SA tekur forystuna | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

SA tekur forystuna | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

SA fagnar fyrsta marki kvöldsins. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Fyrsti leikur í úrslitakeppni kvenna fór fram í kvöld þar sem SA og Fjölnir mættust í æsispennandi og jöfnum leik.
Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og ljóst að bæði lið þrá Íslandsmeistara titilinn. SA skoraði fyrsta mark leiksins þegar fyrsta lota var hálfnuð með marki frá Ragnheiði Ragnarsdóttur þegar hún kom pekkinum inn eftir frákast. Þó nokkur bið var eftir fleiri mörkum en liðin börðust af mikilli hörku út fyrstu lotuna og aðra lotu.

Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Ragnheiður bætti við öðru marki sínu í leiknum þegar 6 mínútur voru liðnar af þriðju lotunni. Fjölnir var þar leikmanni færri og tókst SA að nýta sér það rétt áður en fimmti maður kom aftur inn á. SA komst svo 3-0 yfir með marki frá Kolbrúnu Björnsdóttur þegar tveir leikmenn Fjölnis sátu í boxinu með rúmar 8 mínútur til leiksloka.

Hörð barátta á marklínunni. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Hilma Bergsdóttir lagaði stöðuna fyrir Fjölni en ekki urðu mörkin fleiri og 3-1 niðurstaðan. SA leiðir því einvígið 1-0. Næsti leikur verður í Egilshöllinni þriðjudaginn næstkomandi!

Hilma Bergsdóttir skoraði eina mark Fjölnis. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

„Það var smá stress hjá mínum stelpum“

Við náðum tali af Silvíu Björgvinsdóttur, leikmanns SA, og spurðum hana út í leik kvöldsins.

„Þetta var mjög jafn og skemmtilegur leikur, það var smá stress hjá mínum stelpum og smá panik en margar þeirra að spila í sinni fyrstu úrslitakeppni svo það er skiljanlegt. En það var frábært að ná sigrinum.“
Stressið hefur haft áhrif á leik leikmanna en því sem á leið í leiknum róuðust taugarnar. „Við vorum í smá erfiðleikum að halda pekkinum innan liðsins og sendingarnar ekki alveg 100% en unnum okkur hægt og bítandi og urðum betri með hverri mínútunni. Fannst liðsheildin mjög góð allan leikinn og stóðum vel við bakið á hvort annari. Shawlee átti stórleik í markinu að vana og varði mjög vel og vörnin mjög þétt og góð“

Markmenn beggja liða voru góðir í kvöld, en Shawlee Gaudreault, SA, varði 29 af þeim 30 skotum sem hún fékk á sig. Karítas Halldórsdóttir, Fjölnir, varði 23 af 26 skotum.

„Þurfum bara að skora aðeins meira“

Kolbrún Garðarsdóttir, Fjölnir, og Amanda Bjarnadóttir, SA, í kröppum dansi. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Emil Alengård, þjálfara Fjölnis, fannst leikurinn hafa verið flottur hjá báðum liðum. „Við fengum ekki alveg þau stóru tækifæri sem við sóttumst eftir, og það þýðir bara að SA voru góðar í vörn og eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir leikinn heima á þriðjudaginn. Leikurinn var jafn og við vörðumst almennt vel. Við þurfum bara að skora aðeins meira en við gerðum í dag“.

Kolbrún Garðarsdóttir, einn af lykil leikmönnum Fjölnis, sneri aftur á ísinn eftir langa fjarveru vegna meiðsla. „Kolbrún er alltaf geggjuð. Geggjað að fá hana aftur inn í liðið, ekki bara á ísinn heldur líka af ísnum. Hún er flottur fyrirliði fyrir hópinn og góð fyrirmynd fyrir yngri stelpurnar okkar líka“.

Upptöku af leiknum má finna inn á youtube-rás ÍHÍ og leikskýrslu hér.