Úrslitakeppni karla – Fjórði leikur
Úrslitakeppni karla – Fjórði leikur
Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson
Fjórði leikur í úrslitum og allt er undir. SA getur tryggt sér titilinn en SR þarf að vinna næstu tvo leiki til að verða Íslandsmeistarar.
Fljótlega eftir upphafsflaut fær SR á sig dóm. Hættulegt að byrja leikinn á þeim nótum en SA nær ekki að nýta sér það að þessu sinni. Fyrstir til að koma sér á blað eru SRingar en eftir rúmar sjö mínútur af spili berst pökkurinn upp á #20 Jonathan Otuoma á bláu línunni sem skýtur í gegnum umferð þar sem #18 Sölvi Atlason finnur snertingu og breytir stefnu pekkjarins inn í mark SA. 1-0 fyrir SR. SA ætlaði sér ekki að vera lengi marki undir en þegar bæði lið voru með mann í refsiboxinu fékk #2 Orri Blöndal pökkinn á bláu línunni og skilaði honum í mark SR með föstu slappskoti meðfram ísnum. 1-1. Eftir smá bras í powerplay hjá SRingum skrúfuðu þeir hausinn aðeins betur á sig og sýndu getu sína með því að spila pekkinum á litlu svæði fyrir framan mark SA. Menn sentu pökkinn sín á milli, í stað þess að taka eitthvað stressskot, sem endaði hjá #16 Heiðari Kristveigarsyni sem skellti honum í markið. SR tekur aftur forystuna 2-1. Þvílíkur fyrsti leikhluti, harka, tæklingar, mörk og spenna. Það er ekki hægt að biðja um meira.
Annar leihluti einkennist af miklum krafti en fyrstu fimmtán mínúturnar eru markalausar. Bæði lið eru að sækja hart en það eru SAmenn sem ná að nýta sér þvögu fyrir framan mark SRinga er #23 Hafþór Sigrúnarson nær að koma pekkinum naumlega inn og jafna leikinn 2-2. Allt í járnum fyrir loka leikhlutan.
Þriðji leikhluti byrjar af krafti en eftir rúmar þrjár mínútur finnur #23 Kári Arnarsson sig með pökkinn ofarlega í sóknarsvæðinu, hann eyðir engum tíma og þrusar pekkinum sláin inn, auðveldara sagt en gert. SRingar enn og aftur að koma sér yfir í þessum leik, 3-2. SA var samt sem áður ekki lengi að svara fyrir sig því rúmri mínútu seinna er #5 Gunnar Arason á ferðinni er hann skorar með föstu skoti af stuttu færi. Aftur jafn leikur 3-3. SRingar eiga það til að vera með fleiri refsimínútur þegar þessi lið mætast, en þessi leikur var engin undantekning. SA fær yfirtölu (powerplay) sem SRingar virðast ætla standa af sér en stuttu fyrir lok þess skoppar pökkurinn óheppilega hjá varnarmönnum SR og endar í kylfunni hjá #19 Andra Mikaelssyni sem stígur með hann einu skrefi lengra og kemur SA mönnum yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 3-4, þegar rúmar átta mínútur eru eftir. SRingar grípa til örþrifaráða og skipta markmanninum útaf fyrir auka sóknarmann. Það svínvirkar þegar #18 Sölvi Atlason fær pökkinn úr uppkastinu, stígur framhjá pressandi leikmanni SA og setur pökkinn af fullu öryggi yfir griphanskann og jafnar leikinn þegar ein og hálf mínúta lifir leiks. Jafnt 4-4 og orkan í höllinni er ótrúleg.
Framlengingin byrjar strax með hættulegri sókn frá SA er þeir nýta sér skiptingu til þess að laumast bakvið vörn SR en #29 Atli Valdimarsson sér við því og heldur SR í leiknum. Bæði lið eru að nýta sér auka plássið á svellinu en það er spilað þrír á móti þrem í framlengingu. #23 Kári Arnarsson fær pökkinn á leiðinni í sóknarsvæðið, fær á sig pressu, stendur hana af sér, rennir pekkinum framhjá síðasta varnarmanni SA og fer einn á móti markmanni þar sem hann gerir listavel og klárar færið með flottri bakhönd og tryggir SR sigurinn. Þvílíkur leikur.
SRingar sigra 5-4 og knýja fram algjöran úrslitaleik á Akureyri fimmtudaginn 30. mars.