Sögulegur sigur í Laugardalnum | Hertz-deild kvenna

Sögulegur sigur í Laugardalnum | Hertz-deild kvenna

Ylfa Bjarnadóttir skorar fyrir SR, Thelma markvörður og Berglind til varnar. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

SR tók á móti Fjölni í Hertz-deild kvenna í Laugardal í kvöld og fór með sigur af hólmi 6-3. Þetta er fyrsti sigur liðsins síðan kvennalið SR var endurvakið árið 2020 og fyrsti sigur liðsins frá upphafi í venjulegum leiktíma.

Bæði lið fengu færi í fyrsta leikhluta en markmenn beggja megin vörðu vel. Það var svo Friðrika Magnúsdóttir sem braut ísinn fyrir SR þegar 5 mínútur voru eftir af leikhlutanum eftir skyndisókn í átt að marki gestanna. Satu Niniimäki bætti svo við öðru marki SR þegar aðeins 0.3 sekúndur voru eftir að leikhlutanum eftir hratt upplaup þar sem hún kom sér ein fyrir framan mark Fjölnis. 2-0 fyrir heimakonur eftir fyrstu lotu.

Frá leiknum í kvöld. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Annar leikhluti var á svipuðum nótum, Fjölnir var meira með pökkinn og átti fleiri skot en SR spilaði vel og beitti skyndisóknum. Það var SR sem bætti við forystuna eftir fimm mínútna leik er Þóra Sigurðardóttir skoraði með skoti frá miðju sóknarsvæðinu. Enn var SR á ferðinni 10 mínútum síðar með skyndiupplhaupi SR sem Thelma Matthíasdóttir markvörður Fjölnis stoppaði en Ylfa Bjarnadóttir fylgdi í kjölfarið og setti pökkinn í netið. 4-0 og staðan orðin fremur dökk fyrir gestina. Enga uppgjöf var þó að sjá á Fjölni sem skoraði stuttu síðar með marki Evu Hlynsdóttur utan af velli. 4-1 fyrir síðasta leikhluta.

Nú var að duga eða drepast fyrir Fjölni og sóttu þær stíft í síðasta leikhlutanum. Það var hinsvegar SR sem bætti í forystuna manni færri eftir skyndisókn hjá Sögu Blöndal eftir rúmar 8 mínútur. Berglind Leifsdóttir svaraði 2 mínútum síðar með marki fyrir Fjölni og 10 mínútur eftir af leikhlutanum. Hilma Bergsdóttir skoraði svo fyrir Fjölni, staðan 5-3 og aðeins fjórar mínútur til leiksloka og mikil spenna í loftinu. SR missir leikmann út af er tæpar þrjár mínútur lifðu af leiknum og Fjölnir bætti við sóknarmanni í stað Thelmu markvarðar til að þyngja sóknina. En allt kom fyrir ekki og Arna Friðjónsdóttir setti pökkinn í tómt netið á lokamínútunni. Sögulegur sigur SR í höfn.

SR átti 21 skot á mark og Fjölnir 44. Andrea Diljá í marki SR átti frábæran leik og varði 41 skot, rúm 93% hlutfall.

Þurfa að nýta færin mikið betur

Guðrún Marín Viðarsdóttir í leik í Egilshöll í vetur. Ljósmynd: Bjarni Helgason

Guðrún Marín Viðarsdóttir, varnarmaðurinn öflugi, var valin íshokkískona Fjölnis árið 2023. Hvað vildi hún um leikinn að segja?:
„Ég vil byrja að óska SR innilega til hamingju með að vinna fyrsta deildarleikinn sinn í venjulegum leiktíma, getum fagnað því að deildin sé að jafnast á Íslandi. SR spilaði mjög flottan leik, börðust allan tímann“.

Þið gerðuð harða atlögu að SR, sérstaklega í þriðja leikhluta: „Já við reyndum okkar besta í þriðja en Andrea var geggjuð og stórt hrós til hennar.“

Þetta var frekar jafn leikur ekki satt fram að því?: „Jú en mér fannst SR vera duglegri í fyrstu tveim, voru að berjast meira, voru aggressívari og voru að sigra þessi slagi um pekkina.“

Nú eruð þið á fullu að undirbúa liðið fyrir úrslitakeppina við SA: „Já sá undirbúningur gengur bara vel. Við áttum jafnvel betri leik en SA í síðasta leik, skutum meira á markið. Sem segir okkur, bæði í þessum leik og þeim síðasta, að við þurfum að nýta færin okkar miklu betur. Svolítið mörg skot framhjá sem við þurfum bara að bæta og æfa betur“ bætir Guðrún við að lokum.

April Orongan á ísnum í kvöld. Ljósmynd Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Byrjuðu með tvær línur

April Orongan er aðstoðarfyrirliði SR og hefur verið einn af hornsteinum liðsins síðan það var endurvarkið.
Til hamingju með fyrsta sigurinn ykkar, nokkuð sannfærandi 6-3 sigur, hvað getur þú sagt okkur um leikinn? „Við höfum ekki verið að koma af krafti í leikina fyrr en í þriðja leikhluta en í þessum leik komum við af krafti strax frá upphafi. Við vorum með rétt hugarfar, sem skiptir mjög miklu máli,  tibúnar í þennan leik enda búnar að æfa rosa vel saman.“

Þú hefur verið einn af kjarnaleikmönnum í liðinu frá upphafi sem byrjaði sem mjög fámennur hópur fyrir fjórum árum ekki satt? „Já við byrjuðum með 10 útileikmenn, tvær línur, en erum núna með rúmlega þrjár og hálfa línu af leikmönnum.“

Skjóta til að skora

Liðið hefur oft verið að spila jafna leiki í vetur og tapa með 1-2 mörkum, er eitthvað öðruvísi núna? „Við vorum með meira sjálfstraust núna, þegar leikirnir hafa verið jafnir höfum við verið svo stressaðar eins og sást í byrjun þriðja leikhluta. Við erum að tala meira saman, hvetja hver aðra áfram og svo langaði okkur mikið í þetta.“

Er liðið með þessum sigri að brjóta ísinn ef svo mætti segja? „Ég hef allavega trú á okkur, við ætlum að taka restina af leikjunum okkar. Milos er búinn að vera að leggja miklu vinnu í varnarsvæðið og á skotin en við höfum hingað til verið að skjóta til að skjóta. Núna erum við að skjóta til að skora“ bætir April við að lokum.

SR fagnar langþráðum sigri í kvöld. Ljósmynd: Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Næsti leikur í Hertz-deild kvenna er á sunnudag er SA tekur á móti SR kl. 18.30 í Skautahöllinni á Akureyri.

Streymi af leik kvöldsins má nálgast á Youtube rás ÍHÍ og tölfræði á vef ÍHÍ 

Höfundur: