Fjölnir er Íslandsmeistari í Hertz-deild kvenna
Fjölnir er Íslandsmeistari í Hertz-deild kvenna
Fjölnir er Íslandsmeistari í Hertz-deild kvenna eftir 1-0 sigur á SA í fjórða leik liðanna í Egilshöll í dag fyrir fullri stúku. Eina mark leiksins skoraði Sigrún Árnadóttir á fjórðu mínútu.
Þetta var fyrsti titill Fjölnis en sá annar sem fer upp í Egilshöll því fyrir 18 árum, árið 2006, varð kvennalið Bjarnarsins Íslandsmeistari. SA-konur hafa haldið fast um bikarinn þessa 17 titla síðan þá – þar til nú.
Liðið fór í sjálfskoðun fyrir úrslitin
Sigrún, ásamt Karítas, eru þær einu í núverandi liði Fjölnis sem voru í sigurliðinu fyrir 18 árum og muna því tímana tvenna.
Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, getur þú farið aðeins yfir úrslitin fyrir okkur: „Eftir deildina þá fór liðið í heild sinni í dálitla sjálfskoðun. Leikkerfin voru ekki að bregðast okkur, við sem leikmenn erum allar sterkar og eigum að geta staðið í hárinu á Akureyringum. En hvað er það sem er að stoppa? Erum við að missa fókus, já. Erum við missa trúnna á sjálf okkur, klárlega og líka hver aðra. Með því að vinna svolítið í þessum hlutum hafðist þetta.“
Þið snúið þessu alveg við, vinnið SA-inga aðeins einu sinni í deildinni en þær sigra bara einn leik í úrslitum. „Við fórum í tvo tíma hjá íþróttasálfræðingi, hann lagði þetta bara einfalt fyrir okkur. Þetta er nefnilega bara alls ekki flókið en ótrúlega effektíft og var bara greinilega það sem við vorum að basla við. En svo skemmir ekkert að fá Kollu (Kolbrúnu Garðarsdóttur) til baka. Hún er búin að standa sig eins og herforingi, ekki búin að skauta síðan í september. Kemur beint inn í lok tímabils og engin bilbugur.“
Já það er stundum eins og hún sé með mótor í skautunum: „Ég veit bara ekki hvernig hún getur verið í svona krónísku formi – það er eitthvað.“
Ekki 18 ár í næsta titil
Manstu eitthvað eftir síðasta titli árið 2006? „Veistu nei ég man ekkert eftir honum, ég man eftir að hafa unnið hann, bara loksins. En þá var deildin ekki svona ójöfn, þá vorum við að skiptast meira á. En síðan hefur SA eiginlega bara dóminerað.“
Já einmitt 17 ár með titilinn. „Þú sérð að 2006, árið eftir kemur Sarah Smiley til landsins og hún hefur náttúrlega gert kraftaverk með kvennahokkí á Akureyri og gerir enn.“
SA er með ungt lið en á samt leikmenn út um allt. „Já SA er núna í hálfgerðu millibilsástandi þar sem margar eldri og reyndari eru farnar, hingað meðal annars, og erlendis náttúrlega líka. Þessar yngri eru að koma upp og standa sig ótrúlega vel. En maður sér á þeim að það er ákveðið óöryggi og það fer. Við eigum ekkert endalaust inni fyrir svona sigrum á meðan þær halda áfram að þroskast og dafna.“
Verða 18 í næsta titil hjá ykkur? „Vonandi ekki því þá verð ég klárlega ekki með, eða ólíklega“ segir Sigrún og hlær.
Skautarnir ekki á hilluna í bráð
Nú ertu á seinni árum ferilsins, ertu eitthvað farin að huga að lokum hans? „ Síðast þegar ég gáði er ég stigahæst í þessari úrslitakeppni svo þessar litlu stelpur þurfa eitthvað að fara að stíga upp ef þær ætla að ýta mér út sko“ segir Sigrún í léttum tón. „En á meðan ég hef heilsuna af hverju ekki? Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Fjölskyldan mín er ótrúlega umburðarlynd fyrir öllum æfingunum og ég trúi því að ég sé góð fyrirmynd í því að ganga á eftir því sem ég elska og láta það ganga upp.“
Ætlar þú að taka Jónínu á þetta og halda áfram þar til þú getur spilað með dóttur þinni sem æfir með U12? „Allan daginn! Hún á smá í það ennþá en hún verður bara að ákveða fyrir sig hvort hún ætlar að spila með mömmu sinni eða ekki, það er líka ákveðin áskorun.“
Ekkert sem fór úrskeiðis
Anna Ágústsdóttir er aðstoðarfyrirliði og einn af reynsluboltunum úr liði SA.
Þetta var hnífjafn leikur þar sem munaði bara einu marki. Þið sigruðuð deildina mjög örugglega, hvað breyttist í úrslitum eða hvað fór úrskeiðis, ef það er hægt að segja það? „Það fór ekkert úrskeiðis. Fjölnir er bara að toppa á hárréttum tíma. Við héldum bara áfram að standa okkur vel og þetta var mjög jöfn og spennandi úrslitakeppni. Við bjuggumst ekki við neinu öðru en að þær myndu mæta af þessum krafti í þessa keppni.“
Forréttindi að fá að spila í svona deild
„Ég er bara rosalega stolt af mínu liði. Þetta er rosalega ungur hópur og það hefur alveg verið talað um það áður að það voru ekki gerðar miklar væntingar til okkar í upphafi tímabils. En við erum búnar að sýna og sanna að þetta er sterkur hópur samt sem áður. Þó að þetta hafi farið svona voru þetta allt saman jafnir leikir sem gátu farið á hvorn veginn sem var. Þannig að ég er bara svakalega stolt af stelpunum okkar þótt ég hafi alveg viljað fá einn leik í viðbót. Það eru forréttindi að fá að spila í svona deild og fá að taka þátt í svona úrslitakeppni þó að það sé auðvitað mjög svekkjandi að tapa þessu.“
Þið tókuð auðvitað 17 titla í röð, það hlaut að koma að því að svona sigurröð taki enda, næstum því tveir áratugir. Hvernig fer maður að því að einoka bikar svona lengi? „Það er ekkert meiri pressa að vinna bikarinn núna af því að maður er vanur að vinna. Maður tekur hvert ár fyrir sig og hverja úrslitakeppni fyrir sig. Jú ætli tölfræðin segi ekki að það þurfi eitthvað annað lið en SA að vinna. Við verðum bara að kyngja því.“
Útflutningur leikmanna frá Akureyri
Án þess að taka neitt frá Fjölni þá er þetta samt ákveðin rós í hnappagatið á uppbyggingarstarfi SA síðustu ár og áratugi þar sem margir af sterkustu leikmönnum Fjölnis eru frá Akureyri. Er erfitt að horfa upp á sterka leikmenn fara suður og erlendis eða er það bara tækifæri til þess að ala upp nýja kynslóð? „Ég lít á brottflutning SA leikmanna, bæði til útlanda og Reykjavíkur, sem tækifæri fyrir íþróttina til að þróast. Þessi hópur sem er búinn að vera að spila fyrir SA í vetur er svo ungur og þær eru búnar að þróast svo hrikalega mikið sem leikmenn. Stelpur sem margar hafa verið í aukahlutverki og eru núna búnar að vera í aðalhlutverki og búnar að valda því. Þetta er bara jákvætt og best fyrir allar konur sem spila íshokkí á Íslandi og fyrir Ísland að deildin sé svona og frábært líka hvernig SR-ingarnir komu inn í deildina.“
Íshokkí.is óskar Fjölni til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn 2024.
Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ