Úrslitakeppni karla – Oddaleikur – Myndir!

Úrslitakeppni karla – Oddaleikur – Myndir!

DSC04905

Eftir sigur SR á SA fyrir sunnan var staðan jöfn 2-2 í einvígi þeirra um Íslandsmeistara titilinn 2023. Oddaleikur fór fram fyrir norðan í Skautahöllinni á Akureyri. Stúkan stút full af stuðningsfólki, ekki bara SA heldur fylgdi dágóður hópur SR að sunnan.

Fyrsti leikhluti

Leikurinn hófst af krafti, eins og þeir eiga til að gera milli þessara liða. Eftir 5 mínútur fær SA powerplay þegar SR missa mann út af. SR-ingar verjast ótrúlega og koma í veg fyrir að SA menn fái gott færi. Stuttlega eftir að jafnt verður í liðum kemur fyrsta markið. #2 Orri Blöndal, SA, nær pekkinum og brunar upp vinstri vænginn á vellinum. Orri lítur upp og sér þar #23 Hafþór Sigrúnarson, sendir pökkinn fyrir framan markið og Hafþór klárar færið. Staðan 1-0 fyrir SA.

#23 Hafþór Sigrúnarson skorar fyrsta mark SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Ekki líður að löngu þangað til að #9 Axel Orongan jafnar fyrir SR óstuddur. Staðan 1-1. SR lendir einum manni færri aftur. Þeir standa SA sóknina af sér með prýði. Ekki eru þeir búnir að vera lengi full mannaðir þangað til þeir missa aftur mann af velli. SA ætlar sér ekki að missa af en einu powerplay markinu. Þeir spila pekkinum hægt á milli sín. #19 Andri Mikaelsson sendir á hægri vængin þar sem #10 Jóhann Leifsson bíður. Jóhann neglir pekkinum við fyrstu snertingu beinustu leið í markið. Staðan 2-1 fyrir SA.

SA menn fagna marki #10 Jóhanns Leifssonar. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Allt leit út fyrir að 2-1 yrði staðan í lok fyrsta leikhluta en SA menn missa mann út af þegar 48 sekúndur eru eftir af leikhlutanum. SR-ingar ákveða að gefa SA smá smakk af sínu meðali og spila sóknina hægt. #2 Ólafur Björnsson, SR, sendir pökkinn á #9 Axel Orongan sem er fyrir framan markið og skorar. Staðan 2-2 eftir fyrsta leikhluta.

SR jafna leikinn 2-2. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Annar leikhluti

Bæði liðin gefa ekkert eftir og ætla sér að sigra Íslandsmeistara titilinn. Aðeins tvær mínútur eru liðnar þegar 5 mark leiksins kemur. #6 Markús Ólafsson, SR, hreinsar út úr svæði SR. Leikmaður SA gerir mistök í vörninni og #12 Pétur Maack nær pekkinum, kemst einn á markmann SA og laumar pekkinum snyrtilega í markið. SR komnir yfir, fyrsta skiptið í leiknum, og staðan 2-3.

#12 Pétur Maack nýtur tækifærið og kemur SR yfir. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Tæpar 10 mínútur eru liðnar þegar #23 Hafþór Sigrúnarson, SA, stelur pekkinum af leikmanni SR á svæði SA. Hafþór fer fram hjá manni SR í hlutlausa svæðinu og kemst á auðan sjó í svæði SR. Hafþór lætur vaða og jafnar leikinn, 3-3, óstuddur.

Leikmenn SR stara Hafþór Sigrúnarson niður í uppkasti. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Ekki urðu fleiri mörk í leikhlutanum en liðin bæði létu finna fyrir sér með aukinni hörku og baráttu. Staðan 3-3 eftir annan leikhluta.

Þriðji leikhluti

Harkan jókst gríðarlega í síðasta leikhlutanum. Það mætti segja að bæði liðin hafi spilað meira og minna með fjóra leikmenn á vellinum. Bæði liðin fá tækifæri á powerplay, en bæði liðin verjast vel. 7 mínútur eru liðnar af leikhlutanum þegar SR fær annað powerplay sitt í leikhlutanum. SR stillir upp í sókn og tekur þá aðeins 9 sekúndur að komast yfir, í annað skiptið í leiknum. #18 Sölvi Atlason, SR, vinnur uppkastið og sendir pökkinn niður í hægra hornið þar sem #23 Kári Arnarsson er. Kári skautar að markinu og reynir sendingu fyrir markið sem misheppnast. Kári nær pekkinum aftur og skítur úr mjög þröngu færi og skorar. Staðan orðin 3-4 fyrir SR.

#9 Axel Orongan fagnar 4 marki SR með markaskoraranum #23 Kára Arnarssyni. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Rúmar 12 mínútur eru eftir af leiknum. Hiti er kominn í leikmenn beggja liða. Stimpingar myndast við miðjan völlinn og bæði lið missa mann út af. SA spilar einum færri í 4 mínútur. Spennan í loftinu er gríðarleg. SA sækir hart að SR en SR-ingar verjast eins og ernir að vernda hreiður sitt.

#29 Atli Valdimarsson, SR, ver frá #18 Unnari Rúnarssyni. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

2:30 var eftir af leiknum þegar SA missir #23 Hafþór Sigrúnarson út af fyrir hooking. Erfið staða fyrir SA þar sem Hafþór er einn besti sóknarmaður þeirra. SA nær að standa af sér þessar tvær mínútur og um leið og þær eru liðnar tekur SA markmanninn út af og sækja 6 á 5. Örvæntingin hjá SA var orðin mikil og SR vissi að þeir þurftu aðeins að halda út í 30 sekúndur í viðbót.

10 sekúndur voru eftir þegar allt sauð upp úr. SA komst í kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn en #29 Atli Valdimarsson, markmaður SR, varði stórkostlega tvisvar í röð. Í kjölfarið braust út slagur við mark SR og voru 4 leikmenn sendir í boxið. Tveir hjá hvoru liði.

Allt sauð upp úr á lokametrunum. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Uppkast er á svæði SR og stilla leikmenn sér upp. 6 SA menn á móti 5 SR-ingum. SA vinnur uppkastið. #5 Gunnar Arason fær pökkinn, tekur skotið, lendir í varnarmanni. Gunnar nær pekkinum aftur, hleypir af öðru skoti sem hafnar í varnarmanni SR. Leiktíminn er liðinn.

SR fagnaði vel eftir verðskuldaðan sigur. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

SR eru Íslandsmeistarar 2023!

#5 Gunnar Arason svekktur með úrslitin. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Stórkostlegur leikur og frábært einvígi milli tveggja sterkra liða. Að mati höfundar er maður leiksins #29 Atli Valdimarsson, markmaður SR, en Atli varði 30 skot af 33.

Frábær leikur sem skilur eftir gæsahúð. Við hjá íshokkí.is óskum SR og SR-ingum til hamingju með titilinn.

Íslandsmeistarar 2023! Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Hægt er að horfa á leikinn á Youtube-rás ÍHÍ með því að smella hér. Leikskýrslu má finna hér.

Fréttir af ihi.is