Fjölnir sótti þrjú mikilvæg stig í Laugardalinn | Hertz-deild karla

Fjölnir sótti þrjú mikilvæg stig í Laugardalinn | Hertz-deild karla

Gunnlaugur Þorsteinsson úr liði heimamanna og Liridon Dupljaku takast á í Laugardalnum í kvöld. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson

SR tók á móti Fjölni í Hertz-deild karla fyrr í kvöld. Fyrir leikinn munaði sjö stigum á liðunum, SR í vil, í baráttunni um annað sæti í deildinni og þátttökurétt í úrslitakeppni gegn SA. Fjölnir sigraði leikinn 3-2 og tryggði sér þrjú dýrmæt stig.

Fyrsti leikhluti var fremur tíðindalítill, SR sótti þó meira en sterk vörn og markvarsla Fjölnis hélt.

Heiðar Kristveigarson úr SR og Hektor Hrólfsson úr Fjölni í kvöld. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Annar leikhluti var jafnari og dró til tíðinda hjá gestunum þegar Hilmar Sverrisson skoraði með snöggu skoti framhjá varnarmanni og markverði SR á fimmtu mínútu. Annað mark Fjölnis skoraði Róbert Pálsson er skot hans fór af varnamanni í netið fimm mínútum síðar. Það var svo Viggó Hlynsson sem kórónaði leikhlutann fyrir Fjölni með marki þegar tæpar sex mínútur lifðu af leikhlutanum. Fjölnir kominn í mjög góða 3-0 stöðu fyrir lokaleikhlutann.

SR-ingar voru ekki búnir að syngja sitt síðasta og hleyptu spennu í leikinn með tveimur mörkum Ólafs Björnssonar og Petr Stepanek á 45 sekúndna kafla um miðbik þriðja leikhluta. SR sótti stíft til leiksloka en góð vörn gestanna og frábær markvarsla Þóris sá til þess að stigin þrjú færu í Grafarvoginn.

SR átti 34 skot á mark á móti 23 frá Fjölni.

Einn mikilvægasti leikur tímabilsins

Þórir Hermannsson Aspar, markvörður Fjölnis. Ljósmynd af fjolnir.is

 Þórir Aspar  stóð milli stanganna hjá Fjölni í kvöld, hvað fannst honum um leikinn?: „Þetta var einn mikilvægasti leikur tímabilsins hjá okkur, við tókum þetta sem sex stiga leik. Við tökum þrjú á móti þeim og vonum svo að þeir tapi á móti SA, þá eru meiri líkur á að við komust í úrslitakeppnina.“

Þessi lið, SR og Fjölnir, eiga eftir að mætast þrisvar í deildinni og spila næstu tvo þriðjudaga, svo það stefnir í hörkubaráttu á lokametrunum um sætið í úrslitum? „Já næsti leikur strax á þriðjudaginn og restin af tímabilinu mjög mikilvæg.  Þurfum að taka alla leikina sem úrslitaleiki , þurfum að halda haus og koma confident.“

Nýtt og sterkara Fjölnislið

Þú áttir stórleik í kvöld og oft gerð hörð hríð að markinu hjá þér : „Já þetta var einn af mínum bestu leikjum en ég var mjög sáttur við vörnina, þeir voru að blokka allt sem þeir gátu blokkað, enginn hræddur við pökkinn. Við erum með nýtt lið, mikið sterkara lið og erum að spila alvöru vörn núna. Það er búið að ganga mjög vel á æfingum og við ætlum að halda svona áfram. Við ætlum í playoffs“ bætir Þórir við að lokum.

Eins gott að vinna fyrir því

Jóhann Björgvin Ragnarsson, markvörður SR. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Hinum megin á ísnum stóð Jóhann Björgvin fyrir framan mark heimamanna, hvað fannst honum um leikinn í kvöld? „Þetta var leiðinlegur leikur að tapa, mér fannst við vera miklu betri allan leikinn. Fengum tvö leiðinleg mörk á okkur þar sem pökkurinn skoppaði af okkar varnarmanni og inn. En svona leikir gerast, maður verður bara að sætta sig við það. Það er annar leikur í næstu viku.“

Þessi leikur hleypti mikilli spennu í deildina, nú er Fjölnir bara fjórum stigum á eftir ykkur í baráttunni um sæti í úrslitum: „Við erum meðvitaðir um það og búnir að fara yfir það á fundum. Við þurfum að vinna allavega tvo leiki á móti þeim til að ná úrslitasætinu. Planið var að vinna fyrstu tvo og fara svo að undirbúa okkur fyrir úrslitin. En það greinilega gekk ekki upp, það var kannski eina ástæðan fyrir því að við mættum svona sjálfsöryggir inn í þennan leik. Kannski spiluðum ekki okkar besta leik en nú er vinnan fyrir framan okkur og við ætlum okkur í úrslitin og vinna þau. Það er bara eins gott að vinna fyrir því.“

Stundum besta leiðin að spila besik hokkí

Frá þínu sjónarhorni sem markvörður, hvað hefði mátt betur fara hjá þínum mönnum í kvöld? „Þórir var frábær í markinu en það voru aðallega tveir hluti sem skemmdu fyrir okkur. Í fyrsta lagi vorum við ekki að nýta færin okkar, áttum fullt af góðum marktækifærum.  Mér fannst við líka flækja svolítið hlutina fyrir okkur, vorum að spila of erfitt hokkí. Stundum er besta leiðin að spila basik og leiðinlegt hokkí þá vinnur maður leiki.“ bætir Jóhann við að lokum.

Næsti leikur í Hertz-deild karla er á laugardaginn í Egilshöll er Fjölnir tekur á móti SA kl 16.45.

Fjölnismenn fagna einu af þremur mörkunum sínum í kvöld. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Höfundur: