SR lagði Fjölni 5 – 9 í fyrsta leik tímabilsins í mfl karla

SR lagði Fjölni 5 – 9 í fyrsta leik tímabilsins í mfl karla

SR-ingar sækja að marki Fjölnis og pökkurinn lekur inn
Eitt marka SR í uppsiglingu

SR-ingar sækja að marki Fjölnis og pökkurinn lekur inn

Ríkjandi Íslandsmeistarar Skautafélags Reykjavíkur sóttu 3 stig í Egilshöllina til Fjölnis í fyrsta leik tímabilsins í meistaraflokki karla.

Nokkur spenna hefur ríkt í íshokkíhreyfingunni síðustu daga. Liðin hafa verið við æfingar í u.þ.b. 4 vikur og alltaf er ákveðin titringur þegar tímabilið hefst og liðin taka að máta sig á ný. Þessi leikur var engin undantekning. Bæði lið mættu vel stemmd til leiks og fjölmargir áhorfendur í Egilshöllinni fengu veislu fyrir augað í 14 marka leik.

Fyrsti leikhluti einkenndist af miklum hraða og krafti, á köflum hraða sem leikmenn áttu erfitt með að ráða við en fyrir bragðið var leikhlutinn verulega skemmtilegur á að horfa. Hvort lið skoraði 1 mark og allt í járnum.

Annar leikhluti einkenndist af mikilli baráttu þar sem liðin skiptust á að skora. Sölvi Atlason kom SR yfir og nítján sekúndum síðar jafnaði Hilmar Sverrisson fyrir Fjölni. Andri Helgason kom Fjölni yfir á 29. mínútu og einni og hálfri mínútu síðar jafnaði Kári Arnarsson fyrir Gestina. Kristján Jóhannesson kom Fjölni yfir á ný á 34. mínútu og Axel Orongan jafnaði aftur fyrir gestina 28 sekúndum síðar. Það var síðan Styrmir Maack sem kom gestunum yfir á 35. mínútu og þar við sat SR fór inn í seinna leikhléið með 5 mörk gegn 4 mörkum heimamanna.

Einungis voru liðnar 54 sekúndur af þriðja leikhluta þegar Viggó Hlynsson jafnaði leikinn fyrir Fjölni og enn einu sinni var allt jafnt og leikurinn var í fínu jafnvægi og gat farið hvernig sem er.

En þá gerðu Fjölnismenn sig seka um hvert klaufabrotið af öðru og refsimínúturnar urðu þeim að falli. SR náði að skora 3 mörk, öll í yfirtölu á tíu mínútna kafla þar sem Fjölnir var að taka út refsingar. Þessu til viðbótar á sama kafla fengu Fjölnismenn á sig mark einum fleiri. Undirritaður er ekki alveg viss hvort þetta var þreyta því vissulega var hraðinn mikill í leiknum. Eða hvort um væri að ræða einhverskonar agaleysi þar sem leikmenn algerlega misstu hausinn. Það er erfitt að fullyrða en á þessum kafla gáfu Fjölnismenn frá sér jafnan leik með klaufagangi. Síðustu 7 mínúturnar voru síðan eins og fyrstu tvær loturnar jafn og skemmtilegur leikur með færum á báða bóga.

Í jöfnu og þéttu liði SR var Kári Arnarsson fremstur meðal jafningja og virkilega gaman að fylgjast með samspili milli hans, Hákons Marteins Magnússonar sem er nýkomin í raðir SR og Gunnlaugs Þorsteinssonar.  Fjölnis megin stóð Andri Helgason uppúr sem besti maður liðsins. Það eru miklar gleðifréttir fyrir hreyfinguna að sjá Andra mættan á svellið í fanta fínu formi.

Yfirlit leiksins á úrslitaþjónustu ÍHÍ

Leikurinn í tölum úr mótakerfi ÍHÍ

Fréttir af ihi.is