Halda að kylfurnar séu til að berja keppinautana

Halda að kylfurnar séu til að berja keppinautana

Birt: 24.11.2023Flokkar: Fréttir, GreinarMerki: , , ,

Emil Alengård, þjálfari Fjölnis í Egilshöll. Mynd: Helgi Páll Þórisson

„Ég held að ég hafi verið sex ára gamall þegar ég byrjaði í hokkískóla í Linköping í Svíþjóð,“ segir Emil Alengård, yfirþjálfari íshokkídeildar Fjölnis, „Linköping er nokkuð stór, held hún sé fimmta stærsta borg Svíþjóðar. Við vorum mörg í heimili, ég á fjóra bræður og svo voru það foreldrarnir auðvitað,“ heldur hann áfram og kveðst hafa prófað ýmsar íþróttir sem barn, svo sem borðtennis, hand- og fótbolta, en að lokum hafi íshokkíið verið það sem heillaði Svíann unga og frá fjórtán eða fimmtán ára aldri kveður Emil örlög sín hafa verið ráðin, frá þeim tíma var kalt svellið hans vettvangur.

Kynjaskipting í íþróttinni var tiltölulega ójöfn á öldinni sem leið, eins og margir iðkendur sem komnir eru af léttasta skeiði kannast við, og fyrstu ár Emils í hokkíinu voru þar ekkert nema strákar. „Við sem vorum í hokkíinu héldum mikið hópinn og fyrir vikið missti maður dálítið af því að vera í félagslegum tengslum við fjölbreyttan hóp,“ rifjar Emil upp af þessum fyrstu árum sínum í hokkíinu.

„Ég var nú ekki með þeim bestu í liðinu, eiginlega bara í meðallagi, og þegar ég ákvað að sækja um í menntaskóla sem gerir út á íshokkí var umsókn minni hafnað,“ segir Emil en í Svíþjóð eru á fjórða tug menntaskóla sem eru svokallaðir „hockeygymnasium“ og þurfa umsækjendur að vera sterkir á svellinu, bókstaflega, til að komast þar inn.

Email Alengård þjálfari Fjölnis ásamt Kolbrúnu Garðarsdóttur. Ljósmynd Bjarni Helgason

Fékk þvert nei við heimför

Emil tók stórstígum framförum næstu árin og var að lokum svo komið þegar hann var tæplega tvítugur að honum var nauðugur einn kostur að flytja til að komast í félag sem gerði honum kleift að vaxa áfram sem leikmaður. Hann flutti því til Smálandanna svokölluðu í Svíþjóð og hóf leika með Gislaveds SK.

„Þetta var eiginlega bara erfiður tími,“ rifjar Emil upp, „ég var að flytja að heiman í fyrsta skipti, var kominn til bæjar sem var allt öðruvísi en Linköping, mun minni og andrúmsloftið allt annað. Mig langaði eiginlega bara aftur heim,“ segir hann og vildi flytja til Mjölby, örskammt frá Linköping, og fara að æfa þar. En við því fékk hann einfalt nei hjá Gislaveds, þar væri hann samningsbundinn og þar yrði hann út tímabilið. „Margir leikmenn voru meiddir og frá keppni og ég fékk ekki að fara heim,“ segir Emil og hlær að þessum löngu liðnu atburðum en þetta var veturinn 2007 til ’08.

Er hér var komið sögu var stutt í stórt ævintýri hjá Emil. Hann fékk inni í liði New England College í New Hampshire í Bandaríkjunum þar sem hann lagði stund á hagfræðinám og rekstrarfræði íþrótta (e. sports management). „Þar var ég í tvö ár og þetta var náttúrulega bara ævintýri,“ segir Emil sem nú bjó skyndilega við þær aðstæður að allt hans líf var á sama punktinum. Hokkísvellið var á skólalóðinni og hann bjó á heimavist svo sem mjög tíðkast við ameríska háskóla svo æfingar, nám og búseta fóru algjörlega saman. „Þetta var býsna þægilegt,“ rifjar Emil upp.

Fangavörðurinn í Mjölby

Kærastan hans bjó hins vegar í Svíþjóð svo hugurinn stefndi alltaf heim og þangað hélt Emil því að lokinni tveggja ára dvöl vestanhafs. Þar með var komið að því að hefja hokkíleik hjá Mjölby HC þar sem Emil staldraði við í tvö ár áður en hann hélt til Norrköping og gekk til liðs við liðið Hvíta hestinn eða Vita Hästen, stórt félag sem vildi fá Emil í sínar raðir. Eitt ár þar var honum ánægjulegt þótt honum þyki reyndar enn gremjulegt að liðinu hafi ekki auðnast að vinna sig upp um deild á þessum tíma, en maður fær ekki allt í þessu lífi sem kunnugt er.

Emil fór því næst til baka til Mjölby og hóf um leið störf sem fangavörður í fangelsi skammt frá Linköping. „Ég fékk auðvitað eitthvað greitt fyrir íshokkíið en í Svíþjóð geta fæstir lifað á því svo maður þarf að hafa vinnu með sem getur passað vel eða illa við keppni og æfingar. Fangavarðarstarfið passaði ágætlega hjá mér, ég var auðvitað að vaxa og dafna á vinnumarkaði samhliða íþróttinni,“ segir Emil af þessu tímabili ævi sinnar.

Íshokkílið bæjarins Skövde, ekki langt frá Gautaborg, varð næsti vettvangurinn en í kjölfarið þyrsti Emil í að mennta sig meira, komið fram á miðjan annan áratug þessarar aldar og hann að verða þrítugur. Hann lagði því fyrir sig nám í íþróttafræðum í Stokkhólmi með áherslu á verklag og aðferðafræði þjálfara og nam við rómaðan íþróttaháskóla, Gymnastik- och idrottshögskolan, samhliða því sem hann fór að spreyta sig á íshokkíþjálfun barna.

Til lands elds og ísa

Emil dvaldi í Stokkhólmi í fimm ár og nú var komið að vatnaskilum í lífi hans. Kynntist hann þar íslenskri konu og felldu þau hugi saman enda par enn þann dag í dag. „Málin þróuðust þannig að við fluttum til Íslands. Hún var að læra sálfræði og vildi halda því námi áfram á Íslandi og þá bauðst mér starf hjá íshokkídeild Fjölnis og þar er ég nú enn í dag,“ segir Emil og hlær, nú á sínu þriðja ári hér á landi.

„Ég hef tekið þátt í því að byggja upp það starf sem þar er og lokka fleiri iðkendur að íþróttinni auk þess að þjálfa samkeppnishæfan meistaraflokk og starfa með öðrum þjálfurum sem þar eru. Þetta er mjög fjölbreytt starf og mikið að gera en svo er ég með aukavinnu í Borgarholtsskóla,“ segir Emil frá en þar kennir hann íshokkí á afreksíþróttasviði því sem skólinn starfrækir og boðið er upp á nokkrar íþróttagreinar á. Þar kennir hann tvisvar í viku og segir nemendahópinn fara stækkandi.

Freistandi er að spyrja Svíann út í menningarmun Íslands og hans heimalands þegar íshokkííþróttin er annars vegar.

Emil hugsar sig um í stutta stund. „Ég hafði leikið með íslenska landsliðinu áður en ég fór að þjálfa svo ég kynntist íslenska andanum í íþróttinni snemma. Og það er kannski sá andi sem hefur heillað mig. Kunnáttan og færnin á ísnum er ekkert sú mesta á Íslandi en það er krafturinn og liðsheildin sem heillar mig. Gleðin yfir árangri og sú tilfinning að maður tilheyri sterku liði heillaði mig. Handboltinn er auðvitað risastór hjá ykkur og íshokkí er ekki langt á veg komið hér á landi. Hér þarf að gæta þess að huga að hverjum einstaklingi líka í stað þess að einblína á liðið sem heild,“ segir Emil af upplifun sinni og leggur áherslu á vöxt og þroska hvers iðkanda sem hlúa þurfi að.

Næsta skrefið að stækka íþróttina

Hann segir vöxtinn í íþróttinni á Íslandi ánægjulegan þótt hún sé enn sem komið er tiltölulega smá í sniðum. Ætli íslenskur leikmaður sér að öðlast verulega færni og halda áfram á vegferð sinni umfram það sem komist verður hér á landi verði sá að leita hófanna erlendis hjá stærri íshokkíþjóðum, rétt eins og fram hefur komið hjá öðrum viðmælendum hér á vefnum.

„Næsta skrefið er einfaldlega að auka umfang íþróttarinnar hér á landi, fjölga iðkendum og koma upp liðum og keppnishöllum á fleiri stöðum en bara í Reykjavík og á Akureyri. Auðvitað eru aðstæður mismunandi milli staða á landinu en þetta er það sem maður vonar að verði að raunveruleika í framtíðinni,“ játar þjálfarinn sænski og augljóst að honum brennur eldur í hjarta fyrir hönd íshokkííþróttarinnar hér á landi.

„Íshokkí á sér svo djúpar sögulegar rætur í Svíþjóð, þar hefur það verið áberandi íþrótt um margra kynslóða skeið,“ segir Emil, spurður út í hinn mikla áhuga Svía á íþróttinni sem hefur komið þeim á stall sem helstu íshokkíþjóð Norður-Evrópu ásamt Finnum sem einnig una hag sínum vel á svellinu með kylfu í hendi.

„Eins eru svo margir sem prófa íshokkí í Svíþjóð sem börn og unglingar, fjöldi leikmanna hefur öðlast töluverða frægð í landinu og má eiginlega segja að almennt fari mjög gott orð af íþróttinni í Svíþjóð,“ útskýrir Emil og bendir á að einn munurinn á Íslandi og Svíþjóð felist í fyrsta atriðinu sem hann nefndi, ekki er nærri eins algengt á Íslandi að íshokkí sé meðal þeirra íþrótta sem fólk byrji í sem börn.

The Mighty Ducks er ekki málið

„Hér er það handboltinn, fótboltinn og körfuboltinn sem liggur beinast við að krakkar prófi sem fyrstu íþrótt. Margir þeirra iðkenda sem byrja hjá okkur í Fjölni eru til dæmis búnir að prófa hand- eða fótbolta en þessar íþróttir voru kannski ekki það sem virkaði fyrir þá svo þeir prófa íshokkí og eru þá orðnir aðeins eldri, íshokkíið er ekki fyrsta íþróttin eins og oft er í Svíþjóð,“ segir Emil og greinilegt að hann þekkir landslagið eins og handarbakið á sér.

„Við tökum bara eitt ár í einu en næsta árið verður alla vega hér á Íslandi,“ svarar yfirþjálfarinn hjá Fjölni, inntur eftir framtíðaráformum sínum, „en mig langar mikið að halda áfram að vinna í því hér á landi að laða fleiri iðkendur að íþróttinni og líka svolítið að kenna fólki að skilja íshokkí. Sú mynd sem Íslendingar hafa af íþróttinni er örlítið brengluð, sumir hugsa fyrst og fremst til [kvikmyndarinnar] The Mighty Ducks og halda að þetta séu bara slagsmál. Fólk er þarna vopnað kylfum og sumir halda að þetta gangi út á að lemja keppinautinn með þeim,“ segir Emil og getur ekki varist hlátri.

Kveður hann það almenna þjóðtrú hérlendis að engar reglur ríki í íshokkí og meiðsli séu þar mun algengari en í öðrum íþróttum. Hvort tveggja sé þó alrangt, regluverkið strangt og slys ekki tíðari en í hvaða boltaíþrótt sem vera skyldi. „Hokkíið er í raun mjög örugg íþrótt og hún gengur alls ekki út á að keppendur slái hver annan niður, hún gengur út á að vinna hitt liðið. Miklu skiptir að kenna ungum iðkendum að skilja liðsheildina, við viljum ala upp góðar manneskjur hjá Fjölni sem átta sig á því hvað það er að vera hluti af liði sem spilar saman, slíkur skilningur nýtist fólki líka á öðrum sviðum í lífinu, hvort sem það heldur áfram að æfa og spila íshokkí eða ekki,“ segir Emil Alengård, yfirþjálfari íshokkídeildar Fjölnis, undir lok fróðlegs spjalls um líf hans, feril og hugsjónir.