Kynntist kærustunni á svellinu
Kynntist kærustunni á svellinu
„Ég kem úr hokkífjölskyldu,“ segir Miloslav Račanský, þjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur og aðalþjálfari barnastarfs félagsins, í samtali við vef ÍHÍ. „Frændur mínir voru allir í íshokkí og sá elsti þeirra var atvinnumaður, hann var í tékkneska landsliðinu og spilaði auk þess með liðum í NHL-deildinni, þangað komst hann gegnum Toronto Maple Leafs í Kanada. Þannig að mín leið lá auðvitað í íþróttina þegar ég var fjögurra ára,“ heldur Miloslav áfram.
Frændinn í atvinnumennskunni er Tomas Kucharcik sem á sér heilmikinn feril svo sem sjá má af ferilskráningu hans á heimasíðu NHL. Þar er saga hans með fjölda liða skráð allt frá 1989 til 2013 en Tomas er fæddur árið 1970 og löngum keppnisferli því lokið.
Miloslav er hins vegar fæddur árið 1993. Hann byrjaði að æfa með liði heimabæjar síns, Vlašim, „þar tók ég fyrstu skrefin á ísnum“ segir hann og kveður aðspurður margt hafa breyst er að íþróttinni snýr í Tékklandi á þeim tíma sem liðinn er frá því hann var byrjandi fjögurra ára gamall.
Þú finnur alltaf skautasvell
„Býsna margt hefur breyst í hokkíinu í mínu heimalandi, til dæmis hvernig ungir iðkendur eru aldir upp, aðferðafræði þjálfara og margt fleira, en íshokkímenningin í Tékklandi er mjög sterk og Tékkar eru íshokkíþjóð, ég get alveg sagt að þetta sé sú íþrótt sem er í fyrsta sæti hjá okkur og áhugi á henni er mjög útbreiddur. Það er nánast sama til hvaða smábæjar þú ferð í Tékklandi, þú finnur alltaf skautasvell,“ segir þjálfarinn og telur upp glæsta sigra Tékka á svellinu á alþjóðavettvangi, svo sem sigur á Vetrarólympíuleikunum í Nagano í Japan árið 1998 auk þriggja sigra í röð á heimsmeistaramótum áranna 1999 til 2001.
Hvernig lá leið tékkneska þjálfarans þá til lands elds og ísa?
„Það er löng saga,“ svarar Miloslav og hlær. Segir hann svo frá því þegar hann þrettán ára gamall fluttist til höfuðborgarinnar Prag með fjölskyldu sinni. „Þá fór ég að spila með Slavia Prag og var þar í tvö ár áður en ég skipti um félag og fór að spila með öðru félagi, Havlíčkův Brod, í U18 og U20. Þar var ég í fjögur ár og við lok þess tímabils átti ég eitt ár eftir í unglingaflokki og það ár var ég hjá Kometa Brno sem var síðasta árið mitt í efstu deild í unglingaflokki,“ rifjar Miloslav upp en Kometa Brno er annálað félag í Tékklandi sem fagnar einmitt 70 ára afmæli sínu nú í ár.
Vegir liggja til allra átta
Er þarna var komið sögu stóð Miloslav á krossgötum á ferli sínum. Honum buðust ýmis tilboð héðan og þaðan og líf ungs hokkíleikmanns var óneitanlega spennandi á þessum punkti. „Þarna var kominn tími til að fara að vinna og standa undir sér fjárhagslega, hætta að lifa á pabba og mömmu,“ segir Miloslav og hlær.
Þar með kom Íslandsför inn í myndina. „Þá tók ég þá ákvörðun að fara til Íslands, Zdeněk Procházka vinur minn hafði verið hér í nokkur ár að spila og þjálfa hjá Skautafélagi Reykjavíkur og ég hringdi í hann og sagði honum að ég vissi ekki hvert ég ætlaði, mig langaði hins vegar að halda áfram hokkíiðkuninni og hafa íþróttina, sem ég hefði stundað alla ævi, hluta af lífi mínu áfram,“ segir Miloslav frá.
Zdeněk sagði honum að þá yrði hann að byrja á því að koma sér til Reykjavíkur svo það varð úr að Miloslav settist um borð í flugvél og hélt til eyjarinnar í norðri. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég kom til Íslands og ég vissi ekki einu sinni hvar þetta land var,“ segir hann og hlær. Þetta var á því herrans ári 2013.
„Til að byrja með þurfti ég að finna mér vinnu, ég hafði aldrei unnið áður, bara spilað íshokkí svo þetta var mikil breyting,“ heldur Miloslav áfram en fyrsta starfið á Íslandi var hjá timburvinnslunni Fjölinni þar sem hann vann við ýmsa innréttingasmíði, í eldhús og fleira. Það var svo árið 2015 sem hann tók sín fyrstu skref sem þjálfari hjá Skautafélagi Reykjavíkur og frá 2019 hefur hann sinnt þeirri iðju sem fullu starfi.
Talaði hvorki ensku né íslensku
Fram að því gátu dagarnir hins vegar orðið býsna langir með vinnu frá átta til fimm og svo kennslu fjórum sinnum í viku auk eigin æfinga á ísnum. „Tíminn leið býsna hratt þá,“ segir Miloslav frá.
Hvernig gekk tvítugum Tékka, sem vissi ekki einu sinni að Ísland væri til fyrr en hann kom þangað, að fóta sig í íslensku samfélagi fyrstu mánuðina?
„Maður lifandi!“ svarar Miloslav, „ég talaði hvorki orð í ensku né íslensku svo fyrsta árið var bara þannig að ég var að læra tvö tungumál samtímis sem voru einmitt íslenska og enska. Svo á öðru árinu hér fór nú landið að rísa og ég tók framförum, mikið til er það þeim Robbie Sigurðsson [Robert Michael Sigurðsson] og Sam Krakauer að þakka sem æfðu með mér hjá SR, við urðum miklir vinir,“ heldur hann áfram af fyrstu misserunum í nýju landi.
Miloslav segist fljótlega hafa veitt því athygli hve vingjarnlegir Íslendingar voru í hans garð, það hafi verið gott veganesti fyrstu skrefin fyrir utan að hann skildi ekkert hvað fólk var að segja á þessum tíma. Þegar hann var svo farinn að kenna börnum hjá SR og átta sig betur á þessu nýja samfélagi hafi hann smátt og smátt farið að skilja íslenska þjóðarsál sem að hans mati er gjörólík þeim þjóðfélagsanda sem hann þekkir svo vel frá sínu heimalandi.
Íslenska stundvísin aðdáunarverð
„Krakkarnir hérna eru svo fljótir að læra, þeir vilja bara gera hlutina, þetta eru svo miklir víkingar,“ segir Miloslav og hlær innilega. Á einhverjum tímapunkti þroskans verði hins vegar breyting á. „Sá tími kemur að hugsunarhátturinn breytist, áhuginn tekur að dvína og iðkendur fara að gefast upp. Aðrir hlutir fara fram fyrir íshokkíið í forgangsröðuninni. Við eyðum miklu púðri í að halda áhuga iðkendanna og það er stanslaus vinna,“ segir þjálfarinn sem hefur nú orðið býsna víðtæka reynslu af kennslunni.
Annað sem er honum mjög ofarlega í huga er íslenska stundvísin. Varla gerist það nokkurn tímann að hans nemendur mæti seint á æfingar. „Þannig var það sko ekki í mínu ungdæmi, ég var alltaf of seinn og var annaðhvort settur á bekkinn eða æpt á mig,“ segir þessi geðþekki þjálfari og hlær enn.
Miloslav lætur vel af vikulegri dagskrá sinni nú orðið þegar líf hans er löngu fallið í fastar skorður. Hann kennir tvær morgunæfingar á viku en auk þess þjálfar hann alla barnaflokkana þrjá daga vikunnar og er þá stanslaust á svellinu frá klukkan tæplega þrjú og fram til sjö að kvöldi. Einhverja daga er hann svo með tvær æfingar og nú ber svo við að hann er sjálfur farinn að æfa aftur en á því varð hlé þegar sem mest var að gera fyrstu árin á landinu.
Hæstánægður á Fróninu
„Ég var farinn að sakna þess mjög mikið og æfa og nú er ég líka að fara að keppa aftur,“ segir Miloslav en þegar þetta viðtal var tekið, í lok febrúar, var hann á leið norður yfir heiðar til keppni á Akureyri helgina eftir.
Miloslav er ákveðinn í að búa áfram á Íslandi, því hikar hann ekki við að svara þegar hann er inntur eftir framtíðaráætlunum. „Kærastan mín vinnur líka hjá SR, hún er að kenna þar listdans á skautum. Hún er ítölsk og ég kynntist henni á svellinu, það er auðveldasta leiðin fyrir mig til að ná mér í kærustu,“ segir Tékkinn hlæjandi.
„Auðvitað á maður aldrei að segja aldrei, maður getur í raun ekki vitað hvað gerist í framtíðinni eða hvaða tækifæri koma upp, en ef ég lít til næstu ára þá verð ég að segja að ég er mjög ánægður hérna á Íslandi, ég kann vel við mig hér og hér á ég heima,“ segir Miloslav Račanský í lok fróðlegrar sögu sem hófst í Vlašim í Tékklandi og lýkur á skautasvelli í Reykjavík, borg sem hann vissi ekki fyrir tíu árum að væri til.