Deildarmeistaratitillinn í höfn | Hertz-deild kvenna

Deildarmeistaratitillinn í höfn | Hertz-deild kvenna

Shawlee Gaudreault varði mjög vel í marki SA í dag - hér tekur hún skot frá Sigrúnu í Fjölni. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Fjölnir tók á móti SA í fyrsta deildarleik ársins í Egilshöll í dag og SA innsiglaði með sigri deildarmeistaratitilinn en liðið hefur einungis tapað einum leik þetta tímabilið gegn Fjölni fyrr í vetur.

SA byrjaði leikinn af krafti og tók strax forystu eftir 90 sekúndur með marki Sveindísar Sveinsdóttur. Spilið fór að mestu fram í varnasvæði Fjölnis en heimakonur náðu betri tök á leiknum, voru sterkari í lok leikhlutans og áttu mörg góð færi sem Shawlee markvörður SA stoppaði. Það voru svo SA-ingar sem bættu í forystuna í 2-0 með skyndisókn 120 sekúndum fyrir lok leikhlutans þar sem María Eiríksdóttir var á ferðinni.

Í öðrum leikhluta var allt í járnum, liðin skiptust á að sækja og bæði náðu að koma pökknum í netið, fyrst Silvía Björgvinsdóttir fyrir SA og síðan Guðrún Viðarsdóttir fyrir Fjölni. Staðan 3-1 fyrir loka leikhlutann.

Fjölnir var sterkari aðilinn í þriðja leikhlutanum en stórleikur Shawlee í marki SA kom í veg fyrir að heimakonur kæmust inn í leikinn. Það var SA-ingurinn Silvía sem jók forystuna í 4-1 áður en Fjölnir klóraði í bakkann, með því að taka markvörðin út af og bæta við sóknina, með marki Sigrúnar Agötu á lokasekúndunum. Lokatölur 4-2 í Egillshöll.

SA átti 29 skot á mark á móti 42 skotum hjá Fjölni en Shawlee varði 40 af þeim eða rúm 95% hlutfall.

Barist um pökkinn í Egilshöll í dag.
Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Markatalan segir ekki allt

Sigrún Agatha, sem leiðir Fjölni í stigum þetta tímabil, var mjög ánægð með leik liðsins þrátt fyrir tapið: „Þetta var geggjaður leikur, við náðum að halda ákefðinni á háu leveli. Markatalan í þessum leik segir ekkert til um hvað var að eiga sér stað inn á ísnum.“

Nei þið virtust sterkari aðilinn oft á tíðum, sérstaklega í síðasta leikhlutanum: „Já sammála. Við eigum það til að missa svolítið dampinn í annari lotu, þetta hefur fylgt þessu liði lengi þótt við höfum alveg átt góðar aðrar lotur. Það sýnir í raun karakterinn sem er að skapast þegar þú nærð að fara í gegnum lægðirnar og koma upp sterkari. Við náðum að klára aðra lotu sterkt og ákveðið með fyrsta markinu okkar og náðum held ég fleiri skotum á mark í heildina.“

 

Sigrún sækir að marki Fjölnis í leiknum í kvöld.
Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Liðin eiga aðeins eftir að mætast einu sinni fyrir úrslitakeppni sem hefst fyrstu helgina í mars á Akureyri. Hvað finnst Sigrúnu að Fjölnir þurfi leggja áherslu á í sínum undirbúningi?: „Við þurfum að halda þessu áfram, halda uppi ákefðinni, eiga leikinn og stjórna honum. Það skiptir svo miklu máli að halda pekkinum sem mest, ekki panika og henda honum frá sér. Þessir leikir sigrast á þrjóskunni og hausnum og auðvitað markmönnunum líka. Dagsformið segir rosalega mikið til um hvernig þessir leikir munu fara.“

Akureyringar munu hafa heimaleikjaréttinn í úrslitunum: „Þeir eru erfiðir andstæðingar heim að sækja en við látum það ekkert stoppa okkur“ segir Sigrún Agatha að lokum.

Getur verið flókið að vera spilandi þjálfari

Silvía Rán Björgvinsdóttir, leiðir Hertz-deild kvenna í stigum með 18 mörk og 7 stoðsendingar eftir þriggja stiga leik sinn í kvöld. Hún er líka spilandi þjálfari, en hvernig gengur það?: „Það getur verið flókið en er ógeðslega skemmtilegt. Líka að fá traustið frá mínum uppeldisklúbbi að vera svona ung og fá þetta tækifæri til að koma mér inn í þjálfunarhlutverk. Auðvitað var ég aðstoðarþjálfari fyrst og fékk stórt hluverk í því. Að vera síðan „promoted“ sem aðalþjálfari segir mér kannski að eitthvað sem ég var að gera var að virka.“

„Svo er það líka að vera leikmaður, maður vill  búa til samband sem leikmaður en maður þarf líka að vera með samband við þær sem þjálfari. Þetta er pínu skrítið en ég held ég hafi traust leikmanna til að gera þetta – ég vona það allavega“ bætir Silvía við og hlær.

Silvía og Sólrún fagna marki þeirrar fyrrnefndu í kvöld.
Ljósmynd: Bjarni Helgason

Það var sigur í dag, hvað getur þú sagt okkur um leikinn? „ Bara mjög sátt. Uppleggið mitt virkaði og mér fannst við vinna mjög vel. Það er búið að vera okkar persónueiginleiki að við erum ákveðið vinnuhestalið. Auðvitað komu móment þar sem við vorum að gleyma okkur í ákveðnum hlutum en það gerist bara. En það sem ég og Atli [aðstoðarþjálfari] lögðum upp með virkaði, sem er bara geggjað“.

Mætti ekki segja að munurinn á liðunum í dag hafi verið Shawlee í markinu hjá ykkur?„Hún var geggjuð, hún bara bjargaði okkur í dag. Við áttum dauðafæri í fyrstu lotunni sem hefðum átt að setja í markið en að vera með markmann sem ver allt er game-changer.“ Silvía var líka ánægð með dómara leiksins: „Við fengum að spila leikinn, það var ekkert verið að senda í boxið þótt það væri einhverjar smá tæklingar.“

Átti ekki von á að þetta yrði svona gaman

Nú eru 5 tímabil síðan þú spilaðir síðast á Íslandi, er einhver munur á hokkínu síðan þá? „Já það er hellings munur. Þegar ég var hérna seinast þá voru eldri einstaklingar og liðin fámennari. Þetta var orðið þægilegt sem var ástæðan fyrir því að ég fór út, mig langaði að fá meiri áskorun. Að koma heim núna þá er maður ennþá að fá áskorun – þetta er bara geggjað. Það er frábært að sjá allar þessar ungu stelpur, þær eru orðnar mikið betri fyrr. Þær eru ekki að blómstra 18 ára, þær eru að blómstra 14 ára sem er frábært að sjá.“

Nú er margir að velta fyrir sér þínum næstu skrefum enda langstigahæst í deildinni, verður þú áfram á Íslandi næsta tímabil. „Já ég fæ þessa spurningu mjög oft“ svarar Silvía hlægjandi og bætir við: „Ég segi alltaf við stelpurnar að það sé mitt að vita ykkar að komast að.“

„Planið var alltaf að fara aftur erlendis og ná mér í meiri reynslu. Það er eitthvað sem ég er ennþá að skoða, er bara ennþá að koma hnénu í lag, það tekur bara tíma. Maður er alltaf tilbúin ef kallið kemur, maður mun hugsa málið allavega.“

„Ég átti ekki von á að vera hérna heima yrði svona gaman, það togar í mann.“ bætir Silvía við að lokum.

Hart barist á ísnum í dag, Ragnheiður frá SA og Kristín frá Fjölni.
Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Næsti leikur í Hertz-deild kvenna verður í Skautahöllinni í Laugardal þegar SR tekur á móti Fjölni þriðjudaginn 23. janúar kl. 19.45.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ 

 

 

Höfundur: