Fjölnir í kjörstöðu | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

Fjölnir í kjörstöðu | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

Fjölnir fagnar sigrinun innilega og leiða 2-1 í einvíginu. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

SA og Fjölnir áttust við í þriðja leik í úrslitakeppninni í gærkvöldi. SA vann fyrri leikinn 3-1 en Fjölnir svaraði fyrir sig í næsta leik með því að sigra í vítakeppni, 3-2. Staðan var því 1-1 í einvíginu fyrir leikinn.

Fjölnirstelpurnar mættu vel einbeittar í leikinn eftir sigur síðasta leiks en SA voru fyrstar til að komast á blað eftir tæpar 5 mínútna leik. Fjölnir var ekki lengi að svara og 1-1 stóð í lok fyrstu lotu. 

Amanda Bjarnadóttir skoraði eina mark SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Annað mark Fjölnis kom í byrjun annarrar lotu, 1-2. Mikil harka og grimmd tók við þar sem liðin skiptust á að sækja og verjast. Leikurinn var gríðarlega spennandi alveg fram á loka sekúndurnar þar sem SA tók markmann sinn, Shawlee Gaudreault, út af í von um að ná að jafna og leiknum í framlengingu. Allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn með sigri Fjölnis, 1-2, og leiðir Fjölnir einvígið 2-1.

Kristín Ingadóttir og Sigrún Árnadóttir fagna öðru marki Fjölnis. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Amanda Bjarnadóttir skoraði eina mark SA í leiknum með því að komast inn í sendingu Fjölnis á hættulegum stað. 

Mörk Fjölnis komu bæði frá fyrirliðanum, Kristínu Ingadóttur, með stoðsendingum frá Sigrúni Árnadóttur og Elínu Darkoh. Kristín leiddi lið sitt eins og herforingi til sigurs og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með næsta leik.

Elín Darkoh, Fjölnir, sækir að Shawlee Gaudreault. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Fjórði leikurinn í einvíginu fer fram á laugardaginn næstkomandi (2. mars) í Egilshöllinni. Með sigri getur Fjölnir tryggt sér Íslandsmeistarar titilinn en ef SA sigrar verður haldið norður einu sinni enn í oddaleik.

Við hvetjum alla til að gera sér ferð í Egilshöllinna kl 16:45 á laugardaginn og horfa á íshokkí í hæsta gæðaflokki!

Upptöku af leiknum má finna á youtube-rás ÍHÍ og leikskýrslu með því að smella hér.