SR lagði íslandsmeistara Fjölnis! – Toppdeild kvenna

SR lagði íslandsmeistara Fjölnis! – Toppdeild kvenna

Birt: 17.09.2025Flokkar: Fréttir, Toppdeild Kvenna
3 – 1 sigur SR í fyrsta leik

Í gærkvöldi þriðjudagskvöldið 16. september áttust við í fyrsta skipti á tímabilinu í Toppdeild kvenna, Reykjavíkurliðin Fjölnir og SR. Fjölniskonur ríkjandi Íslandsmeistarar og fram að þessu hefur SR ekki blandað sér í topp baráttuna, enda liðið verið í mikilum uppbyggingar fasa með mikið af ungum og efnilegum leikmönnum.  Á sama tíma og Fjölnir hefur verið að missa leikmenn þá hafa SRingar verið að bæta við sig. Berglind Leifsdóttir og Teresa Snorradóttir fóru til dæmis báðar frá Fjölni yfir í SR. Kolbrún Garðarsdóttir fór frá Fjölni yfir í SA þar sem hún er uppalin. Hilma Bóel var ekki á leikmanna lista Fjölnis þannig að ljóst er að fyrir höndum er brekka fyrir Íslandsmeistarana.

SRingar þurftu líka að fylla í skarðið sem Andrea Bachman markvörður skildi eftir er hún ákvað að hleypa heimdraganum og reyna fyrir sér í Svíþjóð þetta tímabil þar sem hún leikur með Almtuna Upsala í sænsku deildinni. Í markið fengu SR ingar hina kanadísku Júlíönnu Thomson og svo barst liðsauki í Laugardalinn þegar hin sænska Elenor Alstig bættist í leikmanna hóp SR. En þá að leiknum sjálfum.

Staðan var markalaus að lokinni fyrstu lotu en í annarri lotu sýndi SR á klærnar og komst í 2:0 með mörkum frá Gunnborgu Petru Jóhannsdóttur og Bríeti Maríu Friðjónsdóttur. SR konur fengu tækifæri til að auka muninn á 37 mínútu þegar dæmt var vítaskot á Fjölni, Gunnborg Jóhannsdóttir tók skotið en Karitas Halldórsdóttir markvörður Fjölnis lokaði á hana og vítið fór forgörðum.

Í þriðju lotu minnkaði Flosrún Jóhannesdóttir muninn fyrir Fjölni á fertugustu og sjöttu mínútu í yfirtölu en Brynja Líf Þórarinsdóttir tryggði SR svo tveggja marka sigur með þriðja marki heimakvenna þegar rétt tæpar 4 mínútur voru eftir af leiktímanum.

3 – 1 sigur SR var því staðreynd og liðið komið upp að hlið SA en bæði lið hafa unnið sína leiki gegn Fjölni. SA og SR eigast svo við laugardaginn 27. september á Akureyri.

Þegar þetta er skrifað er tölfræði úrvinnslu leiksins í leikgreiningar kerfi ÍHÍ ekki lokið. Því verður fréttin uppfærð.