Reykjavíkur slagur í Egilshöll | Hertz-deild kvenna

Reykjavíkur slagur í Egilshöll | Hertz-deild kvenna

Mynd úr safni. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Tveir leikir fóru fram á sama tíma í báðum Hertz-deildum í kvöld. Í Laugardalnum áttust SR og Fjölnir við í Hertz-deild karla og í Egilshöll mættust Fjölnir og SR í Hertz-deild kvenna. 

Fyrsta lotan á milli SR og Fjölnis í Egilshöllinni var gríðarlega jafn. Síðustu tvö skiptin sem liðin hafa mæst hafa þau skipt á milli sín sigrum og greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir.

Markalaust stóð í lok fyrstu lotu og byrjaði önnur lotan á svipuðum nótum. SR konur gerðust klaufskar tæpar 6 mínútur inn í lotuna og misstu tvo leikmenn af velli með stuttu milli bili. SR spilaði 3 á 5 í 1:30 mín sem var kjörið tækifæri fyrir Fjölni að komast yfir. SR vörðust gríðarlega vel, þrátt fyrir mannekluna, og Andrea Bachmann markmaður SR á fullan heiður skilin fyrir sinn þátt. SR stóð af sér linnulausa sókn í 2 mínútur og fengu 5 manninn inn á en þá loksins náðu Fjölnis konur að skila pekkinum inn í markið.

Segja má að markastíflan hafi brostið hjá Fjölni því þær skoruðu tvö mörk til viðbótar á 30 sekúndum. Staðan var því 3-0 í lok annarar lotu.

SR náði að laga stöðuna í 3-1 snemma í þriðju lotu og gáfu vel í í sóknina sína. Fjölnir gerði vel í að hleypa SR ekki lengra inn í leikinn og gerði að endanum út um leikinn með fjórða marki þeirra. Leikurinn endaði með 4-1 sigri Fjölnis.

Mörk og stoðsendingar Fjölnis: Berglind Leifsdóttir (2/0), Teresa Snorradóttir (1/1), Elín Darkoh (1/0), Hilma Bergsdóttir (0/1), Laura Murphy (0/1), Eva Hlynsdóttir (0/1), María Sól Kristjánsdóttir (0/1)

Mörk og stoðsendingar SR: Heiður Atladóttir (1/0), Freyja Schaefer (0/1), Tinna Þorbjörnsdóttir Byrnaes (0/1).

Upptöku af leiknum má finna á youtube-rás ÍHÍ og leikskýrslu inn á Hydra ÍHÍ.