„Hef ekki spilað svona skemmtilega deild“ | Hertz-deild kvenna

„Hef ekki spilað svona skemmtilega deild“ | Hertz-deild kvenna

Silvía var óstöðvandi í Laugardalnum í kvöld með fimm stig og eina stoðsendingu. Ljósmynd úr leik liðanna í haust, Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

SR tók á móti SA í fyrri leik liðanna þessa helgi í Hertz-deild kvenna. Fyrir liggur að SA og Fjölnir keppa til úrslita um titilinn þetta tímabil en SR hefur verið að stela stigum af báðum liðum eftir áramót. Ekki tókst SR-ingum þó að krækja í stig í kvöld en SA vann öruggan 7-1 sigur. Þótt SA-ingar hafi verið sterkari allan leikinn var hann jafnari en markatölur gefa til kynna en heimakonur áttu 26 skot á mark á móti 40 skotum gestanna.

Gestirnir opnuðu markareikningin á 8 mínútu þegar Silvía skoraði framhjá markverði SR. Silvía var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar. Staðan 2-0 eftir fyrsta leikhluta og Silvía rétt að byrja, en hún átti eftir að koma mikið við sögu í kvöld.

Aðalheiður úr SA og Alexandra úr SR takast á inn á ísnum. Ljósmynd úr leik liðanna í haust, Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Annar leikhluti var hálfnaður þegar SA-ingar náðu þriðja marki sínu en þar var á ferðinni Arndís Sigurðardóttir en það var eina mark SA-inga sem Silvía kom ekki að í kvöld. Silvía skoraði sitt þriðja mark stuttu síðar og staðan 4-0 eftir annan leikhluta.

SR-ingar klóruðu í bakkann í þriðja leikhluta með marki April Orongan en SA svaraði á næstu mínútu með marki Löru Jóhannesdóttur. Silvía skoraði svo tvö til viðbótar á síðustu 8 mínútum leiksins og kórónaði 6 stiga leik sinn (fimm mörk og ein stoðsending). Lokatölur 7-1 fyrir SA.

Besta tilfinningin að sigra leiki

Andrea Diljá varði 33 skot í kvöld. Ljósmynd Bjarni Helgason.

Andrea Diljá markvörður SR hefur staðið lengi milli stanganna hjá SR þrátt fyrir að vera enn ung að árum. Hvað fannst henni um þenna leik í kvöld: „Þetta var ekki okkar besti leikur, komum ekki alveg með fókus inn í leikinn eins og við hefðum átt að gera.“ 

Hvernig var að ná þessum langþráðu sigrum í byrjun ársins eftir langa taphrinu? „ Þetta var alveg frábært, ég er búinn að vera í þessu liði í 5 ár, síðan ég var 12 eða 13 ára gömul. Þetta voru mínir fyrstu sigrar með liðinu og var bara frábær tilfinning, ein af bestu tilfinningunum.“

Stelpurnar eru peppaðar í næsta leik

Andrea hefur oft þurft að stoppa yfir 60 skot í leik á síðustu árum þótt þeim leikjum fari hratt fækkandi. Hvernig er að fá á sig 40 til 60 skot í leik, það hlýtur að vera erfitt og þreytandi? „Já það er alveg þreytandi en með tímanum nær maður að styrkja sig og er meira tilbúin í þessa leiki. Ef maður á von á þessu og undirbýr sig rétt þá er þetta ekkert of erfitt.“

Hvað með leikinn á morgun, hvernig heldur þú að hann fari? „Ég held hann fari betur. Við þurfum að passa að hvíla vel. Stelpurnar eru peppaðri í leikinn og allar tibúnar.“ segir Andrea að lokum.

Hraður og skemmtilegur leikur

Jónína fagnar hér einum af mörgum Íslandsmeistaratitlum SA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net

Jónína Guðbjartsdóttir, fyrirliði SA, er líklega einn reynslumesti leikmaður landsins og hefur uppliðað tímana tvenna í kvennahokkí á Íslandi. Hvað fannst henni um leikinn í kvöld? „Eins og er búið að vera í deildinni hingað til þá var þetta hraður og skemmtilegur leikur. Gaman að sjá hvað SR er búið að vaxa og okkur finnst virkilega gaman að spila á móti þeim. Það er líka gaman að spila á móti liði sem er uppbyggt af svona mörgum heimamönnum.“

Svo er aftur leikur á morgun milli þessara liða, er sama plan í honum? „Já já, við mætum í alla leiki til að vinna eins og SR. Bæði lið ætla sér að vinna svona leiki. Þjálfarnar setja eitthvað upp fyrir okkur sem þeir vilja að við tökum fyrir og æfum. Kannski breyta þeir eitthvað uppsetningunni, ég veit það ekki, eða mæta með það sama. En við verðum reyndar mjög líklega án eins leikmanns sem að meiddist núna í lokin. Anna Ágústsdóttir, einn af kapteinunum okkar, meiddist á hné. Við þurfum að hugsa um úrslitin svo stundum þurfum við að stoppa leikmenn af þó að hún myndi kannski harka af sér. En það kemur í ljós á morgun.“

Staðan er núll núll þegar í úrslitakeppnina er komið

Nú styttist í úrslitin, síðasti deildarleikurinn ykkar á morgun, eruð þið farnar að undirbúa ykkur fyrir úrslitin gegn Fjölni? „ Við hugsum fyrst og fremst um hvern leik fyrir sig. Úrslitin eru ekki strax, leikurinn á móti SR á morgun er fyrst. Þannig á það líka að vera, maður á að mæta í leikinn sem maður er að fara að spila.“

Þið hafið haft ákveðna yfirburði í deildinni í vetur, viltu eitthhvað spá í spilin varðandi úrslitakeppnina, verður þetta á svipuðum nótum og deildin? „ Úrslitakeppni eru alltaf úrslitakeppni. Skiptir engu máli hvernig staðan er í deildinni. Þegar komið er í úrslit er staðan bara núll núll, bæði lið eru á byrjun. Það er bara það lið sem langar í þetta meira og eru meira tilbúin og undirbúin. Við vonum að það verðum við og ætlum okkur það auðvitað en Fjölnir ætlar líka að vinna og við verðum að vera klárar í það.“

Já Fjölnir er líka með sterkt lið ekki satt? „Jú mjög sterkt lið. Deildin í ár, ég hef ekki spilað svona skemmtilega deild eins og núna. Bara virkilega skemmtilegir leikir, maður veit aldrei hvernig þetta fer og spennandi allan tímann. Þó svo að þessi leikur í kvöld hafi farið 7-1 var hann spennandi allan tímann, mér fannst aldrei eins og ég væri að vinna leikinn eitthvað. Þær gátu skorað hvenær sem er og eru duglegar að refsa. Maður sá það bæði í leiknum gegn okkur heima og líka á móti Fjölni þegar SR vann. Þær eru fljótar að refsa, ef maður fer og slakar á þá eru þær bara mættar og refsa. Þá verður maður að vera tilbúinn allan tímann.“

Liðin mætast aftur á morgun laugardag kl. 17.45 í seinni leik liðanna þessa helgi.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Höfundur: