SR jafnar og hreinn úrslitaleikur á skírdag | Úrslitakeppni Hertz-deildar karla

SR jafnar og hreinn úrslitaleikur á skírdag | Úrslitakeppni Hertz-deildar karla

SR fagnar í leikslok í Laugardalnum í leik fjögur. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

SR jafnaði metin í 5-3 sigri í Laugardalnum í kvöld og verður því, eins og í fyrra, hreinn úrslitaleikur um íslandsmeistaratitilinn fyrir norðan í leik fimm.

Leikurinn var hnífjafn og æsispennandi allt fram á loka-mínútur er Axel Orongan gerði út um hann með marki í opið netið.

SA byrjaði leikinn með marki í yfirtölu á fjórðu mínútu frá Una Sigurðarsyni. SR svaraði manni færri í næstu sókn er Axel Orongan komst einn inn fyrir vörn SA og skoraði framhjá Jakobi. Felix Sareklev bætti við öðru marki heimamanna á nítjándu mínútu.

Gunnlaugur Þorsteinsson jók forystu SR-inga á fimmtu mínútu annars leikhluta í 3-1 og Ólafur Björnsson kom þeim stuttu síðar í 4-1. Jóhann Leifsson minnkaði muninn í 4-2 um miðjan leik í yfirtölu en SR-ingar voru mikið í refsiboxinu í leiknum en öll mörk gestanna komu einmitt í yfirtölu.

Aftur var Jóhann á ferðinni í byrjun þriðja leikhluta og minnkaði muninn í 4-3 og spennan í hámarki er fimmtan mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru það SA-ingar sem lentu í refsivandræðum næstu tíu mínútur leiksins. Er mínúta var eftir af leiknum var Jakob tekinn af velli og sóknarmanni bætt við til að freista þess að jafna en allt kom fyrir ekki og Axel innsiglaði sigur heimamanna.

Sama uppskrift og í fyrra

Jóhann Björgvin Ragnarsson, markvörður SR. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Jóhann Ragnarsson spilaði síðustu tvö tímabil í Tékklandi en kom heim í uppeldisfélagið og hefur verið öflugur milli stanganna í vetur.

Jæja Jóhann 5-3 sigur í leik fjögur, staðan tvö-tvö og hreinn úrslitaleikur um titilinn. Þetta er að spilast svipað og í fyrra eða hvað? „Já þetta er alveg eins og í fyrra, við unnum fyrsta, töpuðum svo tveim og jöfnuðum, svo þetta eins og núna. Við hugsum þetta bara eins og sömu uppskrift og í fyrra og við klárum þetta núna fyrir norðan.“

Leikur eftir tvo daga, hvernig er mannskapurinn? „Ég get talað fyrir sjálfan mig að ég sé ferskur. Við fengum náttúrulega tvo daga í hvíld núna frá síðasta leik. Við tókum frí á sunnudag og svo létt skaut í gær og mér finnst mannskapurinn vera ferskur.“

Þessi auka dagur hefur gert gæfumuninn. „Já, en svo er þetta náttúrulega play-offs svo ef menn eru laskaðir þá harka þeir bara í gegnum það. Það er ekkert að vera meiddur í play-offs. Það er einn leikur eftir svo hefur þú allt sumarið til að jafna þig.“

Síðasti leikur blaut tuska í andlitið

Þið fenguð skell í síðasta leik, margir hafa nefnt rútuferðina sem ástæðu þar sem rútan ykkar lenti utanvegar? „Jaa það er auðvelt að kenna því um að við lentum í einhverju veseni á leiðinni, það hefur kannski einhver áhrif en þetta var aðallega bara fókusleysi. Þetta var alveg jafn leikur fannst mér framan af en þeir fengu mikið af dauðafærum og nýttu þau betur og við klúðruðum mikið af okkar dauðafærum. Úrslitin sögðu ekki endilega til um leikinn fannst mér.“

„En þetta var blaut tuska í andlitið og við vorum með það í huganum í dag, við vorum með svona „chip on our shoulder“ og við þurftum að losna við það.“

Þetta er ástæðan fyrir því að við erum í þessu

Gunnar Arason. Ljósmynd: Skautafélag Akureyrar

Varnarmaðurinn öflugi Gunnar Arason gekk aftur til liðs við uppeldisfélagið eftir að hafa spilað með Osby IK í Svíþjóð í vetur.

Það er tvö-tvö í seríunni og einn leikur eftir, hvað fannst þér um þennan leik? „Þetta var bara ekki nógu gott hjá okkur í dag. Þeir bara mættu klárir og ekki við og þá bara endar þetta svona, ekki flókið.“

Var eitthvað sérstakt sem munaði á liðunum? „Nei, þeir vildu þetta bara meira en við í dag, sem er ekki nógu gott. Við svo sem vitum hvað við þurfum að laga og leikur fimm á fimmtudaginn. Það er ástæðan fyrir því að við erum í þessu.“

Núll-núll og allt undir

Nú er þetta að spilast svipað og í fyrra, þið viljið ekki að þetta endi eins samt. „Nei nei, þetta er bara ný sería, nýtt ár og nýr leikur. Það er enginn að pæla í hvað gerðist í fyrra, bara það lið sem vinnur á fimmtudaginn verður Íslandsmeistari. Skiptir engu máli hver vann þennan leik eða síðasta leik, fyrir þrem árum eða fimm árum. Það er bara núll-núll og allt undir.“

Nú sigruðu þið nokkuð örugglega í síðasta leik fyrir þremur dögum, hvað voruð þið að gera rétt þá? „Við bara vildum þetta meira þá, skautuðum eins og vitleysingar og settum pökkinn inn í markið oftar en þeir – öfugt í dag.“

Viltu eitthvað spá fyrir um leik fimm? „Nei nei, bara liðið sem vill þetta meira vinnur og vonandi koma sem flestir og þetta verður bara skemmtilegt.“

Hægt er að horfa á streymi af leiknum á Youtube rás ÍHÍ og skoða tölfræði leiksins hér.

Hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn verður eins og áður sagði á skírdag, núna á fimmtudag kl. 16.45 á Akureyri.

Höfundur: