Háspenna í Egilshöll er Fjölnir jafnar rimmuna | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

Háspenna í Egilshöll er Fjölnir jafnar rimmuna | Úrslitakeppni Hertz-deild kvenna

Það var hart barist um sigurinn í kvöld eins og meðfylgjandi ljósmynd ber með sér. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Fjölnir tók á móti SA í Egilshöll í öðrum leik úrslitaviðureignar liðanna í baráttunni um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. SA, sem unnið hefur alla Íslandsmeistaratitla nema einn, tók fyrsta leikinn nokkuð örugglega 3-1. Það var því mikilvægt fyrir heimakonur í Fjölni að ná sigri til að vera ekki með bakið uppvið vegg í þriðja leik fyrir norðan. Úr varð einn skemmtilegasti leikur í úrslitum í langan tíma, leikur sem hafði upp á allt upp á að bjóða – spennu, mörk, framlengingu og vítakeppni.

Silvía Rán Björgvinsdóttir þjálfari og leikmaður SA á ísnum í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason.

Þriggja marka leikhluti

Fjölnir byrjaði af krafti dygglega studd af áhorfendum í stúkunni. En eftir mistök í vörn heimakvenna á fimmtu mínútu náði Silvía Björgvinsdóttir pökknum og skaut bakhandarskoti sem Karítas Halldórsdóttir varði en Amanda Bjarnadóttir fylgdi vel á eftir og setti pökkinn í netið. Fjölnir var ekki af baki dottið og svaraði á níundu mínútu eftir þunga sókn með föstu skoti Kolbrúnar Garðarsdóttur frá bláu línunni. Sveindís Sveinsdóttir kom SA aftur yfir á 14. mínútu með samskonar skoti frá bláu. 2-1 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta í hröðum og skemmtilegum leik.

Fjölnir sótti stíft en án árangurs

Annar leikhluti var jafn til að byrja með en Fjölnir náði betri tökum á leiknum og var sóknin orðin þung um miðbik leikhlutans. SA-ingar vörðust vel og gáfu þeim engin góð færi. Það dró svo til tíðinda á 14. mínútu þegar Fjölni var dæmt víti er varnamaður gestanna lagðist á pökkinn fyrir framan markið. Shawlee varði nokkuð örugglega frá Laura-Ann Murphy sem tók vítið. Markalaus leikhluti og mikil spenna fyrir síðasta leikhlutann.

Sigrún Agatha úr Fjölni skoraði jöfnunarmarkið rétt fyrir leikslok. Hér glímir hún við Ragnheiði Ragnarsdóttur sem skoraði tvö mörk fyrir SA í fyrsta leik. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Jafnað á lokamínútunum

Þriðji leikhluti var jafn og frekar lítið um færi og leit allt út fyrir að SA-konur myndu sigla sigrinum í höfn. Fjölnir tók leikhlé þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum sem greinilega borgaði sig því Sigrún Árnadóttir skoraði og jafnaði leikinn í næstu sókn.

Æsileg framlenging og vítakeppni

Bæði lið lögðu allt undir í framlengingunni en markverðir liðanna komu í veg fyrir að gullmark yrði skorað. Grípa þurfti því til vítakeppni til að ná fram úrslitum. Ekki dugðu fimm víti á lið svo bráðabana þurfti. Þar skoraði Kolbrún Garðarsdóttir fyrir Fjölni og Karítas Halldórsdóttir varði frá Silvíu í kjölfarið og tryggði Fjölni sigur í leik tvö og þar með annan heimaleik í seríunni.

Shawlee Gaudreault með glæsilega vörslu á Kolbrúnu Garðarsdóttir í framlengingunni í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

 

Líklega besti leikur sem hún hefur spilað

Shawlee Gaudreault, markvörður SA síðustu tvö tímabil, hefur verið eins og múrveggur í markinu í vetur. Hefur aðeins misst 16 pökka framhjá sér af 320 skotum og var með ótrúlegt 95% hlutfall í deildinni í vetur. Hún átti stóran þátt í sigri í fyrsta leik með 29 varin skot, 97% hlutfall, takk fyrir.

Þetta var svakalegur leikur Shawlee: „Já guð minn góður þetta var mjög góður leikur þó þetta hafi augljóslega verið vonbrigði fyrir okkur. Svona er úrslitakeppnin, allt getur gerst. En þetta er líklega einn besti leikur sem ég hef spilað í þessari deild.“

Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn í kvöld. „Já þeir mættu og voru með læti, það var gaman að heyra í þeim. Yfirleitt þegar við spilum hérna er stúkan hálftóm, svo þetta var góð tilbreyting.“

Leggur hart að sér fyrir prósenturnar

Þú ert búin að vera mjög öflug í deildinni í vetur og lokaðir markinu í síðasta leik með 97% hlutfall. „Ég er með mjög gott lið fyrir framan mig sem ég segi mikið til svo þær verði enn betri. En það er mikil vinna á bakvið þetta, ef ég hefði lagt svona mikið á mig í skóla hefðu foreldrar mínir verið stoltir af mér“ segir Shawlee í léttum tón. „En já ég legg hart af mér fyrir þetta prósentuhlutfall en þegar öllu eru á botninn hvolft er þetta liðið sem ég er með fyrir framan mig.“

Talandi um liðið þá er þetta athyglisverð blanda af ungum í bland við reyndari og svo auðvitað Silvía sem er í sérflokki. „Já hún er þarna uppi klárlega. En það er gaman að sjá ungu stelpurnar mæta klárar í samanburði við tímabilið í fyrra þegar sumar þeirra fengu lítið sem ekkert að spila. Þær mæta og stíga upp í þetta hlutverk. Það verður gaman að sjá hvar þær verða eftir 5 ár.“

Hvernig hefur verið að koma til Íslands og spila í Hertz-deild kvenna í samanburði við Kanada, þaðan sem þú ert? „Það er áhugavert, þetta er annar stíll af hokkí klárlega. Það er líka erfitt að meta það því það eru 8 ár síðan ég spilaði keppnsihokkí. En þetta væri verðugt verkefni fyrir 17 ára sem spilar AA hokkí. Það er góð samkeppni klárlega.“

Hilma Bóel Bergsdóttir með skot í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd: Bjarni Helgason

 

Karaktersigur hjá Fjölnisstelpum

Hilma Bóel Bergsdóttir gekk til liðs við Fjölni fyrir tímabilið og hefur verið drjúg fyrir Grafarvogsstúlkur með 11 stig í vetur. Hún skoraði eina mark liðsins í fyrsta úrslitaleiknum á Akureyri.

Þetta var rosalegur leikur, framlenging, víti og bráðabani: „Þetta var ótrúlega skemmtilegur leikur, karaktersigur hjá okkur Fjölnisstelpum. Ég er svo ánægð með þennan leik, það missti engin haus eða einbeitingu og við héldum bara áfram að berjast þó þetta hafi farið í overtime. Geggjað skemmtilegt.“

Staðan í rimmunni er 1-1 og þið tryggið ykkur annan heimaleik því þetta verða allavega fjórir leikir. Þið ætlið líklega að láta kné fylgja kviði og fylgja eftir þessum sigri fyrir norðan á fimmtudag? „Já við verðum að gera það. Við ætlum auðvitað allar að vinna næstu leiki og tryggja okkur þennan titil.“

Spenntar fyrir næsta leik

Nú sýnduð þið loksins hvað í liðinu býr en ykkur var spáð mjög góðu gengi í vetur sem gekk ekki alveg eftir í deildinni. „Já við erum búnar að vera allar að byggja upp þetta lið og læra að spila saman. Við byrjuðum með tvo nýja leikmenn, mig og Beggu (Berglind Leifsdóttir) og nýjan markmann og við erum komnar mjög langt og þetta er bara næsta stig. Við erum ógeðslega spenntar að spila næsta leik.“

Nú ert þú uppalin fyrir norðan, hvernig er hefur verið að spila í Reykjavík í vetur: „Mér finnst alltaf gaman að spila hokkí, það er ótrúlega gaman að spila á móti SA stelpum og líka gaman að spila með þeim. Þetta er bara góð tilbreyting, bæði mjög sterk lið og gott að það er komin meiri spenna í deildina.“

Fjölnis-stúlkur fögnuðu vel er þær knúðu fram sigur í bráðabana. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Þriðji leikur liðanna er strax á fimmtudag á Akureyri þar sem annað liðið mun ná eins leiks forskoti í þessari æsispennandi rimmu um Íslandsmeistaratitilinn.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Höfundur: