voru eftir. Maríu Eiríksdóttur, leikmann SA, langaði greinilega ekki í framlengingu, nýtti yfirtöluna og skoraði sitt annað mark fyrir SA. SR tók strax leikhlé og ákvað að freista gæfunnar með því að taka Andreu Bachmann, markmann SR, út af og spila með 6 útileikmenn.

SR var með pökkinn alla síðustu mínútuna en náðu ekki að skila honum í netið. 2-1 sigur fyrir SA loka úrslit í Laugardalnum.

Andrea Bachmann, markmaður SR, stóð sig frábærlega í leiknum en hún varði 38 af 40 skotum. 

Frábær leikur sem hefði getað endað með sigri fyrir bæði liðin.

Upptöku af leiknum má finna á youtube rás ÍHÍLeikskýrslu má finna hér.