HM kvenna í Mexíkó – Stelpurnar mæta Spánverjum

HM kvenna í Mexíkó – Stelpurnar mæta Spánverjum

Birt: 07.04.2023Flokkar: FréttirMerki: , , ,
OLIO8342

Barrátta við mark Íslands. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson

Ísland mætti Spáni í þriðja leik sínum á HM kvenna í Mexíkó. Spænsku stelpurnar voru búnar að vinna fyrstu tvo leiki sína á mótinu, gegn Mexíkó 6-0 og kínverska Taipei 2-0. Því var ljóst að Ísland var að fara mæta sterku liði Spánar.

 

Fyrsti leikhluti

Leikurinn fór heldur rólega af stað. Tæpar 7 mínútur voru liðnar þegar Spánverjar fengu powerplay. Stelpurnar okkar stóðu powerplay-ið af sér en 3 mínútum seinna kom fyrsta mark leiksins. Spánverjar vinna uppkast í svæði Íslands. #24 Elena Alvarez sendir pökkinn aftur að bláu línunni þar sem #17 Haizea Fernandez tekur við honum. Haizea laumar pekkinum lúmskt beint á #7 Vega Munoz sem er upp við mark Íslands og setur pökkinn inn. Staðan 0-1 fyrir Spáni.

Stelpurnar okkar eru þó ekki lengi að svara fyrir sig. Fyrsta mark Íslands kemur aðeins um 30 sekúndum eftir mark Spánverja. Ísland reynir að spila pekkinum upp svellið en Spánverjar komast inn í sendinguna í hlutlausa svæðinu. #23 Sunna Björgvinsdóttir sættir sig ekki við það og stelur pekkinum af Spánverja og brunar ein á markið. Sunna smellir pekkinum í fjærhornið og staðan orðin 1-1.

Sunna Björgvinsdóttir skorar fyrsta mark Íslands. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson

Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrsta leikhlutanum en vert er að benda á að þetta var einnig fyrsta markið sem Spánverjar fá á sig á mótinu.

 

Annar leikhluti

Annar leikhlutinn fer heldur rólega af stað. Að vísu lenda íslensku stelpurnar manni færri áður en mínúta er liðin af leikhlutanum. En eins og í fyrsta leikhlutanum stóðu þær vörnina vél einum færri. 7 mínútur eru liðnar af leikhlutanum þegar #23 Andrea Merino á skot á á markið sem #25 Birta Helgudóttir, markmaður Íslands, ver.

Stelpurnar fagna marki Sunnu. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson

Hnoð myndast fyrir framan markið og ratar pökkurinn á #11 Jimena Isabel Serrano sem bætir við öðru marki Spánverja, 1-2.

13 mínútur eru liðnar af leikhlutanum þegar Ísland er í sókn. Skot Íslands er varið og ná Spánverjar frákastinu. #15 Sofia Scilipoti og #18 Claudia Castellanos sækja hratt upp á einn varnarmann Íslands. Þær spila pekkinum fallega á milli sín og skilar Claudia pekkinum í markið. Staðan 1-3 fyrir Spánverjum.

Tæpum þremur mínútum síðar eru Spánverjar í sókn. #2 Valeria Ansoleaga á skot frá bláu línunni sem endar hjá #23 Andrea Merino sem skorar fjórða mark Spánar. 

Restin af leikhlutanum einkendist af hörku. Bæði lið misstu leikmenn af ísnum en hvorugu tókst að nýta sér yfirtöluna.

 

Þriðji leikhluti

#25 Birta Helgudóttir skipti við #1 Andreau Bachmann í marki Ísland seint í öðrum leikhlutanum og byrjaði Andrea þriðja leikhlutann í markinu. Sléttar þrjár mínútur eru liðnar þegar #10 Herborg Geirsdóttir kemst í gegnum vörn Spánverja og skorar annað mark Íslands. Fallegt skot á fjærstöngina og staðan 2-4.

Herborg Geirsdóttir fagnar öðru marki Íslands í leiknum. Ljósmynd: Ólafur Örn Þorgrímsson

Rétt rúmum 3 mínútum síðar eru Spánverjar í sókn. #9 Bridget O Hare sendir á #7 Vega Munoz sem skýtur á markið. Andrea Bachmann ver skotið en #17 Haizea Fernandez nær frákastinu og skorar. 2-5 fyrir Spáni.

Næsta mínúta fer á þann veg að íslensku stelpurnar lenda leikmanni færri og er uppkast á svæði Íslands. Spánverjar vinna uppkastið og spila pekkinum á milli sín. #9 Bridget O Hare sendir þvert yfir á hægri vænginn þar sem #17 Haizea Fernandez er ein. Haize tekur flott skot í nær samskeytin og kemur Spáni 6 mörkum yfir.

Rúmar 10 mínútur eru eftir af leiknum þegar íslensku stelpurnar fengu tækifæri á að laga stöðuna. Þær spænsku misstu tvo leikmenn af velli með stuttu millibili. Þrátt fyrir flottar sóknir tókst stelpunum okkar ekki að skora og því stóð staðan ennþá 2-6.

5 mínútur eru eftir af leiknum þegar Spánverjar vinna uppkast á íslenska svæðinu. #6 Paula Moreno vinnur uppkastið en upp úr því byrjar barátta um pökkinn. Paula potar pekkinum framhjá varnarmanni Íslands þar sem #15 Sofia Scilipoti tekur hann og setur hann í markið. 2-7 fyrir Spáni. 

Tveimur mínútum seinna koma Spánverjar aftur í sókn. #9 Bridget O Hare á skot að marki sem er varið. #4 Maria Serna nær pekkinum og tekur strax annað skot að markinu. Pökkurinn fer aftur í varnarmann Íslands. Pökkurinn skoppar upp í loftið og dettur inn í markið fyrir aftan Andreu Bachmann. Ósköplega leiðinlegt mark að fá á sig og algjör óheppni. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum.

Lokatölur Ísland 2 – 8 Spánn.

Þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið okkur í hag má ekki taka það frá stelpunum að þær létu Spánverja finna fyrir sér og skoruðu fyrstu mörkin sem Spánn fékk á sig á mótinu.

Leikskýrslu má finna hér.

Síðasti leikur Íslands á mótinu verður laust eftir miðnætti í kvöld, gegn kínverska Taipei. Leiknum verður streymt inn á Youtube-rás Íshokkísambands Mexíkó sem má finna hér.