Fjölnir svaraði fyrir sig | Hertz-deild kvenna

Fjölnir svaraði fyrir sig | Hertz-deild kvenna

Berglind Leifsdóttir sækir að Andreu í marki SR í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Fjölnir tók á móti spútnik-liði SR í Hertz-deild kvenna í kvöld sem hafði byrjað árið með tveimur sigrum. Það var fljótt ljóst að Fjölnir ætlaði að svara fyrir 6-3 tapið í Laugardalnum fyrir viku síðan og endaði leikurinn í kvöld 6-0.

Það var kraftur í báðum liðum í fyrsta leikhluta og áttu bæði góð færi sem markmenn vörðu vel. Fjölnir náði undirtökum á leiknum og sótti stíft og en tókst þó ekki að brjóta aftur vörn SR fyrr en á 14. mínútu er Sigrún Agata skoraði eitt af sínum einkennis mörkum fyrir framan mark SR. Laura-Ann Murphy skoraði svo annað mark heimakvenna nokkrum mínútum síðar eftir baráttu fyrir framan mark SR. 2-0.

Alexandra úr SR og Teresa úr Fjölni á ísnum í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Fjölnir tók öll völd á ísnum í öðrum leikhluta.  Guðrún Viðarsdóttir skoraði fyrsta mark leikhlutans með löngu skoti utan af velli eftir 5 mínútur. Stefanía Elísabethardóttir jók forystuna 8 mínútum síðar með öðru skoti utan af velli. Fimmta mark Fjölnis skoraði Hilma Bergsdóttir, 40 sekúndum síðar, eftir baráttu fyrir framan mark SR. Síðasta mark leikhlutans og leiksins kom svo frá Fjölni konu fleiri er Sigrún Agatha skaut föstu skoti sem Berglind Leifsdóttir kom kylfunni í og breytti um stefnu áður en pökkurinn endaði í netinu.

SR-ingar komu sterkari til baka í loka leikhlutanum og náðu aðeins vopnum sínum gegn sterkum Fjölniskonum en fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 6-0 fyrir Fjölni.

Gáfu sig allar í leikinn

Berglind Leifsdóttir, sóknarmaður úr Fjölni, hefur verið öflug í vetur og er með 18 stig eftir leikinn í kvöld þar sem hún var með mark og stoðsendingu.

Þið svöruðuð fyrir síðast leik gegn SR hérna í kvöld? „ Já heldur betur, við ætluðum svo mikið að vinna þennan leik. Við vorum tilbúnir í að gefa okkur allar í þetta eins og sást á ísnum.“

Fyrsta lota var kannski jöfnust svo var þetta nánast einstefna í annarri: „Já við vorum eiginlega allan annan leikhluta í sóknarsvæðinu og ætluðum gjörsamlega að rústa þessum leik. En í þriðja leikhluta komu þær alveg sterkar til baka og voru alveg að sækja mikið að okkur.“

Markmiðið að vinna alla leiki

Fyrir þennan leik varst þú stigahæst í Fjölnisliðinu, fórst upp fyrir Sigrúnu Agöthu. Er einhver innbyrðis keppni í gangi milli ykkar? „Nei við höfum ekki talað um neina keppni innbyrðis“ svarar Berglind hlægjandi og bætir svo við „En það er alltaf gaman þegar maður er að fá mörg stig, fyrir sjálfa mig er það markmið að skora meira og eiga stoðsendingar. Ég er ánægð með að vera þarna rétt á eftir Sillu á stigalistanum.“

Nú kemur þú að norðan fyrir þessa leiktíð, hvernig er að spila hér í Reykjavík miðað við Akureyri? „Þetta er alveg búið að vera krefjandi, að skipta um lið, maður hefur alltaf verið í SA fyrir utan hálft tímabil í Svíþjóð. Það er öðruvísi að vera allt í einu að spila á móti SA.“

Fjölnir er með stjörnum-prýtt lið í vetur og til alls líklegar í úrslitum gegn SA. „Ég ætlaði að koma inn í þetta tímabil og vinna alla leiki, það er markmiðið hjá okkur. Við erum með drullugóða leikmenn en við þurfum að hafa aðeins meira sjálfstraust og trúa að við getum unnið þetta. Við erum með drullugott lið eins og sást hér í kvöld“ bætir Berglind við að lokum.

Milos aðalþjálfari kvennaliðs SR. Ljósmynd Bjarni Helgason

Skrefi á eftir

Milos tók við kvennaliði SR í upphafi tímabils og hann ásamt Sölva aðstoðarþjálfara hafa náð miklum framförum með liðið í vetur.

Hvað fannst honum um leik kvöldsins? „ Við vorum ekki að hreyfa okkur og alltaf skrefi á eftir Fjölni. Við vorum að tapa 50/50 pekkjum og gefa þeim allt of mikinn tíma. Þær voru aktívari með og án pökksins og fyrsta línan þeirra var mjög góð, erfitt að spila á móti þeim í svona stuði. Andrea var mjög góð í markinu hjá okkur, hélt okkur uppi en við vorum ekki að hjálpa henni nóg.“

Liðið sótti sín fyrstu stig með tveimur sigrum í vikunni – en hver er munurinn á þessum leik og þeim tveim? „Kannski er þetta þreyta, þetta er þriðji leikurinn okkar á viku. Við komum seint heim á sunnudagsnótt [aðfaranótt mánudags] og svo eru allir í skóla og vinnu í gær en tókum létta æfingu í gærkvöldi.“

„En við kláruðum leikinn með höfuðið hátt eftir erfiða aðra lotu. Við töluðum ekkert um leikplan í seinna leikhléinu bara andlega hluti – sem virkaði. Við settum okkur það markmið að sigra þriðju lotu en náðum 0-0 jafntefli. Við fókusum svo bara strax á næsta leik, við viljum fleiri sigra, leikmenn eru orðnir svo góðu vanir eftir að hafa skorað 10 mörk í tveimur leikjum.“

Komu andstæðingunum á óvart

Það er mikill munur á liðinu frá því í fyrra, hver er galdurinn á bakvið þessa tvo sigurleiki í röð? „Ég er enn að melta það, veit það ekki alveg“ segir Milos og hlær. „Í þessum sigurleikjum voru allar línur að hreyfa sig, sækja fast og spila svo af ábyrgð í vörninni. Æfingar um jólin hjálpuðu líka mikið. Held að meistaraflokkar, hjá SR allavega, hafi aldrei æft svona vel um jólin. Ekki bara jólahokkí á aðfangadag og slaka svo á fram yfir áramót. Ég held við höfum komið hinum liðunum á óvart með hraða og fókus í fyrstu leikjunum tveimur“ segir Milos að lokum.

Fjölniskonur fagna einu marka sinna í Egilshöll í kvöld. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Næsti leikur í Hertz-deild kvenna er á laugardaginn er SA-ingar taka á móti Fjölni kl. 19.30 á Akureyri.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ

Höfundur: