„Það er hlýtt í boxinu“

„Það er hlýtt í boxinu“

Hafþór Sigrúnarson skoraði fyrsta mark SA í kvöld. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Fyrirsögnin vísar í lýsendur leiks SA og SR sem komust heppilega til orða þegar liðin mættust í Topp-deild karla í dag. Leikurinn var óvenju langur en stöðva þurfti tímann nokkrum sinnum.

Dómarar leiksins höfðu afskipti af leikmannabekkjum SR og SA. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Segja má að leikurinn hafi byrjað á því að laga gler sem losnaði fyrir aftan mark SR. Á sama tíma fóru fram orðaskipti milli bekkja liðanna sem varð til þess að SR fékk fyrstu refsingu leiksins. SA voru ekki lengi að notfæra sér tækifærið og kom Hafþór Sigrúnarson heimamönnum yfir.

Helstu einkenni leiksins voru þó fjöldi dóma í annarri lotunni. 12 dómar féllu í lotunni jafnt á liðin en þar af voru 7 dómar vegna smávægilegra handalögmála. Hiti var í mönnum og var lotan gríðarlega lengi að líða, þar sem dómarar leiksins þurftu síendurtekið að reikna út hversu margir leikmenn máttu vera inn á ísnum.

SR tókst að jafna leikinn með marki frá Hákoni Magnússyni þegar leiktíminn var tæplega hálfnaður. Stuttlega seinna fóru tveir leikmenn SR í boxið og tókst SA að ná forustunni aftur í 2-1, með marki frá Unnari Rúnarssyni.

Jóhann Ragnarsson sýndi frábær tilþrif í leiknum. Hér ver hann pökkinn með blaðinu á skautanum sínum. Ljósmynd: Stefán Oddur Hrafnsson

Þriðja lotan var töluvert rólegri þegar kemur að tíma í boxinu. Liðin gáfu þó ekkert eftir og var gríðarleg óvissa með hvoru megin sigurinn myndi enda. SA komust þó 3-1 yfir með marki frá fyrirliðanum Andra Mikaelssyni og tæpum tveimur mínútum seinna 4-1 með marki frá Jóhanni Leifssyni. Fyrirliði SR Kári Arnarsson, lagaði stöðuna aðeins fyrir SR í 4-2 skömmu fyrir leikslok en leikurinn endaði með tveggja marka sigri SA 4-2.

Gríðarlega skemmtilegur leikur sem tók sinn tíma. En leikur SA og SR í Topp-deild kvenna frestaðist um tæpan klukkutíma vegna leiksins.

Mörk og stoðsendingar

SA: Unnar Rúnarsson (1,1), Andri Mikaelsson (1,0), Hafþór Sigrúnarson (1,0), Atli Sveinsson (0,2), Birkir Einisson (0,1), Dagur Jónasson (0,1), Halldór Skúlason (0,1), Heiðar Jóhannsson (0,1)

SR: Hákon Magnússon (1,1), Kári Arnarsson (1,0), Haukur Karvelsson (0,1)

Markmenn

Róbert Steingrímsson, SA, varði 25 af 27 skotum og Jóhann Ragnarsson, SR, varði 39 af 43 skotum