“Markmið okkar fyrir veturinn eru skýr, við ætlum okkur í úrslit.”
“Markmið okkar fyrir veturinn eru skýr, við ætlum okkur í úrslit.”
Núna þegar ofurhelgin og fyrsta umferð Toppdeildar karla er búin þá ætlum við að halda okkur upp í Egilshöll og kynnast karla liði Fjölnis aðeins betur.
Síðasta tímabil hjá Fjölni endaði betur en það byrjaði, þeir fóru hægt af stað en þegar fór að nálgast úrslitakeppnina þá sóttu þeir í sig veðrið og voru einungis þremur stigum frá því að taka sæti SR í úrslitakeppninni. Gunnar Guðmundsson þjálfari liðsins tók við af Emil Alengard fyrir síðasta tímabil og hans sýn hefur greinilega verið að skila sér undir lok tímabils í fyrra. Gaman verður að sjá þá vinnu og sýn sem Gunni þjálfari hefur halda áfram í vetur.

Er Gunnar Guðmundsson þjálfari meira ógnvekjandi af bekknum eða inná ísnum?
Eins og áður sagði þá er Gunni Guðmunds þjálfari liðsins að fara inn í sitt annað tímabil með liðinu. Óvissa var í upphafi tímabils hvernig veturinn myndi spilast en þetta hafði Gunni að segja um áherslur þeirra á undirbúningstímabilinu:
“Við höfum verið að nota undirbúningstímabilið til þess að gefa öllum jöfn tækifæri á því að sýna sig og sanna. Það er mjög jákvætt að fá svona leiki í upphafi til þess að slípa hópinn saman og prófa nýja hluti. Undirbúningurinn hefur gengið ágætlega en þessi óvissa sem var í upphafi tímabils varðandi fyrirkomulag deildarinnar ásamt hvaða lið yrðu með í vetur setti smá strik í reikninginn, hópurinn var örlítið seinni í gang en ella.”

Fjölnis liðið að fagna marki í naumu tapi gegn nágrönnum þeirra síðustu helgi
Fjölnis liðið hefur náð að styrkja sig og stækka breiddina þrátt fyrir að hafa einnig misst menn. Viktor Jan, ungur landsliðsmaður hefur haldið til Póllands þar sem hann er að spila í u20 deildinni þar í landi og Martin Simenek sem var einn besti varnarmaður deildarinnar í fyrra fékk ekki nýjan samning hjá félaginu ekki frekar en hinir erlendu leikmennirnir. Stærsti missir liðsins er án efa að hafa misst Viggó Hlynsson í löng meiðsli sem hann varð fyrir á HM síðasta vor. Þeir hafa samt einnig bætt við sig, finnarnir tveir, Jere Koikkalainen (útispilari) og Tuomas Heikkonen (markmaður) koma klárlega til með að styrkja liðið. Þeir hafa líka leitað norður og fengið tvo unga Akureyringa, þá Bergþór Bjarma og Birki. Sturla Snorrason hefur þá tekið fram skautana á ný og hefur hann engu gleymt ef marka má opnunarleik deildarinnar þar sem hann var með 3 stig en hann hefur ekki spilað í deildinni síðan hann varð meistari með Esju tímabilið 2015/16. Einnig hafa ungir Fjölnismenn verið að fá mínútur í upphafi tímabils en eins og áður segir vill Gunni þjálfari gefa öllum jöfn tækifæri í upphafi tímabils, en þetta hafði hann að segja um breytingar á leikmanna hópnum:
“Hópurinn er talsvert breyttur frá síðasta tímabili. Við endurnýjuðum ekki samninga við neina erlenda leikmenn, misstum lykilmann í langvinn meiðsli og horfðum á eftir öðrum elta drauminn erlendis. Á sama tíma þá styrktum við liðið með nýjum erlendum leikmönnum, fengum öfluga unga stráka til liðs við okkur og grófum upp nokkra gamalkunna reynslubolta. Kjarni liðsins er sá sami og svona uppstokkun skapar tækifæri fyrir unga leikmenn til að stíga upp og fylla í skarðið. Ég fer bara brattur af stað inn í tímabilið með sterkan hóp sem samanstendur af ungum og eldri leikmönnum í bland.”
Farnir:
Vikor Jan (MOSM Tychy U20 í Póllandi)
Nikita Montvids (Óvitað)
Martin Simanek (Óvitað)
Drew Barron (Óvitað)
Liridon Dupljaku (Óvitað)
Kristján Albert Kristinsson (Hættur)
Sölvi Egilsson (Í pásu)
Komnir:
Tuomas Heikkonen (Frá Milenio Logroño á Spáni)
Jere Koikkalainen (Frá Titaanit/Piranhas í Finlandi)
Bergþór Ágústsson (Frá SA Víkingum)
Birkir Einisson (Frá SA Víkingum)
Sturla Snorrason (Úr pásu)
Róbert Pálsson fyrirliði liðsins er spenntur fyrir tímabilinu og segir hópinn þéttan og góðan fyrir veturinn. Mikill missir fyrir þá er auðvitað að missa Viggó en aðspurður út í það segir hann Viggó vera í góðum höndum hjá fyrrum línu félaga sínum í landsliðinu Bjarka Rey Jóhannessyni sjúkraþjálfara, og vonandi fyrir hann og Fjölnis liðið að hann geti komist á ísinn sem fyrst. Ásamt Róberti mun mikið mæða á lykilmönnum liðsins og þá sérstaklega markaskoraranum Hilmari Sverrissyni og vonandi að liðið fái menn eins og Emil Alengard, Andra Helgason og Sturlu Snorrason til að vera með eins mikið og mögulegt er því ef liðið ætlar alla leið í úrslit þá þurfa þessir drengir að eiga frábært tímabil.

Róbert fyrirliði getur leyst flestar stöður vallarins
Þrátt fyrir að liðið hafi byrjað deildina með tveimur töpum þá stefna þeir á úrslitakeppnina. Þeir sýndu það í forkeppninni að þeir eru meira en færir um það að spila við hin liðinn með því að fara með Víkinga í framlengingu og sigra lið SR með yngra liði sínu í Húnum. Þetta hafði Gunni þjálfari að segja um markmið liðsins í vetur:
“Markmið okkar fyrir veturinn eru skýr, við ætlum okkur í úrslit. Til þess að ná því markmiði þá þurfum við að mæta tilbúnir til leiks í fyrsta leik og halda dampi út allt tímabilið. Stígandinn þarf að vera jafn og þéttur upp á við. Til viðbótar þá þurfum við að spila rétt úr breiddinni sem við höfum til þess að fyrirbyggja meiðsli og tryggja að við getum mætt með okkar sterkasta hóp hverju sinni.”
Næsti leikur Fjölnis er gegn nágrönnum þeirra í Laugardalnum á morgun, 31.10.



