SA setur tóninn fyrir úrslitakeppni Íslandsmeistaramóts karla

SA setur tóninn fyrir úrslitakeppni Íslandsmeistaramóts karla

SR-SA.4

Síðasti leikur Hertz-deildar karla fór fram í kvöld þar sem SR og SA gátu tekið mælingar fyrir komandi úrslitakeppni.

Leikurinn byrjar á miklu fram og til baka skoppi hjá báðum liðum þar sem hvorugt lið nær einhverskonar uppstilltu spili. Slíkur gangur leiks getur samt sem áður skilað marki fljótlega þar sem hann er mjög ófyrirsjáanlegur, spurningin er bara í hvoru markinu pökkurinn endar fyrst.

Eftir rúmar sjö mínútur ná SAmenn að koma sókn á laggirnar sem endar með því að #10 Jóhann Leifsson pikkar pökkinn upp neðarlega í sóknarsvæðinu og finnur #25 Ingvar Jónsson sem sökk aðeins niður frá venjulegri varnarmannastöðu og skapaði sér pláss og tíma til þess að senda þéttingsfast skot í fjærhliðina. SA 0-1.

Menn eru heldur betur að láta finna fyrir sér því nóg er um tæklingar á þessum fyrstu tíu mínútum leiks.

SA fær yfirtölu og nýtir sér hana strax með flottu spili þar sem #15 Baltasar Hjálmarsson skapar sér pláss fyrir framan mark SR, fær pökkinn og skýtur honum inn vinstra megin við markamanns blokkerinn. SA 0-2

Þriðja mark SA er af NHL gráðu þegar #3 Bergþór Ágústsson tekur skotið af bláu línunni og #11 Pétur Sigurðsson breytir stefnu pekkjarins í miðju flugi, með því að setja kylfuna í hann, sem gerir skotið hálf óverjanlegt. SA 0-3.

Strax í byrjun annars leikhluta fær SA yfirtölu og nýtir #23 Hafþór Sigrúnarson sér tímann sem hann fær fyrir neðan marklínu SR, keyrir að markinu einsamall og skóflar honum inn í annarri tilraun. SA bætir stöðu sína enn frekar 0-4.

SRingar ætla sér þó að komast á stigatöfluna og eftir að þeir vinna uppkast í svæði SA fær #20 Jonathan Outma pökkinn uppi á bláu línunni og tekur fast skot í efra vinstra hornið sem enginn sér tímanlega. SR minnkar muninn í 1-4.

SAmenn byrja þriðja leikhluta í yfirtölu og eru ekki lengi að skora þegar #2 Orri Blöndal tekur fast skot frá bláu línunni sem #10 Jóhann Leifsson rekur kylfuna í, breytir um stefnu og endar í marki SR. SA 1-5 yfir.

Enn og aftur í yfirtölu nýta SAmenn sér aukið pláss er #10 Jóhann Leifsson finnur #23 Hafþór Sigrúnarson vinstra megin í slottinu sem trekkir upp í skot beint yfir öxl markmannsins. SAmenn skora sitt sjötta mark og sýna yfirburði sína í þessum leik.

Í takt við leikinn finna SAmenn sig í yfirtölu sem þeir nýta jafnt sem áður þegar pökkurinn endar uppi á blá línunni hjá #2 Orra Blöndal sem tekur fast slappskot í nokkra sentímetra hæð sem lendir í markinu út við vinstri stöng. SA 1-7 yfir. Fimmta markið sem SA skorar í yfirtölu. Fjöldi brottvísana hjá SR er að reynast þeim mjög dýrkeypt.

#23 Kári Arnarsson sýnir þó það að ekki sé allt púður búið SR megin þegar hann ber pökkinn upp, dansar framhjá varnarmanni SA áður en hann tekur svo snöggt skot hægra megin í markið. Minnkar muninn í 2-7

Þetta varð að kveikju hjá SR því stuttu seinna myndast snöggt spil út úr þeirra varnarsvæði beint upp á bláu línuna og svo þvert yfir ísinn þar sem pökkurinn finnur #16 Heiðar Kristveigarson, hann smellir pekkinum svo í fjærhornið af mikilli list.

Lengra náði það ekki. Lokatölur 3-7 SA í vil.

Tíu marka leikur sem setur tóninn fyrir virkilega spennandi úrslitakeppni sem hefst 21. mars á Akureyri.