Spennuþrunginn leikur í Egilshöll | Hertz-deild karla

Spennuþrunginn leikur í Egilshöll | Hertz-deild karla

Það var tekist á á lokamínútunum þegar Fjölnir freistaði þess að jafna. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Boðið var upp á háspennuleik í Egilshöll í kvöld þegar SA sótti Fjölni heim í Hertz-deild karla. Fjölnir mætti til leiks með nánast fullmannað lið og tvo nýja leikmenn í farteskinu, Martin Svoboda og Liridon Dupljaku frá Tékklandi, staðráðnir í að fá ekki sömu útreið og í tveimur síðustu leikjum gegn SR og SA.

Það var hart barist fyrir framan mörk beggja liða. Ljósmynd Bjarni Helgason

Fjölnir byrjaði fyrsta leikhluta mjög vel, var með frumkvæði og átti nokkur góð færi sem þeim tókst þó ekki að nýta sér. Það var hins vegar SA sem braut ísinn með upphlaups-marki Una Sigurðarsonar á fjórðu mínútu. Það var svo Jóhann Leifsson sem bætti við öðru marki SA á níundu mínútu. Eftir það var eins og allur vindur væri úr Fjölni og SA tók öll völd á ísnum. Ekki urðu mörkin þó fleiri í þessum leikhluta.

Reynsluboltarnir Björn Már Jakobsson úr SA og Viktor Örn Svavarsson úr Fjölni „að skylmast“ fyrir framan mark SA. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Fjölnismenn mættu einbeittir í annan leikhluta, staðráðnir í að koma í veg fyrir að norðanmenn máluðu Grafarvoginn rauðan. Jafnræði var með liðunum en það var svo Kristján Hróar sem opnaði markareikning heimamanna eftir upplegg frá Viggó Hlynssyni í skyndisókn um miðjan annan leikhluta. Kristján var svo aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar með mark í yfirtölu en leikhlutinn litaðist af brottrekstrum á báða bóga sem Fjölni tókst að nýta sér. 2-2 og allt í járnum fyrir loka-leikhlutann.

Hafþór Sigrúnarson sækir að marki Fjölnis en hann átti góðan leik í kvöld með tvö mörk, annað þeirra úrslitamarkið. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Það var stíft sótt á báða bóga síðustu 20 mínúturnar enda þrjú stig í húfi og bæði lið að gera sig líkleg. Eftir því sem á leið á leikhlutann hækkaði hitastigið og harkan. Hafþór Sigrúnarson kom SA yfir á 46. mínútu en ekki drap það baráttuanda Fjölnismanna sem jöfnuðu 10 mínútum síðar með marki Martins Simanek. Hafþór var svo aftur á ferðinni rúmri mínútu síðar og aftur var SA komið með forystuna og aðeins þrjár mínútur eftir af leiknum. Fjölnir tók Þóri markvörð út af og bætti við sóknarmanni en allt kom fyrir ekki og SA tók öll þrjú stigin með sér í rútuna norður.

Martin Svoboda reynir að skora hjá Jakobi Jóhannessyni í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Markverðir beggja liða voru góðir í kvöld Jakob með 32 varin og Þórir Aspar með 42 varin.

Kristján Hróar var öflugur í liði Fjölnis í kvöld með tvö mörk. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Íshokkí.is tók þjálfara liðanna tali í leikslok.

„Við erum að glíma við meiðsli þessa stundina en það vantar 9 leikmenn svo mikið af ungu leikmönnunum fengu tækifæri í kvöld.“ sagði Jamie Dumont þjálfari SA. „Mín áhersla fyrir okkar leikmenn var að spila góðan og skynsaman útileik, halda þessu fimm á fimm og reyna að koma pökknum inn. Það heppnaðist og ég er nokkuð ánægður með leikinn.“ bætir Jamie við.

Aðspurður um muninn á þessum og síðasta leik þessara liða segir hann að Fjölnir hafi í kvöld spilað hart, skapað sér sér færi og afgreitt hlutina vel, sérstaklega í öðrum leikhluta. „Í þeim þriðja héldum við andliti en þetta var mjög jafnt, þeir fengu líka góð færi í lokin og markvörðurinn þeirra átti nokkrar stórar vörslur. Þetta var jafn leikur alveg til enda“ segir Jamie að lokum.

Martin Simanek sækir að marki SA en Björn og Unnar stilla upp vegg fyrir framan Jakob. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Aðspurður um leikinn sagði Emil Alengård þjálfari Fjölnis að honum hafi fundist eins og síðustu tveir tapleikir liðsins hafi setið í þeim í fyrsta leikhluta: „Við vorum með mjög fáa leikmenn í síðustu tveimur leikjum, þá fer hraðinn niður og mér fannst við aðeins vera fastir í þeim takti í fyrsta leikhlutanum. Mér fannst við hinsvegar finna taktinn betur öðrum leikhluta, þá jókst líka sjálfstraustið og skriðþunginn varð meiri sem við náðum að halda meirihluta tímans.“

Í þriðja leikhluta fannst Emil þetta vera mikið fram og til baka og tækifæri á báða bóga; „Okkur tókst ekki alveg að klára þetta í kvöld og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Í heildina vorum við kannski að tapa aðeins of mörgum pökkum í okkar varnarsvæði. En ég er mjög stoltur af því hvað liðið lagði sig mikið fram og hvað það barðist vel. Þetta var góður hokkíleikur“ bætir Emil við að lokum.

Hafþór Sigrúnarson fagnar sigurmarkinu. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Liðin mætast aftur fyrir norðan næsta laugardag og er öruggt að það verður hart barist um stigin þrjú.

Upptöku af leiknum má finna á Youtube-rás ÍHÍ í leiklýsingu Helga Páls Þórissonar. Leikskýrslu má lesa hér.

Höfundur: