SA jafnar og allt í járnum | Úrslitakeppni Hertz-deildar karla

SA jafnar og allt í járnum | Úrslitakeppni Hertz-deildar karla

SA-ingar fagna sigri í Laugardalnum í gærkvöldi. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

SR tók á  móti SA í öðrum leik úrslita í gærkvöldi. Leikurinn var, eins og sá fyrsti, jafn og hraður. Heimamenn leiddu meirihluta hans og var staðan 3-1 í lok annars leikhluta. Gestirnir áttu hins vegar þriðja leikhluta og skoruðu fjögur á móti einu og sigruðu 5-4. Þar var fremstur meðal SA-inga Jóhann Leifsson með þrjú mörk í leikhlutanum. Önnur mörk SA-inga skoruðu Róbert Hafberg og Gunnar Arason. Mörk SR-inga skoruðu Petr Stepanek (2), Kári Arnarsson og Sölvi Atlason.

Það er ljóst að rimman fer í allavega fjóra leiki en sá næsti verður á Akureyri á laugardag og sá fjórði í Reykjavík á þriðjudaginn.

Þrenna í þriðja

Jóhann Leifsson. Ljósmynd SA.

Jóhann Leifsson, sem var stoðsendingahæstur í Hertz-deildinni í vetur,  var núna á skotspónum með þrjú mikilvæg mörk í kvöld.

Þetta byrjar eins og í úrslitunum í fyrra, bæði lið sigra á útivelli. „Þetta eru hörkuleikir, allir leikirnir í vetur eru búnir að fara svona  – það bjuggust allir við þessu. Skemmtilegt fyrir áhorfendurnar líka.“

„Þessi leikur spilaðist fram og til baka og Jóhann var að taka alla þessu auðveldu pekki sem við vorum að skjóta í magann á honum. Þeir voru líka að blokka mjög mikið af skotum og síðan datt þetta bara inn í þriðju períódu.“

Þið láguð svolítið mikið í sókn þá. „Mér fannst við vera að spila nákvæmlega eins í öllum þremur períódunum, við náðum bara að loka aðeins meira á miðjuna í þriðja, fannst mér, þótt við hefðum gert það ágætlega í fyrsta og öðrum og náðum að halda þeim svolítið inn í varnarsvæðinu. En þeir refsa þegar þeir komast út úr svæðinu og í tveir á einn eða tveir á tvo. Þeir refsa hratt svo maður þarf að passa sig.“

Veðurtepptir í Reykjavík

Hvernig er með framhaldið, nú er næsti leikur strax á laugardaginn á Akureyri? „Já við erum fastir hérna eins og SR-ingarnir fyrir norðan eftir fyrsta leik, það er búið að loka öllu held ég. Við þurfum að leita okkur að gistingu og vonandi getum við farið heim á morgun en ég held það sé samt jafn slæmt þá, þannig að kannski ekki bara fyrr en á laugardaginn.“

SA og SR verður kannski bara samferða í rútunni norður á laugardag? „Jú er ekki Reynir að keyra SR líka, þá getum við bara farið saman“ bætir Jóhann við í léttum tón.

Hvað viltu spá fyrir um næsta leik? „Þetta verður bara áfram nákvæmlega eins, þetta eru hörkulið bæði tvö svo það má ekki búast við neinu öðru.“

Heldur þú að þetta fari í fimm leiki eins og í fyrra? „Já miðað við þessa tvo leiki þá er alveg hægt að búast við því, en bæði lið vilja auðvitað klára þetta sem fyrst.“

Það getur allt gerst í playoffs

Axel Orongan. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Axel Orongan kom sterkur inn í Hertz-deildina eftir að hafa spilað lítið fyrrihluta tímabilsins.

5-4 tap hérna í Laugardalnum í kvöld og staðan því 1-1 í einvíginu eftir tvo leiki. „Við gerðum akkúrat öfugt við það sem við gerðum á Akureyri, við byrjuðum sterkir í þessum leik. Síðan duttum við niður á eitthvað level sem við eigum ekki að vera á. Við vorum ekki alveg að halda okkur út úr boxinu, SA er með gott Powerplay og við vitum það alveg. En þetta er playoffs, það getur allt gerst. Þetta eru jafnir leikir, það munaði einu marki á Akureyri og einu marki hér.“

Nú er næsti leikur strax á laugardag, viltu spá eitthvað fyrir um hann? „Ég vil ekki spá neinu en eins og ég sagði þá er þetta playoffshokkí og það spilar allir hart. Þetta er blóð, sviti og tár í þessum leikjum og þetta er allt mjög jafnt.“

Meiri hiti og harka

Var meiri harka í þessum leik en þeim fyrsta?  „Það var aðeins meiri hiti í þessum leik en það er alveg skiljanlegt, þeir komu reiðir inn í þennan leik þar sem þeir töpuðu á heimavelli. En við getum búist við mjög góðum leik á Akureyri á laugardag“ bætir Axel við að lokum.

Eins og áður sagði er næsti leikur á Akureyri laugardaginn kl. 16.45 og leikur fjögur verður í Reykjavík á þriðjudaginn kl. 19.45.

Tölfræði leiksins má nálgast á vef ÍHÍ og upptöku af honum á Youtube rás ÍHÍ.

Höfundur: